Molaskrifara gengur illa að fella sig við orðalagið, að eitthvað hafi gerst eða verið svona og svona síðasta sumar. Þetta orðalag var notað í fréttum Ríkisútvarps (04.02.2015) klukkan sjö að morgni. Og í fleiri fréttatímum, reyndar. Olíuverð hefur fallið mikið frá því síðasta sumar. Hvað er að því að segja í fyrra sumar? Hefur verið nefnt áður.
Viðtöl í beinni útsendingu í fréttum geta verið ágæt, þegar tilefni er til. Það er hinsvegar dálitið hallærislegt, þegar þannig viðtöl eru í næstum hverjum fréttatíma beggja sjónvarpsstöðva , oftar en ekki án minnsta sjáanlegs tilefnis. Bara til að geta sagt í beinni útsendingu?
Á þriðjudagskvöld (03.0.02.2015) rambaði Molaskrifari á endursýningu á þætti númer tvö í fimmtíu og tveggja þátta röð stuttra vikulegra þátta, Öldin hennar, sem Ríkisútvarpið hefur keypt eða látið gera í tilefni þess, að öld er síðan konur á Íslandi fengu kosningarétt. Í þessum þætti var fjallað um ár seinni heimsstyrjaldar (1939-1945). Í texta er sagt við okkur á ensku að þá hafi íslenskar konur orðið objects of desire. Í fyrsta lagi er þetta rangt. Íslenskar konur urðu ekki fyrst eftirsóknarverðar undir miðja tuttugustu öld. Í öðru lagi er þetta ljót og óþörf enskusletta. Í þessum þætti sagði sami kynja- sagnfræðingur okkur að sokkabuxur hefðu verið mjög eftirsóttar á stríðsárunum. Það er sagnfræðileg rangfærsla. Sokkabuxur komu ekki til sögu fyrr en löngu seinna, seint á sjötta áratugnum. Sjá til dæmis: http://en.wikipedia.org/wiki/Pantyhose
Ríkisútvarpið ætti að sjá sóma sinn í að láta framleiðendur þáttanna lagfæra þessa hnökra. Staðreyndavillur á leiðrétta. Minnst hefur verið á þetta í Molum áður.
Orðið dróni er að festast í málinu. Það er úr ensku. Notað um fjarstýrð smáflygildi, oft búin myndavélum. Það er ekkert að þessu orði. Ekkert verra en til dæmis jeppi eða trukkur, sem fyrir löngu hafa unnið sér þegnrétt í málinu. Á Bylgjunni heyrði Molaskrifari (04.02.2015) ítrekað notað orðið flygildi og það er aldeilis prýðilegt. En hefur það orð ekki einnig verið notað um annarskonar loftför?
Nokkrum veðurfræðingum í sjónvarpi hættir til að flytja áherslu í samsettum orðum eins og suðurströnd og norðurland. Segja suður´STRÖND, norður´LAND. Heldur hvimleitt, en auðvelt að laga.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar