Glöggur Molalesandi skrifaði (19.01.2015): ,,Bíll fór út í Reykjavíkurhöfn.“ Já, svona var fyrirsögnin á vísi.is í gær. Stutt var ambaganna á milli í stuttri frétt. „bíll fór út í höfnina… Maðurinn er talinn hafa verið lengi ofan í sjónum… að draga bílinn upp úr höfninni... þegar bíllinn keyrði fram af brúninni…” . Molaskrifari þakkar ábendinguna. Hér hefur enn einn viðvaningurinn verið að helgarvaktinn og enginn til að lesa yfir, leiðrétta og færa til betra máls.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (19.01.2015) talaði umsjónarmaður um brjálað veður á höfuðborgarsvæðinu. Það var rok, venju fremur hvasst að vísu, og það var rigning. Í morgun (20.01.2015) sagði umsjónarmaður okkur í sama þætti að brjálað væri að gera í Múlakaffi. Þar eru starfsmenn önnum kafnir að undirbúa þorrann. Molaskrifari leggur til að brýnt verði fyrir umsjónarmönnum að spara gífuryrðin. Þau missa marks, séu þau ofnotuð. Orðið brjálað er greinilega kækorð hjá þessum umsjónarmanni. Málfarsráðunautur gæti gert kækorð að umtalsefni við tækifæri.
Í fréttum Stöðvar tvö (19.01.2015) heyrði Molaskrifari ekki betur en sagt væri: ,, … í ljósi þess að engra tekna er til að dreifa.” Hefði átt að vera: ,, … í ljósi þess að engum tekjum er til að dreifa.”
Úr frétt á visir.is (19.01.2015): Reykjavíkurborg hefur bannað Kiwanishreyfingunni að gefa börnum reiðhjólahjálma merktum Eimskipafélaginu. Hér ætti fremur að standa: ,,Reykjavíkurborg hefur bannað Kiwanishreyfingunni að gefa börnum reiðhjólahjálma merkta Eimskipafélaginu.” Sjá : http://www.visir.is/grunnskolaborn-i-reykjavik-mega-ekki-fa-hjalma-merkta-eimskipafelaginu/article/2015150118908
Trausti spyr (19.01.2015) vegna fréttar á mbl.is (19.01.2015), – ætli hraunið telji eitthvað? Í fréttinni segir:,, Hraunið þekur nú svæði sem er stærra að flatarmáli en Manhattan, en það telur yfir 83 ferkílómetra.” Auðvitað telur hraunið hvorki eitt né neitt. Þetta hefði á margan annan veg mátt orða betur. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/19/likt_og_svort_und_a_hvitum_feldi/
Einnig bendir Trausti á aðra frétt á mbl.is sama dag og spyr hvort hæðarmetrar séu frábrugðnir öðrum metrum? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/19/barst_hundrud_metra_med_flodinu/
Í fréttinni segir: ,,Snjóflóðið féll úr hlíðum Eyrarfjalls og var 75 metra breitt og fallhæðin nálægt 350 hæðarmetrum.” Molaskrifari þakkar Trausta þessar ábendingar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar