1655-15
Sigurður Oddgeirsson skrifaði frá Danmörku (17.01.2014): ,,Hann átti að dæma leik Gróttu og Mílan út á Seltjarnarnesi í gær ásamt Ingvari Guðjónssyni. Þeir félagar misskildu þó málið eitthvað og keyrðu alla leið inn á Selfoss”. Skyldi hér vera átt við AC Milan?
,,Þetta hef ég aldrei heyrt fyrr””, segir Sigurður. Sannar fyrir mér að þetta unga fólk, sem sér um fréttaskrif í dagblöðunum á þessum „síðustu og verstu tímum“ les yfirleitt aldrei eldri texta en frá 2010”. Alla leið inn á Selfoss??? Undarlegt orðalag, bætir Molaskrifari við.
Molaskrifari þakkar Sigurði bréfið.
Úr frétt á visir.is (16.01.2015): ,,Tvö stór Gullegg prýða nú eyjuna á tjörninni og spyr ja menn sig sjálfsagt hvaða stóri fugl hafi verið þar á ferð.” Það sem visir.is kallar eyjuna á tjörninni hefur svo lengi sem elstu menn muna heitið Tjarnarhólminn eða hólminn í Tjörninni. http://www.visir.is/gullegg-a-tjorninni/article/2015150119202
Tvo daga í röð heyrði Molaskrifari fallbeygingarvillur hjá fréttamanni/fréttaþul í Ríkisútvarpinu, þegar sagt var: ,, … einum af stjórnarmanni …”. Í seinna skiptið (16.001.2015) var sagt: ,,Haft var eftir einum af stjórnarmanni …” Rétt hefði verið að segja til dæmis: Haft var eftir stjórnarmanni ,eða, – haft var eftir einum af stjórnarmönnum … Málfarsráðunautur ætti að athuga málið.
Rafn spyr vegna fréttar á mbl.is (16.01.2015): Hvar er hugsun blaðamannsins? Fréttin,sem hann bendir á: ,,BMW skaust upp fyrir Mercedes-Benz sem söluhæsti lúxusbílsmiðurinn í Bandaríkjunum á nýliðnu ári.
BMW hélt þessum titli 2011 og 2012 en árið 2013 settist Mercedews-Benz í toppsætið þar til nú. Árið 2014 seldi BMW um 9.000 bílum fleira en árið 2013 var forskot Mecedes-Benz um 3.000 bílar.” http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/01/15/bmw_fram_ur_mercedes_benz/
Í þessari frétt á Moggavefnum kemur fram að BMW hafi haldið titlinum „söluhæsti lúxusbílsmiðurinn í Bandaríkjunum“ árin 2011 og 2012, sem bendir til að BMW hafi einnig borið þann titil á árunum þar á undan. Síðan hafi Mercedews-Benz (svo!) setzt í toppsætið þar til nú, 2014. Að mínu mati er þetta ekki eðlileg frásögn af því, að M-B hafi skotizt upp fyrir BMW í eitt ár. Hitt er annað mál, að munur bifreiðafjöldans er lítill, 9.000 bifreiða munur árið 2014 en 3.000 árið 2013.
PS: Hvað skyldi M-B fyrirtækið heita. Í þremur línum Mbl. eru þrjár útgáfur nafnsins: Mercedes-Benz, Mercedews-Benz og Mecedes-Benz. Hvar er yfirlesturinn??” – Von er að spurt sé. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (16.01.2015) var sagt að verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni hefði verið aflýst. Verkfallinu var aflýst.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar