«

»

Molar um málfar og miðla 2025

LEIGUHEIMILI !

Afsakið, ágætu lesendur, en mér finnst fáránlegt að tala um leiguheimili. En þar er ekki við mbl.is að sakast. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/09/27/bylting_fyrir_folk_undir_medaltekjum/

Ekki er síður fáránlegt að tala um að reisa leiguheimili eins og gert er í fréttinni. Þar segir: ,, Reist verða allt að 2.300 svo­kölluð Leigu­heim­ili á næstu fjór­um árum í nýju al­mennu íbúðakerfi ….” Heimili eru ekki reist.

 

HUGSANLEGT RIFBROT

Hvernig er hægt að hljóta hugsanlegt rifbrot eins og sagt var í fréttum Ríkisútvarps (27.09.2016)? – Af fréttavef Ríkisútvarpsins sama dag: Afleiðingar þessa voru að annar lögreglumannanna hlaut hugsanlegt rifbrot hægra megin framan til og yfirborðsáverka á fótlegg. Hugsanlegt rifbrot er kannski skárra en rifbeinsbrot.

 

TVEIR – TVENNIR

Það er heldur þreytandi að hlusta á sömu villurnar aftur og aftur. Í Morgunþætti Rásar tvö (27.09.2016) var fjallað um jólatónleika á aðventunni. Talað var um tvo tónleika. Tónleikar er fleirtöluorð. Tvennir tónleikar, – rétt eins og tvennar buxur. Undarlegt hvað það þvælist fyrir sumum útvarpsmönnum að hafa þetta rétt.

 

GERÐIST FYRIR MANNINN

Af mbl.is /28.09.2016). Fréttin er um einstaklega óheppinn mann, sem varð tvisvar sinnum fyrir því að könguló beit hann í typpið. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/09/28/kongulo_beit_mann_i_typpid_aftur/

,,Í frétt BBC seg­ir að maður­inn hafi verið að nota kam­ar á bygg­ing­ar­svæði í Syd­ney í gær er at­vikið átti sér stað. Hið sama gerðist fyr­ir mann­inn fyr­ir aðeins fimm mánuðum.”

Að segja að hið sama hafi gerst fyrir manninn fyrir fimm mánuðum er málvilla, ambaga. Enginn les yfir. Hið sama kom fyrir manninn … Nákvæmlega það sama kom fyrir manninn, … Setning í fréttinni er barnamál. Börn sem eru að læra að tala, hafa ekki náð fullum tökum á málinu gætu ef til vill tekið svona til orða. En svona orðalag á ekki að sjást í fréttaskrifum.

 

TIL HAMINGJU ÍSLENSKT SJÓNVARP!

Í dag, 30. september, er hálf öld liðin síðan íslenskt sjónvarp tók til starfa. Merkur dagur í menningarsögunni. Þá var tæknin frumstæð. Henni hefur fleygt fram. Molaskrifara er og verður þessi dagur ógleymanlegur. Í kvöld ætlum við hittast og gleðjast, sem unnum við Sjónvarpið fyrstu árin, – svart-hvítu árin , –  við köllum okkur í hálfkæringi Svart-hvíta gengið. Með okkur í kvöld verður vonandi Pétur Guðfinnsson, fyrsti starfsmaður Sjónvarpsins, fyrst framkvæmdastjóri, seinna útvarpsstjóri. Hlutur hans í stofnun Sjónvarpsins verður aldrei ofmetinn. Hann réði fólk, kom á samböndum við Norðurlöndin,sem veittu okkur ómetanlega aðstoð við byrjunina. Hann var sá sem raðaði þessu saman, – auðvitað með aðstoð margra eftir því sem  á leið. En hans hlutur í þessu hefur ekki verið metinn að verðleikum, enda  hefur Pétur aldrei tranað sér fram. Frekar haldið sig til hlés. Hann stóð ævinlega með sínu fólki, þegar á reyndi og í harðbakkann sló.  Hann á mikinn heiður skilinn.

Nokkrir eru horfnir úr hópnum, – við hugsum hlýtt til þeirra og rifjum upp gamlar minningar í kvöld. Af nægu er að taka. Þetta voru skemmtileg ár, – einstaklega samhentur og öflugur hópur. Gott fólk og það ríkti góður andi á Laugavegi 176 á frumbýlingsárunum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>