«

»

Molar um málfar og miðla 1660

 

Heldur hefur verið að rofa til í dagskrá Ríkissjónvarpsins að undanförnu og er það þakkarvert. Í liðinni viku voru til dæmis sýndar þrjár prýðilegar íslenskar heimildamyndir; ein um sögu Álafoss og þess merka starfs sem þar var unnið, önnur um Þórð á Dagverðará, þann kynjakvist, og sú þriðja (endursýnd, reyndar) Draumaland Andra Snæs.

Tímasetning Draumalandsins gat ekki verið betri, nánast sama daginn og meirihluti atvinnuveganefndar boðaði nýja virkjanaherferð gegn öræfum og víðernum Íslands.

Kannski fór það fram hjá Molaskrifari, en hann tók ekki eftir að greint væri frá því í Álafossmyndinni, hvernig harðvítugri Álafossdeilu svonefndri lyktaði, þar sem tekist var á um kjör verkafólks.

 

Úr fréttum Bylgjunnar (23.01.2015): ,, … strax orðið ljóst alvarleiki málsins”. … strax orðið ljóst hve alvarlegt málið var. Eða: … strax orðið ljós alvara málsins. Og: ,, … kunni að nema 3- 400 milljarða króna”. Hefði átt að vera: ,, … kunni að nema 3-400 milljörðum króna”. Enginn les yfir.

 

Stuttur eindálkur (gamalt blaðamannamál!) var á forsíðu Morgunblaðsins á laugardag (23.01.2014) um álit umboðsmanns Alþingis um dómgreindarbest , ósannindi og afskipti fyrrverandi innanríkisráðherra af lögreglurannsókn,sem sem leiddi til sakfellingar aðstoðarmanns og afsagnar ráðherra. Molaskrifari sér fyrir sér fyrir sér ,að ef hér hefði átt í hlut ráðherra í fyrri ríkisstjórn, – ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hefði þessi frétt ef til vill verið meira en eindálkur, kannski tvídálkur! Ef ekki talsvert meira. Ítarlegri umfjöllun var um málið inni í blaðinu.

 

Úr hádegisfréttum Ríkisútvarps (23.01.2015): ,, Einn af fjórum Bengalköttum … tókst að komast undan...”. Þetta las ágætur þulur. Einum af fjórum Bengalköttum … tókst að komast undan, hefði þetta átt að vera.

 

Sóknargjöld eru innheimt af þjóðkirkjunni, var sagt í morgunfréttum Ríkisútvarps (23.01.2014). Það var ekki átt við, að þjóðkirkjan greiddi sóknargjöld. Hér hefði átt að segja: Þjóðkirkjan innheimtir sókargjöld. Germynd er alltaf betri. Málfarsráðunautur lætti að leggja áherslu á það við fréttamenn.

 

Í svokölluðum Hraðfréttum Ríkissjónvarps (23.01.2015) var sagt: …. gefa hjálma merktum Eimaskipafélaginu. Þetta er bull. Hér hefði t.d. átt að segja: … gefa hjálma, sem merktir eru Eimskipafélaginu , eða hjálma merkta Eimskipafélaginu. Í þessum þætti var líka sagt: Alþingi var sett í síðustu viku. Það var líka bull. Alþingi kom saman að nýju eftir jólaleyfi. Það er ógerlegt að hafa samúð með Ríkisútvarpi í kröggum, þegar takmörkuðu dagskrárfé er sturtað niður með þessum hætti.

 

Ágæt umræða í Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudagsmorgni (25.01.2015). Undarlegt að heyra hvernig Jón Gunnarsson talaði niður til Katrínar Júlíusdóttur. Ekki hækkaði pundið í þessum þingmanni hjá Molaskrifara eftir þetta samtal. Gaman var að hlusta á þá Egil Helgason og Ólaf Stephensen. Gott samtal.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>