«

»

Molar um málfar og miðla 1994

Í MORGUNSÁRIÐ

,, … komið fram í morgunsárið, – morgunárið”, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (31.07.2016). Fréttamaður/þulur leiðrétti það sem rétt var fyrir. Bjó til villu.  Hefur greinilega ekki þekkt orðið morgunsár, árla, snemma morguns. Hann kom í morgunsárið. Hann kom snemma morguns. Bjó því til oorðið morgunár, sem er út í hött. Hefur sennilega aldrei heyrt getið um ljóðabókina Það blæðir úr morgunsárinu eftir Jónas E. Svafár. Bókin kom út 1952. Ein fimm

ljóðabóka hans.

 

ALLT ER FRAMKVÆMT

Í þessum sama fréttatíma Bylgjunnar var sagt:,, …þegar tilraun sem þessi er framkvæmd”. Allt er nú framkvæmt. Tilraunin var gerð. Þessi framkvæmdagleði sumra fréttaskrifara er ekki af hinu góða.

 

 

UM GESTGJAFA

Hér hefur nokkrum sinnum verið vikið, að því að sumir íþróttafréttamenn skilji ekki og kunni ekki að nota orðið gestgjafi.

Í íþróttafréttum Bylgjunnar (31.07.2016) var sagt: ,,Íslenska liðið mætir í dag gestgjöfum Bosníu”. Hverjir eru gestgjafar Botníu? Þetta er bull. Bosníumenn voru gestgjafar  liðanna,  landanna, sem tóku þátt í mótinu. Þeir buðu til mótsins og stóðu fyrir því.

Í Ríkisútvarpinu var ágætlega sagt: ,,Ísland mætir heimakonum frá Bosníu”.

Og enn tala íþróttafréttamenn um að taka þátt á móti. Molaskrifari er á því að þetta sé röng forsetninganotkun. Betra og réttara sé að tala um að taka þátt í móti, ekki á móti.

 

BÍLVELTA VARÐ

Undarlegt hve orðalagið bílvelta varð er fast í huga sumra fréttaskrifara. Af vef Ríkisútvarpsins (01.08.2016): Bílvelta varð nærri Seljalandsfossi á fimmta tímanum í morgun. Bíll valt nærri Seljalandsfossi ….. Þetta er ekki nýtt. Ómar Ragnarsson, sá ágæti íslenskumaður, hefur stundum bent á þetta í bloggpistlum sínum. http://www.ruv.is/frett/tveir-slosudust-i-bilveltu-vid-seljalandsfoss.

Þetta var reyndar endurtekið í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum.

 

LÉLEGT STOFNANAMINNI

Stofnanaminni, eða starfsmannaminni, Ríkisútvarpsins er farið að bila. Að morgni frídags verslunarmanna 1. ágúst var á Rás eitt kynntur endurfluttur útvarpsþáttur frá 1987. Sagt var að umsjónarmaður væri Svavar Gestsson. Umsjónarmaður var Svavar Gests. Þetta vita velflestir sem komnir eru til vits og ára. Þetta ættu dagskrárgerðarmenn í Efstaleiti líka að vita.

 

ÓVANDVIRKNI

Það fer ekki mikið fyrir vandvirkni í þessari frétt af visir.is (01.08.2016): http://www.visir.is/fjorutiu-sjukir-eftir-ad-siberisk-hitabylgja-leysti-miltisbrand-ur-laedingi/article/2016160739888

Í fréttinni segir meðal annars:

,, Hitabylgja hefur verið á svæðinu undanfarna daga og hefur hitastig í Yamal freðmýrinni, sem situr fyrir norðan heimskautsbaug, farið upp í 35°C. “ Freðmýrin situr fyrir norðan heimskautsbaug! Hvaða rugl er þetta? Einnig segir í fréttinni: ,, Fylgifiskur þess er að bakterían hefur drepið úr dróma”.  ????

 

AÐ VERSLA INN

Á þriðjudag (02.08.2016) var í Ríkisútvarpinu rætt við sagnfræðing sem hafði skrifað háskólaritgerð um aðdraganda þess að Bessastaðir urðu aðsetur forseta Íslands. Sagnfræðingurinn sagði, að Pétri Benediktssyni sendiherra í London og frú hefði verið falið að versla inn innanstokksmuni í forsetabústaðinn og það hefði helst átt að vera second hand, eins og þeir hefðu sagt ! Það hefði allskonar þurft að vera til staðar! Vini Molaskrifara, sem hlustaði á þetta, þótti lítið gert úr þeim rausnarskap Sigurðar Jónassonar að gefa ríkinu Bessastaði. Það er réttmæt athugasemd.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>