Smáþáttur númer tvö,af fimmtíu og tveimur, í röðinni Öldin hennar var á dagskrá í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi. Þátturinn hét Stríðstískan. Árið var 1943, Þessir þættir eru gerðir í tilefni þess að öld er liðin síðan íslenskar konur fengu kosningarétt. Í þættinum var rætt við sagn- og kynjafræðing. Hún sagði okkur að sokkabuxur með saumi að aftan hefðu verið aðalmálið hjá konum á þessum tíma, á stríðsárunum síðari. Molaskrifari er ekki mjög fróður um klæðnað kvenna, en þykist þó alveg viss um að sokkabuxur komu ekki til sögunnar fyrr en talsvert löngu seinna og voru þá einmitt ekki með saum eða saumi að aftan. Þessi sama kona sagði okkur ,að á stríðsárunum hefðu íslenskar konur í fyrsta skipti orðið objects of desire !!! Eftirsóknarverðar. Urðu íslenskar konur ekki eftirsóknarverðar fyrr en upp 1940? Hvaða rugl er þetta og hversvegna þurfti konan að tala ensku við okkur? Vonandi verður vandað betur til þeirra þátt sem á eftir koma. Þarna var ekki vandað til verka. Konur eiga betra skilið.
K.Þ. benti á eftirfarandi frétt á visir.is (10.01.2015): http://www.visir.is/leitin-ad-boumeddiene-heldur-afram/article/2015150119976
Þar segir meðal annars: „Coulibaly banaði fjóra viðskiptavini verslunarinnar …“ Ja, hérna!. Þakka ábendinguna.
Lögregluaðgerðirnar í Frakklandi eru með þeim stærstu í sögu landsins, sagði fréttaþulur Stöðvar tvö á föstudagskvöld (09.01.2015). Við tölum ekki um stórar eða litlar aðgerðir. Við tölum til dæmis um umfangsmiklar aðgerðir eins og Þorbjörn Þórðarson fréttamaður réttilega gerði í þessum sama fréttatíma. Umfjöllun Stöðvar tvö um voðaverkin í Frakklandi var stórum betri í fréttum þetta kvöld en umfjöllun Ríkissjónvarpsins.
Þessi tvö samtök, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (09.01.2015). Það er erfitt að ná þessu. Samtök er fleirtöluorð. Þess vegna átti að tala um tvenn samtök.
Af mbl.is (09.01.2015): Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kom til hjálpar þegar eldri kona valt bíl sínum á Suðurlandsbraut um kl. 15.30 í dag. Fréttabarn á vaktinni? Konan velti bílnum. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/09/bill_a_hlidina_a_sudurlandsbraut/
Bílnum var komið á hjólin, segir einnig í fréttinni.
Gervihnattasamband brást, þegar Ríkissjónvarpið ætlaði að hefja útsendingu frá heldur lítilvægum æfingaleik í handbolta í útlöndum á föstudagskvöld (09.01.2015) Þá var skrifað á skjáinn: Bilun er á gervihnattasambandi. Unnið er að lausn. Betra hefði verið að segja að unnið væri að viðgerð.
Sögnin að olla, sem ekki er til (nema á stöku fréttamiðli) skýtur hér upp kollinum á mbl.is (09.01.2014): Hefur þetta ollið talsverðum deilum innan félagsins og þá sérstaklega hjá gistiþjónustuaðilum. Þetta hefur sem sé valdið deilum. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/09/olga_innan_samtaka_ferdathjonustunnar/
Kona sem tók þátt í umræðum í Vikulokum í Ríkisútvarpinu á laugardag (10.01.2015) talaði um lög um skiptingu prestkalla í Reykjavík. Hvernig skyldu menn skipta prestköllum?
Útúrdúr í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (11.01.2014) brást ekki frekar en fyrri daginn. Fínn þáttur og fróðlegur. Takk J.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
13/01/2015 at 13:10 (UTC 0)
Takk fyrir þetta, Orðvin. Amabagan er útbreidd og smitandi í EFstaleitinu. Málfarsráðunautur fjarri góðu ganmni.
Sigurður Karlsson skrifar:
12/01/2015 at 19:29 (UTC 0)
Brúunum yfir Eyrarsund og Stórabelti var lokað, sögðu bæði Bylgjan og Ríkisútvarpið í hádegisfréttum í gær. Var síðan breytt á visi.is þegar leið á daginn en ruv.is stendur við fréttina:
http://www.ruv.is/frett/illvidri-i-danmorku-og-svithjod
Orðavin skrifar:
12/01/2015 at 08:40 (UTC 0)
Talandi um fleirtöluorð. Í frétt ríkisútvarpsins http://www.ruv.is/frett/boyhood-sigursael-a-golden-globe er þrisvar talað um tvö verðlaun.
Orðavin