«

»

Molar um málfar og miðla 1975

HVER – HVOR

Sigurður Sigurðarson skrifaði (06.07.2016): ,,Sæll,

Þetta mátti lesa í frétt á visir.is. Höfundurinn er Jóhann Óli Eiðsson, blaðamaður, og hann verður að taka sig á:

 

Aðalvinningurinn gekk út en Finni og tveir Norðmenn skipta honum á milli sín. Þeir fá hver um sig tæpar 59 milljónir króna. 

 

Villan varðar málfræði og sker í augun. Annað hvort er blaðamaðurinn ekki betri í íslensku en þetta eða þá að enginn les yfir það sem birt er á þessum fréttavef rétt eins og Eiður hefur marg oft bent á. Engu skiptir hvor (ekki hver) ástæðan af þessum tveimur er rétt. Báðar benda til sorglegs ástands í íslenskri blaðamennsku.” Þakka bréfið. Það dapurlega er, að það virðist skorta allan metnað til að vanda sig og gera vel, skila lesendum villulausum texta á góðri íslensku. Á meðan svo er, er ekki við góðu að búast.

http://www.visir.is/akureyringur-fekk-sjo-milljona-bonusvinning/article/2016160709293

 

ÖRT STÆKKANDI ÞINGMENN

Ýmsir hafa orðið til að benda á meinlokuna, hugsunarvilluna, í þessari frétt á fréttavefnum visir.is (04.07.2016) en þar segir: ,, Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins bættist í dag í hóp ört stækkandi þingmanna sem tilkynnt hafa að þeir ætli ekki að sækjast eftir endurkjöri í næstu þingkosningum sem fara fram í haust.”. Hér hefði að sjálfsögðu átt að tala um ört stækkandi hóp, ekki ört stækkandi þingmenn!

http://www.visir.is/segir-ordraeduna-a-althingi-jadra-vid-nidurbrot-politiskrar-umraedu-i-landinu/article/2016160709554

 

KIRKJUGRIÐ

Orðið kirkjugrið er ekki að finna í þeirri útgáfu Íslenskrar orðabókar, sem Molaskrifari jafnan hefur tiltæka. Ekki er það heldur að finna í Blöndal. Vísindavefur Háskóla Íslands skýrir orðið eins og hér má lesa: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=71089

Þetta orð hefur nokkuð oft komið við sögu í fréttum eftir að tveir hælisleitendur höfðu leitað kirkjugriða í Laugarneskirkju í boði sóknarprestsins þar að því er virðist. Lögreglan fjarlægði þá úr kirkjunni með valdi eins og oftlega er búið að sýna í fréttum.

Kirkjugrið voru nefnd í fréttum Ríkissjónvarps (05.07.2016) . Þá sagði fréttamaður: ,, Eftir að um þá hafði verið staðin kirkjugrið í Laugarneskirkju”. Þetta orðalag hefur skrifari aldrei heyrt, en það jafngildir auðvitað ekki því að eitthvað sé athugavert við orðalagið. Nú væri hinsvegar fróðlegt að heyra hvað málfróðir, eins til dæmis málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins segja um þetta orðalag. Er þetta gott og gilt? Leita menn ekki kirkjugriða, skjóls í kirkju, frekar en að staðin séu kirkjugrið um menn?

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta er hárrétt hjá þér, Þofrvaldur. Þessi athugasemd var í lesendabréfi undir nafni. Hef ekki lesið hana nógu gaumgæfilega. K kv ESG

  2. Þorvaldur S skrifar:

    „Aðalvinningurinn gekk út en Finni og tveir Norðmenn skipta honum á milli sín. Þeir fá hver um sig tæpar 59 milljónir króna.“
    Ekki verður betur séð en þetta sé hárrétt orðalag. Vinningshafarnir eru þrír. Hver (alls ekki hvor) þeirra fær þá þriðjung af upphæðinni.
    Að hvaða leyti þarf Jóhann Óli að taka sig á?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>