«

»

Molar um málfar og miðla 1984

EKKI BATNAR ÞAÐ!

Af fréttavefnum visir.is (18.07.2016): ,,Innanríkisráðherra Bavaríu segir að árásarmaðurinn hafi verið 17 ára drengur frá Afganistan.” Fréttamaður sem veit ekki betur en að tala um Bavaríu, þegar átt er við Bæjaraland ætti ekki að skrifa erlendar fréttir. Sjá: http://www.visir.is/gekk-berserksgang-med-oxi/article/2016160719045

 

ENN EIN KEPPNIN SIGRUÐ

Oft hefur verið á það minnst hér í Molum að það sigrar enginn keppni. Erfitt virðist vera fyrir suma fréttaskrifara að hafa þetta rétt. Í fréttum Ríkissjónvarps á mánudagskvöld (18.07.2016) var okkur sagt frá mönnum , sem sigruðu hugmyndasamkeppnina. Málfarsráðunautur má sín lítils gegn bögubósum og enginn virðist veita leiðsögn , eða menn láta leiðbeiningar, sem vind um eyru þjóta.

 

STORÐ

Orðið storð er kvenkyns nafnorð’, skáldamál,segir orðabókin, jörð, land, heimur. Forn/úrelt merking er ungt, safamikið tré. Storð er því vel til fundið nafn á gróðrarstöð. Á baksíðu Morgunblaðsins (19.07.2016) er viðtal við Margréti Frímannsdóttur fyrrum, forstjóra Litla Hrauns, sem nú starfar í gróðarstöðinni Storð, fjölfróð um allan gróður og svo sannarlega með græna fingur eins og sundum er sagt.

Í viðtalinu segir: ,,… segir samstarfskona hennar sem gengur inn í kaffistofu Storðs”. Eignarfallið af storð er storðar.

 

STAFSETNING

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (16.07.2016): ,, Forseti Tyrklands stendur með pálmann í höndunum eftir viðburðaríkann og blóði drifinn sólarhring í landinu.” Er ekki einu sinni til leiðréttingaforrit í ritvinnslukerfi fréttastofunnar? Eða hvað? Enginn les yfir.

 

KANTÍNA

Molaskrifari hnaut um orð í auglýsingu í Morgunblaðinu á mánudag (18.07.2016). Í auglýsingunni var sagt:,, Við sendum hádegismat í bökkum og kantínum til fyrirtækja og stofnana alla daga ársins”. Það er orðið kantína, sem vefst fyrir skrifara. Á ensku er til orðið canteen. Það þýðir oftast, mötuneyti eða matsalur, þar sem gestir sækja mat sinn að afgreiðsluborði, en ekki er þjónað til borðs. Þá er orðið notað um verslanir í herstöðvum og mataráhöld hermanna eða útvistarfólks, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hvaða ástæða er til þess að taka upp þessa enskuslettu, kantína, og hvað þýðir hún í þessu samhengi?

 

HROÐVIRKNI EÐA VANKUNNÁTTA

Í fréttum Stöðvar tvö á mánudagskvöld (18.07.2016) var birt glefsa úr ræðu bandaríska dómsmálaráðherrans. Ráðherrann heitir Loretta E. Lynch, ekki Lauretta eins og skrifað var á skjáinn. Hún er dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, e. Attorney General, ekki ríkissaksóknari eins og sagt var í fréttinni.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>