Enn einu sinni var fréttastofa Ríkissjónvarpsins niðurlægð í gærkveldi (28.01.2015). Þá var fréttunum ýtt til hliðar vegna boltaleiks í Katar. Ísland er ekki lengur meðal þátttakenda þar. Fréttastjóri og fréttamenn virðast taka því sem sjálfsögðum hlut að fréttastofan sé niðurlægð, þegar íþróttir eru annars vegar.
Molaskrifara finnst hlutskipti fréttastofunnar bágt í þessari þjóðarstofnun þar sem við sjáum aftur og aftur, að raunveruleg yfirstjórn fréttastofu Ríkissjónvarpsins er í höndum íþróttastjórans, – ekki fréttastjórans eða útvarpsstjórans.
Molavin skrifaði (27.01.2015): – „Heimilið verður jafnað við jörðu“ segir í frétt DV (27.1.2015) um áform bæjaryfirvalda í bandarískum bæ að jafna við jörðu hús, þar sem ungur fjöldamorðingi bjó. Ýmsum þeirra, sem stunda blaðamennsku nú um stundir gengur illa að læra, þótt leiðbeint sé í þessu bloggi, sem og á Fasbókinni. Að gera greinarmun á húsi og heimili hlýtur að teljast til grundvallaratriða, sem þeir verða að kunna, sem takast á hendur að skrifa fréttir fyrir allan almenning. Vankunnátta og fúsk af þessu tagi og viljaleysið til þess að læra af ábendingum annarra virðist því miður vera séríslenzkt fyrirbæri. En sökin skrifast fyrst og fremst á þá, sem bera ábyrgð á fréttaskrifum, þ.e. ritstjóra miðlanna” Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er hverju orði sannara og hefur oftar en einu sinni verið nefnt í Molum.
Þorvaldur skrifaði (27.01.2015):
,,Var að lesa útvegsblað Mogga, þar segir frá aflabrögðum í Grindavík. Greininni fylgir mynd af nokkrum ufsatittum, undir myndinni stendur: „Þessi væna ýsa kom upp úr norðlenskum ísfisktogara sem landaði í Grindavík“ Fisktegundafræðingur blaðsins hefur sýnilega verið vant við látinn.”. Það hárrétt hjá Þorvaldi að á myndinni myndin er ekki ýsa heldur ufsi. Þetta er hinsvegar ekki útvegsblað Mogga, heldur blað, Aldan fréttablað um sjávarútveg, sem dreift er með Morgunblaðinu , gefið út af fyrirtæki sem heitir Fótspor ehf. og Mogga þannig óviðkomandi. Vonandi þekkja blaðamenn Öldunnar í sundur þorsk og ýsu.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (27.01.2015) var sagt að rúmlega ein milljón manna hefði fallið í Auschwitz. Það ber að mati Molaskrifara hvorki vott um góða málkennd né söguþekkingu að segja, að fólkið sem lét lífið í útrýmingarbúðum nazista í Auschwitz hafi fallið. Fólkið var drepið.
Það var vel til fundið að gera skáksnillinginn Friðrik Ólafsson, að heiðursborgara Reykjavíkur, þegar hann varð áttæður, Og þó fyrr hefði verið. Molaskrifari man mæta vel hvernig þjóðin fylgdist með stórkostlegri framgöngu hans á skákmótinu í Hastings um áramótin 1953/1954, en Friðrik var þá á nítjánda ári. Á hverjum degi beið maður frétta í útvarpinu frá Hastings, án þess þó að vera sérstakur áhugamaður um skák.
Aðrir sem útnefndir hafa verið heiðursborgarar höfuðborgarinnar eru: Séra Bjarni Jónsson (1961), Kristján Sveinsson augnlæknir (1975), Vigdís Finnbogadóttir (2010) og Guðmundur Guðmundsson, Erró (2012). Allt er þetta verðskuldað Fyrrverandi borgarstjóri bætti svo Yoko Ono í þennan hóp (2013). Hvað er hún að gera í þessum hópi? Hvað hefur sú kona gert til að verðskulda þann heiður að vera heiðursborgari í Reykjavík? – Hún er einkum fræg fyrir ekkjudóm, – ekkja John Lennons, þess rómaða Bítils.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar