«

»

Molar um málfar og miðla 1885

GÓÐ OG GILD VEÐURORÐ

Sigurður Sigurðarson skrifaði (09.02.2016): ,, Sæll, Eiður.

Svalt verður í veðri næstu daga á landinu, sagði dagskrárgerðarmaður eða þulur í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins. Þvert ofan í orð mannsins fullyrðir Veðurstofan að frost verði um allt land næstu daga.

 

Á þessu tvennu, svala og frosti, er talsverður munur. Ég skil svala þannig að hann geti verið kaldur en fjarri því að vera frost. Oft er svalt að sumarlagi og í suðlægum löndum getur hægur vindur veitt fólki einhvern svala á heitum dögum. Svaladrykkur er ekki frosinn þó getur frostpinni svalað manni á heitum dögum.

 

Svo er það þetta með vindganginn í sumum veðurfræðingum. Sjaldnast lægir hjá þeim eða hvessir, oftast bætir í vind eða dregur úr vindi. Stundum er vindur nokkur, jafnvel er vindur mikill. Verður málið ekki nokkuð fátæklegra ef við kunnum ekki gömul veðurorð eins og andvari, kul, rok, hvassviðri, stormur svo eitthvað sé nefnt?

 

Á þeim veðurrassi sem við búum hafa forfeður okkar búið til fjölda orða um veður og þannig gert sig afar vel skiljanlega hver við annan í gegnum aldirnar. Er einhver ástæða til að hætta að nota þessi orð?”

Mikilvægt að halda lífi í þessum ágætu orðum. Kæarar þakkir fyrir bréfið, Sigurður. – Þetta gefur gott tilefni til að minna á öndvegisritið Veðurfræði Eyfellings eftir Þórð Tómasson í Skógum. Bókin kom fyrst út 1979 ,en Forlagið gaf hana út að nýju 2014. Mikið snilldarverk.

 

ALLT BRESTUR Á

Það er mikið tískuorðalag hjá fréttamönnum að tala um að eitthvað bresti á. Eiginlega brestur allt á. Í fréttum Ríkissjónvarps (10.02.2016) um banaslysið í Reynisfjöru sagði fréttamaður: ,, … þegar skyndilega brast á með stórri öldu.” Molaskrifara finnst þetta ekki vel orðað. Þarna hefði mátt segja , skyndilega kom ólag, – en ólag er stór, hættuleg alda. Stundum koma þrjár slíkar í röð. Sjaldan er ein báran stök, segir máltækið. Kannski hefði fólk ekki skilið orðið ólag. Skyndilega skall stór alda á berginu, þar sem maðurinn stóð, hefði líka mátt segja. Kannski skiljanlegra nú um stundir.

,, .. rís úr gráðinu gafl,

þegar gegnir sem verst…”

orti Grímur Thomsen í mögnuðu ljóði, sem hann nefndi Ólag. Ein af perlum bókmenntanna.

Þar var sviðið Landeyjasandur.

 

GÁMAEININGAR

Á mánudagskvöld (08.02.2016) var sagt frá strandi stærsta gámaflutningaskips í heimi. Sagt var að skipið gæti flutt 19 þúsund 20 feta gámaeiningar. Hvers vegna gámaeiningar? Hvers vegna ekki 19 þúsund 20 feta gáma? Í sjónvarpsfréttum talaði Bogi réttilega um gáma.

 

ÞÖRF UMFJÖLLUN

Þörf og mjög þakkarverð umfjöllun hefur verið í Kastljósi Ríkissjónvarps að undanförnu um snjallsímanotkun undir stýri. Þessu þarf að halda áfram  Þetta er vaxandi vandamál, sem skapar stórhættu í umferðinni. Þessi símanotkun er lífshættuleg, rétt eins og ölvunarakstur, eða akstur undir áhrifum annarra vímuefna. Bandaríkjamenn tala um snjallsíma, og GPS og Googlekorta notkun í akstri sem Dashboard Distractions, – tækjatruflun.  Taka verður á þessu með aukinni löggæslu og hækkuðum sektum. – Molaskrifari sendi umsjónarmanni Kastljóss línu á dögunum og þakkaði þessa ágætu umfjöllun, en leyfði sér að benda mjög hæversklega á, að þegar vikið var að Hvalfjarðargöngum, hefði verið rétt að tala um gangamunna, ekki gangNamunna eins og gert var. Göng eru eitt. Göngur annað. Tölvupóstinum var  ekki svarað frekar enn fyrri daginn.. Það er sjálfsagt gleymska eða annríki mikið sem því veldur. Það þykir reyndar víðast hvar kurteisi að svara bréfum.

 

ÓSKILJANLEGT ORÐALAG

Óskiljanlegt orðalag var í frétt Stöðvar tvö (10.02.2016) um járnbrautarslysið í Þýskalandi. Fréttamaður sagði: ,, Áreksturinn varð á kafla þar sem lestarteinarnir eru einfaldir þannig að ekki er hægt að mætast, þrátt fyrir það skullu lestirnar saman á um 100 kílómetra hraða”. Það er ekki skýr hugsun á bak við þetta. Vissi fréttamaðurinn ekki hvað þrátt fyrir þýðir?

 

ENN UM ENSKUSLETTUR

Slettuhríðinni í morgunþætti Rásar tvö linnir ekki. Á þriðjudagsmorgni (09.02.2016) var talað um söngkonu,sem hér mun halda tónleika. Umsjónarmaður sagði að textarnir hennar væru ,,destrúktívir og soldið hellaðir”. Hellaðir hvað? Hvað þýðir þetta? Hversvegna er ekki talað við hlustendur á íslensku? Sjá: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/morgunutvarpid/20160209 (Á 17:50). Molaskrifari átti von á því að málfarsráðunautur mundi kannski víkja að þessu í prýðilegu Málskoti, spjalli um íslenskt mál, seinna í þættinum. Það var ekki gert. Hefði þó verið ástæða til.

 

GULLNI HRINGURINN

Valur skrifaði (09.02.2016): ,,Sæll Eiður.
Ég stenst ekki mátið og sendi þér hér,,gullmola”.Um helgina var í fréttum, að þrír menn og kona hefðu slasast á hinni vinsælu ferðamannaleið sem kallast uppá ensku Golden Circle.
Þess má geta að þessi ferðamannhringur er um 300 km. Og því mætti spyrja hvar á þessari 300 km leið fólkið slasaðist.
Nú er Golden Circle ekki lögformlegt örnefni eða nafn hér á landi sem notað er til að fara á eftir á ferðalögum. Enn svona gerist er fréttabörnin, greina oft ýtarlega frá bifreiðategund og að árekstur hafi verið við þessa bensínstöð við hliðina á ákveðnum söluturni, en nafn á götunnar þar sem slysið varð, kemur ekki fram, fylgir ekki frétt.

Vona bara að sjúkrafólk hafi fundið slasaða ferðafólkið á þessari 300 km leið.” Þakka bréfið. Hér mun átt við frétt á vef Ríkisútvarpsins (08.02.2016) : http://www.ruv.is/frett/halkuslys-a-gullna-hringnum

 

– Molaskrifari biður ágæta lesendur velvirðingar á því að svo mikið berst af efni þessa dagana, að Molar eru í lengra lagi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>