«

»

Molar um málfar og miðla CLXXIII

Það var gaman að sjá og heyra Karlakór Reykjavíkur syngja í Alþingishúsinu í lok RÚV sjónvarpsfrétta (10.10.2009).Flottur endir á fréttatíma á laugardagskvöldi. En það var subbulegt í meira lagi að klippa á söng kórsins í miðri tónhendingu og skella auglýsingastefinu inn á fullum hljóðstyrk. Annaðhvort hefði átt að deyfa sönginn niður eða klippa á hljóðið milli tónhendinga.. Að hlusta á svona er eins að fá spark í hausinn frá sjónvarpstækinu. Reyndar ekki í fyrsta skipti,sem  svona  er farið að í Efstaleitinu.

 Úr Vefdv (10.10.2009): …þegar ritstjórnarstefna Séð & Heyrt bar á góma. Hér ætti að standa:.. þegar ritstjórnarstefnu Séð & Heyrt bar á góma. Meira úr sama miðli. Fyrirsögnin: Orkuveitan ósátt með Svandísi. Ósátt við Svandísi væri eðlilegra orðalag. 

 Í sjónvarpsfréttum RÚV (10.10.2009) var talað um þakplötur sem tóku á loft. Betra hefði verið að segja að þakplöturnar hefðu fokið eða tekist á loft.  Í tíu fréttum RÚV á laugardagskvöld (10.10.2009) gat Molaskrifari ekki heyrt að væri ein einasta ný frétt. Frábær þjónusta þjóðarútvarpsins við eigendur sína. Kannski var þó eitthvað nýtt í íþróttafréttum. 

Eins og nefnt var í síðustu Molum sagði RÚV í fréttum, oftar en einu sinni, að norski Framsóknarþingmaðurinn Per Olaf Lundteigen væri forseti norska Stórþingsins. Það er auðvitað kolrangt. Hann er ekki einu sinni einn af fimm varaforsetum Stórþingsins. Molaskrifari er löngu hættur að senda fréttastofu RÚV það sem hann kallaði í tölvubréfum vinsamlegar ábendingar um það sem er missagt var eða ambögur í fréttum. Slíku var nær aldrei svarað og Molaskrifari fékk á  tilfinninguna, að í Efstaleiti þætti þetta  nöldur og afskiptasemi.

Molaskrifari hefur áður vikið að því öðrum vettvangi að  Gróa á Leiti  virðist vera farin að hafa áhrif á fréttaskrif Morgunblaðsins.  Það sést á því að fréttir hefjast á orðunum: Heyrst hefur…. Ólyginn sagði mér, gæti allt eins staðið þar.

 Í Staksteinum Morgunblaðsins (11.10.200)) er eftirfarandi klausa: Ótrúlegustu menn eru sjálfskipaðir siðvæðingarmenn fagiðnaðarins. Jafnvel menn sem voru aldir upp í aftursætinu á ráðherrabílum og nutu síðar óverðskuldaðra launalegra fríðinda af þeim sökum og fella síðar meir dóma á báðar hendur undir þeim formerkjum.    

Þetta er í fyrsta lagi  klúðurslega skrifað. Í öðru lagi er þetta dylgjublaðamennska og í þriðja lagi er hér í skjóli nafnleysis og hugleysis vegið úrlaunsátri að einhverjum einstaklingi, sem Molaskrifari hefur reyndar ekki hugmynd um hver er. Þegar sem mest gekk á í borgarstjórn Reykjavíkur dundu svívirðingar Staksteina á andstæðingum Sjálfstæðisflokksins, en þeir voru þó nafngreindir. Hér er  dylgjað í skjóli nafnleysis. Svona skrif er ekki hægt að skilgreina öðruvísi en sóðaskap. Ritsóðaskap. Er Morgunblaðið að breytast í götublað meðan DV er á uppleið?   

 

 

Aðeins um annað. Varð hugsað til þess að oftast er talað um fjarstýringar þegar rætt er um þráðlaus stjórntæki fyrir raftæki.. Á mínu heimili er fjarstýringin aldrei kölluð annað breytingin!

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Steini Briem skrifar:

    Faðir Þorvaldar var Gylfi Þ. Gíslason, alþingismaður, ráðherra og prófessor. Móðir hans, Guðrún Vilmundardóttir, var húsfreyja og á tímabili blaðamaður. Þorvaldur átti tvo bræður, Þorstein Gylfason prófessor og Vilmund Gylfason, alþingismann og kennara, en þeir eru báðir látnir.

    Þorvaldur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1970. Hann lauk B.A.-prófi í hagfræði frá Háskólanum í Manchester í Englandi árið 1973, M.A. próf í hagfræði frá Princeton-háskóla í Bandaríkjunum árið 1975 og doktorsprófi í hagfræði frá sama skóla árið 1976.

    Þorvaldur Gylfason – Wikipedia

  2. Steini Briem skrifar:

    „Yngri smáfuglarnir áttu í miklum erfiðleikum með að skilja við hvern eða hverja væri átt. En það er stundum þannig í Kremlarfræðum. Og ekki er óalgengt að með skrifum eins og Staksteina-penni Morgunblaðsins beitir, er aðeins verið að senda viðkomandi skilaboð sem eru ætluð honum og honum einum. En í þessu tilfelli kemur Kremlarlógían að góðum notum.

    Hér er auðvitað átt við Þorvald Gylfason, prófessor og son dr. Gylfa Þ. Gíslasonar, fyrrverandi ráðherra og formanns Alþýðuflokksins. Gylfi var menntamála- og iðnaðarráðherra 1956-1958, mennta-, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1958-1959 og síðan mennta- og viðskiptaráðherra í Viðreisnarstjórninni 1959-1971. Alls var hann því ráðherra í 15 ár. Þegar Gylfi varð fyrst ráðherra var Þorvaldur fimm ára.

    Fuglahvísl: Þekking í Kremlarlógíu nauðsynleg

  3. Sæmundur Bjarnason skrifar:

    Skylt því sem sagt var í síðustu athugasemd. Það fer alltaf í taugarnar á mér hve margir virðast álíta að mánaðarheiti skuli skrifuð með stórum staf. Sú er ekki mín skoðun. Ef samkomulag væri um að t.d. janúar 2009 skyldi heita Janúar væri stór stafur að mínu mati eðlilegur, annars ekki.

  4. Jón Óskarsson skrifar:

    Séð & Heyrt  er nú bara danskan Se & Hør.

    Okkar ritvenja er Séð og heyrt.

    Svakalegt er að fylgjast með því hvernig auglýsingafóki hefur tekist að innleiða amerískan rithátti í meðvitund fólks. 

    Ameríkanar og jafnvel bretar nota stóra stafi víða í titlum sem eru fleiri en eitt orð eneins og t.d.   The Upside of Anger. (Af dagskrárkynningu Stöðvar tvö.)

    Mér var kennt að stóran staf ætti að nota í upphafi málsgreina og svo í sérheitum.

    Nú vilja menn taka upp þýska ritháttinn þar sem nafnorð eru öll rituð með stórum staf. 

    Takið eftir auglýsingamiðum á bílum. Þar gætuð þið séð dæmi eins og þessi:  Siggi Smiður, Nonni Pípari,  Hollt og Gott.  Betra Bak og svo framvegis og svo framvegis. 

    Engar kröfur gerðar til auglýsingafólks frekar en annarra sem vinna við að miðla móðurmálinu til þjóðarinnar.  (Þarf kannski ekki að nefna fréttamenn sérstaklega)

  5. Eygló skrifar:

    þar fer íslenskan mín í felur… hér er oft talað um „fjernkontrólið“

    Heima hjá þér hefði maður kannski getað komist í andlegt skjól á annars lítt skemmtilegu breytingaskeiði

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>