«

»

Molar um málfar og miðla 1924

TRAUSTLEYSI !

Nýr forsætisráðherra notaði nýtt orð, sem Molaskrifari hefur ekki heyrt áður í fréttum Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (08.04.2016).

Hann talaði um traustleysi. Hann veigraði sér ef til vill við að nota orðið, sem rétt hefði verið að nota, – það sem hann kallaði traustleysi kallar fólk vantraust.

 

PEMPÍULEGA ORÐALAGIÐ

Molaskrifari er orðinn hundleiður á hinu pempíulega orðalagi, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi,,stigið til hliðar” eða ,,vikið til hliðar”. Hann baðst lausnar sem forsætisráðherra. Sagði af sér. Það á að segja það berum orðum, – nefna hlutina réttum nöfnum. Reyndar mætti líka segja á góðri íslensku, að hann hafi hrökklast úr embætti.

 

STRANDAGLÓPAR – SKIPBROTSMENN

Úr frétt á mbl.is (09.04.2016): ,, Banda­ríski sjó­her­inn og strand­gæsl­an bjargaði(björguðu) þrem­ur mönn­um sem höfðu verið strandaglóp­ar á eyðieyju í Kyrra­hafi í þrjá daga eft­ir að bát þeirra hvolfdi. “

Alltaf er betra að þekkja merkingu þeirra orða sem notuð eru við fréttaskrif.

Mennirnir voru ekki strandaglópar, þeir höfðu orðið skipreika, þetta voru skipbrotsmenn.

Strandaglópur er sá, sem verður af ferð með skipi eða öðru farartæki, missir af skipinu  eða flugvélinni, eða er stöðvaður á ferð sinni og kemst ekki lengra..

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/04/09/bjorgudu_strandaglopum_af_eydieyju/

 

STRANDFERÐASKIPIÐ HURTIGRUTEN

Þorvaldur skrifaði (07.04.2016) ,, Í Mogga dagsins segir á baksíðu frá Íslendingi sem bruggar öl og vín í Noregi. Þar er sagt að fyrirtækið hafi samið við strandferðaskipið Hurtigruten um flutninga á framleiðslunni. Nú finnst þetta skip ekki í skipaskrám en blaðamaður ætti að vita að Hurtigruten er strandferðafyrirtæki Norðmanna og rekur mörg skip.” Kærar þakkir fyrir ábendinguna, Þorvaldur. Þetta er að sjálfsögðu rétt hjá þér. Þeir hlæja, sem búið hafa í Noregi , eða þekkja til í Noregi.

 

LÍK AF DÝRUM

Heyrði Molaskrifari það rétt í þætti Gísla Marteins á laugardagskvöld, að stjórnandinn talaði um lík af dýrum?

Maður er svo sem alltaf að heyra eitthvað nýtt. Líkið af kúnni, líkið af hundinum?

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>