«

»

Molar um málfar og miðla 2036

ÓVANDVIRKNI

Sigurður Sigurðarson skrifaði (18.10.2016):

,Sæll,

Á visir.is er þessi frétt:

Við það steyptist hann fram fyrir sig og féll niður í steypta gryfju fyrir neðan stúkuna með þeim afleiðingum að hann hlaut líkamstjón. Fallið var rúmir þrír metrar og varð þeim mikið niðri fyrir sem vitni urðu að slysinu.

Gera má ráð fyrir að maðurinn hafi slasast við fallið en af hverju er það ekki sagt? Þurftu vitni mikið að tala, „vera mikið niðri fyrir“ eða varð þeim mikið um að hafa séð manninn „hljóta líkamstjón“?

 

Í lok fréttarinnar segir:

 Að mati dómsins hugði stefnandi ekki að sér og þætti hafa „sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem eitt og sér varð til þess að hann féll úr áhorfendastúkunni og slasaðist…“.

Ekki er ljóst hvort stefnandi „hugði ekki að sér· eða gætti ekki að sér. Hið fyrrnefnda er skrýtið en hefði síðarnefnda orðalagið verið nota bendir það til þess að maðurinn hafi verið óvarkár. Ekki er vitað hvort þetta eru skrif blaðamannsins eða dómsins þar sem fyrri hluti gæsalappa finnst ekki. Fréttin virðist öll frekar fljótfærnislega unnin.”

Þakka bréfið, Sigurður.

http://www.visir.is/storkostlegt-galeysi-en-ekki-handridid-sem-orsakadi-fallid-ad-mati-heradsdoms/article/2016161018829

Því er við að bæta , að Molaskrifari hefði í dómsorðum fremur sagt:, Að mati dómsins uggði stefnandi ekki að sér ….  – gætti stefnandi sín ekki, fór stefnandi ekki varlega, hafði ekki vara á sér.

 

LÖGREGLA

Í frétt í Morgunblaðinu (18.10.2016) segir: Þá slösuðust tveir alvarlega, þegar lögregla á bifhjóli, sem var að fylgja sjúkrabíl í forgangsakstri með ökumann úr slysinu …. Molaskrifari er ekki sáttur við þetta orðalag. Hér hefði átt að tala um lögreglumann á bifhjóli ekki lögreglu á bifhjóli. – Þetta er í raun sambærilegt við að segja að slökkvilið hafi slasast í eldsvoða.

Es. – Þú leikur rannsóknarlögreglu, sagði fréttamaður í viðtali í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi!

ENN EINU SINNI …..

Aftur og aftur sér maður og heyrir sömu villurnar, – því miður. Eftirfarandi er af fréttavef Ríkisútvarpsins á mánudag (17.10.2016): Fagráðinu hefur borist sjö tilkynningar um kynferðisbrot eða áreiti innan skólans frá stofun (vantar –n-) , allar í fyrra og það sem af er ári. Svona var þetta lesið í hádegisfréttum sama dag. Fréttamaðurinn sagði reyndar , um sjö tilkynningar ! Þarna var ekki um neitt um að ræða. Tilkynningarnar voru sjö. Ekki sex, ekki átta.

Þetta hefði átt að vera: Fagráðinu hafa borist sjö tilkynningar

Broddi Broddason, fréttaþulur í þessum fréttatíma, var með þetta hárrétt bæði í fréttayfirliti og inngangi að fréttinni. Þetta er  afar einfalt og augljóst, ef hugsun er að baki því sem sagt er. En sem fyrr er góð verkstjórn ekki til staðar og enginn les yfir eða hlustar áður en lesið er fyrir okkur.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>