«

»

Molar um málfar og miðla 1969

FLJÓTASTA VÍTIÐ

Sigurður Sigurðarson skrifaði (26.06.2016) :,, Sæll,

Á mbl.is segir eftirfarandi:

Írland fékk víta­spyrnu eft­ir eina mín­útu og 58 sek­únd­ur, sem er fljót­asta víti í sögu Evr­ópu­móts­ins. 

Átt er við að aldrei áður í sögu keppninnar hafi víti verið dæmt jafn snemma í leik. Vítið eitt og sér setti engin met, hljóp hvorki né skoraði mark. Víti er atburður, sem dómarinn ákvað fljótlega eftir að leikurinn byrjaði. Af hverju er verið að reyna að breyta málinu til að koma því að í stað þess að segja rétt frá? Sumir segja jafnvel að mark sem skorað er mjög snemma í upphafi leik sé „fljótasta markið“. Íþróttablaðamenn hafa yfirleitt góðan skilning á íþróttum en margir skrifa lélegan texta. Betra er því að láta einhvern með góðan málskilning lesa yfir frétt áður en hún er birt. Að öðrum kosti er hætt við að málvilla eða stafsetningarvilla verði „fljótasta villan“ … eða þannig.” – Kærar þakkir, Sigurður. Þarfar ábendingar. Þetta hefur séð og heyrst áður, – því miður.

 

GESTGJAFAR FRAKKA

Knattspyrnumótið mikla, sem nú fer fram í Frakklandi, fer fram í boði Frakka. Liðin sem keppa eru gestir Frakka. Frakkar eru gestgjafarnir. Einkennilegt er að heyra suma íþróttafréttamenn tala um gestgjafa Frakka, þegar ætti að tala um frönsku gestgjafana. Málfarsráðunautur ætti að skýra þetta út fyrir þeim, sem hlut eiga að máli. Þetta hefur reyndar heyrst áður og verið nefnt hér í Molum.

 

VERTU NÆS!

Rauði kross Íslands auglýsir í sjónvarpi með flenniletri þar sem sagt er: VERTU NÆS!  Hversvegna þarf Rauði krossinn að nota enskuslettu í auglýsingu? Hversvegna sýnir Rauði krossinn ekki íslenskri tungu þá virðingu, sem hún verðskuldar? Hversvegna er tekið við svona auglýsingum til birtingar?

Það er borin von, að þessum spurningum verði svarað, en Rauði krossinn ætti að sjá sóma sinn í að hætta að birta þessar auglýsingar.

 

 

 

AÐ GYRÐA SIG Í BRÓK

Fyrirsögn úr sunnudagsblaðið Morgunblaðsins (26.06.2016): Ekki of seint að girða sig í brók, og er þar verið að vitna í ummæli formanns Samtaka ferðaþjónustunnar. Fyrirsagnarhöfundi og höfundi textans hefur þarna orðið aðeins á í messunni. Þarna ætti að tala um gyrða sig í brók.  Sögnin að girða þýðir að gera garð eða girðingu um, girða tún, eða girða kálgarð, svo vitnað sé í orðabókina. Sögnin að gyrða merkir allt annað. Hún þýðir að spenna gjörð, ól eða belti um , umkringja. Að gyrða sig, er að spenna um sig belti, hneppa upp um sig, eða hysja upp um sig buxurnar. Að gyrða sig í brók , er að taka sig á, , taka rögg á sig, búa sig undir átök eða stórvirki. Sjá, Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson bls. 114-115.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>