«

»

Molar um málfar og miðla 1987

MAÐUR, MAÐUR

Sigurður Sigurðarson skrifaði (21.07.2016):

,,Núna þegar maður er búinn að sjá gögnin veit maður af hverju maður mátti ekki sjá þau.

 

Þetta er fyrirsögn á vefritinu visir.is. Fréttin skiptir í sjálfu sér ekki máli heldur hvernig blaðamaðurinn klúðrar fyrirsögn. Í þokkabót notar blaðamaðurinn fyrirsögnina sem fyrstu málsgrein fréttarinnar og eyðileggur hana næstum því. Ekki vel að verki staðið.

http://www.visir.is/-nuna-thegar-madur-er-buinn-ad-sja-gognin-veit-madur-af-hverju-madur-matti-ekki-sja-thau-/article/2016160729934

 

Betur hefði farið á því að hafa fyrirsögnina til dæmis svona: Nú er ljóst hvers vegna ég mátti ekki lesa gögnin.

 

Fleiri athugasemdir má gera við greinina og ljóst að enginn les yfir og gefur góð ráð eða leiðréttir. Það er miður enda heldur þá blaðamaðurinn að hann standi sig bara frábærlega.”- Kærar þakkir, Sigurður.

 

OFVÆNI – OFBOÐ

Á föstudagskvöld (22.07.2016) var sagt frá skotárás í verslanamiðstöð í München í fréttum Ríkissjónvarpsins. Fréttamaður  sagði um myndir sem sýndar voru : ,, … mátti sjá fólk flýja verslanamiðstöðina í ofvæni”. Þarna hefur eitthvað skolast til. Orðið ofvæni þýðir mikil eftirvænting eða  óþreyja. Kannski hefur fréttamaður verið að hugsa um orðið ofboð , sem þýðir angist , hræðsla eða uppnám. Fólkið, sem var að flýja, var skelfingu lostið.

 

EINHVERJA TVO VELLI!

Í Fréttablaðinu (21.07.2016)  er fjallað um byggingarleyfi fyrir tennishöll í Kópavogi. Þar er haft eftir bæjarfulltrúa:,, Það voru engin rök sem komu fram í þessu máli sem að mínu mati voru það sterk að banna ætti stækkun upp á einhverja tvo velli”. Stækkun upp á einhverja tvo velli ! Þetta tískuorðlag sést og heyrist æ oftar og er ekki til fyrirmyndar.

 

 

ENN UM ÞOLMYND

Ef lögregluþjónn eða lögregluþjónar skjóta mann og sagt er frá í fréttum virðist nú ráðandi orðalag að segja að maður hafi verið skotinn af lögreglu, sem er óþörf þolmynd. Lögreglan skaut mann.

 

AÐ GERA EITTHVAÐ

Í fréttum eru menn löngu hættir að gera. Nú framkvæma menn aðgerðir. ,, … hafa framkvæmt aðgerðir sem þessar”, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (21.07.2016). Þetta heyrum við því miður aftur og aftur.

 

AÐ SIGRA

Vestfirðingar sigruðu bæði karla- og kvennaflokk, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (23.07.2016). Oft hefur þetta verið nefnt í Molum. Það sigrar enginn flokka, keppni eða mót. Vestfirðingar sigruðu bæði í karla- og kvennaflokki. Það virðist erfitt að hafa þetta rétt.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>