«

»

Molar um málfar og miðla 2041

 

MÁLIÐ – AÐ KAUPA OG AÐ VERSLA

Með reglulegu millibili er hér vikið að fréttum þar sem  fram kemur að  sá sem fréttina skrifar, eða sá sem talar,  skilur ekki muninn á  sögnunum að kaupa og  versla.

Í Morgunblaðinu er  daglega, aftarlega í blaðinu, á miðri vinstri síðu örstuttur pistill; Málið. Vonandi lesa  fréttaskrifarar þennan pistil. Geri þeir það ekki, ættu þeir að gera það.  Molaskrifari leyfir sér að birta þriðjudagspistilinn Málið úr Morgunblaðinu þann sama dag: ,,Baráttan um sögnina að versla er ekki töpuð. Því skal minnt á að ekki ætti að  ,,versla föt” eða aðra vöru, heldur kaupa. Í verslun er verslað – verslað með mat, föt o.fl. Og maður verslar við kaupmann: hann selur manni vöruna og maður kaupir hana. Að versla þýðir nefnilega að kaupa og selja.”  Þetta er þörf áminning. Stuttorð og gagnorð.

 

ÞJÓÐGARÐURINN

Í hjarta þjóðgarðarins…., var sagt í þrjú fréttum Ríkisútvarps á þriðjudag (25.10.2016). Verið var að greina frá því að Þingvallanefnd ætlaði að neyta  forkaupsréttar til að kaupa  land  þar sem til stóð að reisa  steinsteypuhöll ( stóran sumarbústað) í hjarta þjóðgarðsins, – snertispöl  frá Valhallarreitnum. Hvar var ritstjórnin?  Enginn las yfir. Ekki nýtt.

http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=%C3%BEj%C3%B3%C3%B0gar%C3%B0ur

 

KANNANIR

Í fréttum Stöðvar tvö (26.10.2016)  var sagt frá skoðanakönnunum. Þar  var talað um þrennar kannannir. Hefði átt að vera þrjár kannanir.

Í sömu frétt var sagt að kjörstaðir mundu loka ( á tilteknum tíma). Kjörstaðir loka ekki. Kjörstöðum er lokað, þegar kjörfundi lýkur. Algeng villa.

 

MILDI

Það er brýnt,  að þeir sem skrifa fréttir þekki kyn þeirra orða, sem þeir  nota; kunni  undirstöðuatriðin í íslenskri málfræði.  Þetta er úr frétt á dv.is (25.10.2016): um strætisvagn,sem fór út af vegi í hálku á Hellisheiði: Hann segir mikið mildi að ekki fór verr. Mildi er kvenkynsorð, ekki hvorugkynsorð. Þess vegna hefði þetta átt að vera:  Hann segir mikla mildi, að ekki fór verr.

Magnús  Stefánsson, Örn Arnarson, lýkur einu kunnasta og fegursta  ljóði sínu, Þá var ég ungur með þessum orðum:

,,Er syrtir af nótt til sængur er mál að ganga

– sæt mun  hvíldin eftir vegferð stranga –

þá vildi ég, móðir mín,

að mildin þín,

svæfði mig svefninum langa”.

 

http://www.dv.is/frettir/2016/10/25/straeto-sumardekkjum-ut-af-hellisheidi/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>