«

»

Molar um málfar og miðla 2006

ENN OG AFTUR

Af dv.is (19.08.2016): ,,Annar þeirra katta sem drapst í Hveragerði í byrjun mánaðarins var byrlað sama eitur og þeir kettir sem drápust skyndilega í bænum fyrir rúmu ári. “ Enginn sér eða skilur, að því er virðist, að þetta er málfræðilega rangt. Ætti að vera: ,,Öðrum þeirra katta, sem drápust í Hveragerði í byrjun mánaðarins, var byrlað sama eitur og ….”. Kæruleysi, eða kunnáttuleysi, – nema hvort tveggja sé. Einhverjum er byrlað eitur.

http://www.dv.is/frettir/2016/8/18/kattanidingsmalid-i-hveragerdi-nyjar-upplysingar-komnar-fram/

Reyndar kemur ekki skýrt fram í fréttinni hvaða nýjar upplýsingar þar séu á ferðinni.

 

Á STÓRBÚI

SS, Sláturfélag Suðurlands heldur áfram að kynna okkur bændur, sem ,,eigi félagið”. Um einn stórbónda er sagt að hann búi á stórbúi. Sláturfélagsmenn og textahöfundur auglýsingarinnar vita sennilega ekki að það er málvenja að tala um að búa stórbúi frekar en að menn búi á stórbúi, – það stríðir gegn málvenju.

 

GRÖFUM UNDAN HEILBRIGÐISKERFINU

Einkasjúkrahúsið grafi undan núverandi kerfi, sagði í fyrirsögn í Morgunblaðinu sl. föstudag (12.08.2016). Í fréttinni er ekki verið að hvetja til þess að einkarekið sjúkrahúsi grafi undan heilbrigðiskerfinu, eins og ætla mætti af lestri fyrirsagnarinnar. Þetta er bara enn eitt dæmið um að fyrirsagnasmiðir kunnan ekki að nota viðtengingarhátt. Það sem átt er við, er að rekstur einkasjúkrahúss mundi grafa undan heilbrigðiskerfinu. –  Svona fyrirsögn hefði ekki náð á prent, ekki komið fyrir augu lesenda hér á árum áður meðan enn var málfarslegur metnaður á Morgunblaðinu.

 

FÆREYJAR – VEÐUR

Enn tekst ekki að koma Færeyjum á Evrópukortið í veðurfregnum. Hefur verið nefnt áður í Molum. Molaskrifari veit að fleiri hafa  vakið máls á þessu við veðurfræðinga. Það getur ekki verið tæknilega erfitt að sýna okkur hitastigið í Þórshöfn. Athygli Molaskrifara hefur einnig verið vakin á því að ekki er lengur sýnt hitastig á Kanaríeyjum , en það mátti áður sjá neðst í vinstra skjáhorni.

Hvað veldur?

 

STÓRBRIMI

Af mbl.is (20.08.2016): ,, Feðgin­in stóðu ásamt þrem­ur öðrum fjöl­skyldumeðlim­um á grjóti við strönd­ina þegar mikið stór­brimi greip þau. “

Gæðaeftirlit, yfirlestur ekki til staðar.  Meðlimir koma víða við sögu.

Er stjórnendum fjölmiðla ekki kappsmál að skila okkur réttum og vönduðum texta?

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>