«

»

Molar um málfar og miðla 1932

Gleðilegt sumar, kæru Molalesendur.

Þakka  ykkur samskiptin í vetur.

 

AÐ SPILA LÍKAMLEGA!

Molavin skrifaði ((19.04.2016) : „Þeir spila mjög lík­am­lega og fast…“ segir í upphafi íþróttafréttar Morgunblaðsins (19.04.2016). Hér er á ferðinni dæmi um það hve enskt mál er hráþýtt yfir á íslenzku, eða „orðabókarþýtt“ eins og sagt var forðum. Google-þýtt væri það trúlega kallað í dag. Í ensku er sagt að leikmenn séu „physical“ þegar þeir beita afli frekar en leikni í leik. Það var áður oft kallað í íþróttafréttum að vera „fruntalegir“ eða „harðhentir.“ En aldrei „líkamlegir.“

 

SIGURÐUR INGI FORMAÐUR!

Valur skrifaði Molum (18.04.2016): ,,Sæll Eiður.
Hér er frétt af vef Ríkissjónvarps er Kári Gylfason fréttamaður skrifar og gerir hann í fyrstu línu fréttar Sigurð Inga að formanni Framsóknarflokksins. En auðvitað er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknar ennþá. Synd að þurfa að kenna fréttamönnum hvernig stundum þau eru gefinn pólitísku spilin. Auðvitað sendi ég í tölvupóst um að þetta yrði leiðrétt .. en ekkert svar .. kannski er svarað í síma .. en það er ekki mín deild.
Afsakaðu þetta er ekki beint um málið okkar,heldur hugtaka/staðreyndarugl og hvernig má nota málið okkar illa.”
http://www.ruv.is/frett/forsaetisradherra-fagnar-frambodi-olafs-ragnars
Kærar þakkir , Valur. Hroðvirkni. Enginn les yfir, fremur en endranær. Ein ástæðunum fyrir því að ég byrjaði að skrifa þessa Mola var sú að ég sendi fréttastofu Ríkisútvarpsins stundum tölvupóst með ,,vinsamlegum ábendingum”, eins og ég kallaði það. Aðeins einu sinni svaraði fréttamaður og þakkaði ábendinguna. Annars talaði ég fyrir daufum eyrum. Ekki hissa á að þú skulir ekki hafa fengið svar.

 

ÞAR SÍÐASTA VIKA

Í fréttum á miðnætti á mánudagskvöld m(18.04.2016) talaði fréttamaður um þar síðustu viku. Hvað er þar síðasta vika?

Molaskrifari játar fúslega að það veit hann ekki. Er það  síðasta vika eða vikan þar á undan?  Norðlenskur vinur Molaskrifara segist hafa vanist þessu orðalagi frá barnæsku, þegar talað sé um vikuna á undan fyrri viku, eða vikunni sem leið. Molaskrifari hefur ekki heyrt þetta orðalag fyrr en í fjölmiðlum undanfarin ár, en hann er náttúrulega Sunnlendingur, Suðurnesjamaður með íblöndun austan af fjörðum.

 

AÐ KJÓSA MEÐ

Þetta orðalag heyrist æ oftar. Margir fréttamenn virðast ekki gera sér grein fyrir því að það er munur á að kjósa og að greiða atkvæði um eitthvað. Oft hefur verið vikið að þessu hér í Molum. Á þriðjudagsmorgni var í fréttum Ríkisútvarps talað um að kjósa með tillögu, þegar segja hefði átt, – að greiða atkvæði með tillögu. – Þegar greidd eru atkvæði á Alþingi segir þingforseti:  Atkvæðagreiðslan er hafin. Atkvæðagreiðslunni er lokið. Hann segir ekki: Kosningin er hafin. Kosningunni er lokið.  Þegar Alþingi kýs í ráð og nefndir fer fram kosning. Atkvæði eru greidd um  frumvörp og breytingatillögur.  Það er ekki kosið um breytingatillögur á  Alþingi.  Þetta er ekki flókið. Enn einu sinni er mælst til þess, að málfarsráðunautur skýri þetta út fyrir þeim fréttamönnum, sem er þessi munur ekki ljós.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>