Í frétt um þorrablót Stjörnunnar í Garðabæ á forsíðu Garðapóstsins (29.01.2015) segir: ,, … enda gekk það snuðrulaust fyrir sig …” . Þarna ætti að standa , enda gekk það snurðulaust fyrir sig. Orðbókin segir að snurða sé ,,lítill harður samsnúningur á snúnum þræði, hnökri”. Í afleiddri merkingu er sagt til dæmis að snurða hafi komið á þráðinn, þegar ósamkomulag eða vandræði hafa komið upp. Orðið snuðrulaust er ekki til en að snuðra er að hnusa, leita eftir lykt , ganga þefandi. Þarna hefði leiðréttingaforrit komið sér vel.
Í sama blaði er fyrirsögnin Lively outdoor learning. Undirfyrirsögn: Kennarar í Flataskóla fóru í Comeniuusarferð til Paley á Spáni. Hvorki er þetta vel skiljanlegt né til fyrirmyndar.
Hallærisvilla í fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins (30.01.2015): Með réttastöðu grunaðs manns. Orðið réttastaða er ekki til. Hér er átt við réttarstöðu, þótt ekki takist betur til en þetta. Bæta prófarkalesturinn, Morgunblað!
FME kannar hvernig gögn láku til fjölmiðla, sagði í fyrirsögn á visir.is (30.01.2015). Molaskrifari hallast að því að þarna hefði fremur átt að segja: FME kannar hvernig gögnum var lekið til fjölmiðla. Gögnin láku ekki. Þeim var lekið. http://www.visir.is/article/20150130/VIDSKIPTI06/150139974
Í frétt á mbl.is (30.01.2015) segir um morðingja: ,,Hann stendur frammi fyrir lífstíðarfangelsi.” Vitnað er í erlendan fréttavef, en þar segir:,, He has been placed in custody and faces life imprisonment, “ – Hann er í haldi og hans bíður ævilangt fangelsi. Aulaþýðing hjá Mogga.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/01/30/for_med_likid_a_logreglustodina/
Á föstudagsmorgni (30.01.2015) upp úr klukkan hálf átta var í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins langur pistill um handbolta í Katar. Þegar Molaskrifari kveikti aftur á útvarpinu skömmu fyrir klukkan níu var verið að kynna Evróvisjón söngvakeppnina, en beinar og óbeinar auglýsingar um það fyrirbæri munu dynja á okkur hlustendum og horfendum linnulaust næstu vikurnar. Sjálfsagt þykir sumum að þetta sé nöldur í Molaskrifara og að ógerlegt sé að gera honum til hæfis! Kannski er nokkuð til í því. Ríkisútvarpi og sjónvarpi hefur með þrautskipulögðum hætti og einbeittum vilja tekist að skapa eins konar múgsefjun hjá þjóðinni þegar boltaleikir og popptónlist eru annars vegar.
K.Þ. benti á eftirfarandi frétt á dv.is (31.01.2015): http://www.dv.is/folk/2015/1/31/thaettir-teknir-upp-reydarfirdi-fa-skelfilega-doma/
Í fréttinni segir meðal annars: …því útliti þáttanna er hrósað upp í hástert. Molaskrifari bætir við: Orðabókin segir jafngilt að hrósa í hásert og að hrósa upp í hástert. Þannig að ekkert er við orðalag dv.is að athuga.
Enn var fréttastofa Ríkisútvarpsins niðurlægð á föstudagskvöldið (30.01.2015). Fyrst var fréttum seinkað um hálftíma vegna boltaleiks. Svo seinkaði fréttum um næstum tuttugu mínútur í viðbót við hálftímann! Afsökunarbeiðni hefði verið við hæfi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar