«

»

Molar um málfar og miðla 2044

ERFITT

Það reyndist enn einu sinni erfitt þetta með kjörstaðina núna um og fyrir helgina.. Ýmist voru kjörstaðir að opna eða loka. Í sjónvarpsfréttum (28.10.2016) sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins  … þar til kjörstaðir opna. Sigríður Ingibjörg Samfylkingarþingmaður lét ekki sitt eftir liggja og sagði þegar kjörstaðir loka. Hjá fréttamönnum virtist  stundum svolítið tilviljanakennt hvernig orðalagið var. Skylt er þó að geta þess að í Ríkisútvarpinu var þetta yfirleitt rétt orðað, – það sem skrifari heyrði að minnsta kosti.

Kjörstaðir opna ekkert. Kjörstaðir loka engu.

Kjörstaðir eru opnaðir. Kjörstöðum er lokað. Þetta er ekkert flókið.

Enn um að opna. Í fréttum Bylgjunnar (25.10.2016) var sagt: Búið er að opna fyrir Þingvallaveg. Það var ekki búið að opna fyrir Þingvallaveg. Út í hött. Það var búið að opna Þingvallaveg fyrir umferð. Lögreglan hafði lokað veginum vegna þess að þar varð alvarlegt umferðarslys.

 

BLIKUR

Það eru blikur í leikmannamálum, var sagt í íþróttafréttum Stöðvar tvö (31.10.2016).  Þetta orðalag er út í hött. Fréttamaður átti við að blikur væru á lofti í leikmannamálum. Þar væri að líkindum við ýmis vandamál að etja. Betra er að kunna orðtök sem notuð eru í fréttum.

 

FJÁRLÖG OG SÖGUÞEKKING

Athygli Molaskrifara var vakin á því að bæði fréttamenn og stjórnmálamenn væru nú að tuða um það að til vandræða horfði og í óefni stefndi þar sem ekki væri komið fram

fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 og kominn nóvember.  Rétt er að minnast þess að þrjú fjátrlaga frumvörp komu fram fyrir fjárlög ársins 1980.  Fyrsta frumvarpið lagði Tómas Árnason, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar fram strax í þingbyrjun.  Svo sprakk sú ríkisstjórn og við tók minnihlutastjórn Alþýðuflokksins þar sem Sighvatur Björgvinsson var fjármálaráðherra. Hann lagði fram fjárlagafrumvarp, sem borin von var að yrði samþykkt, en það var skylda hans sem fjármálaráðherra að leggja frumvarpið fram. Þegar sýnt var að það yrði ekki samþykkt fyrir áramót voru samþykkt lög um heimild til fjármálaráðherra til að greiða lögbundnar og samningsbundnar greiðslur úr ríkissjóði um áramót, en ekki mátti stofna til nýrra fjárskuldbindinga. Þetta var samþykkt. Þegar svo ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen var mynduð í byrjun febrúar á árinu 1980 lagði nýr fjármálaráðherra ,Ragnar Arnalds fram þriðja  fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1980 sem svo var samþykkt. Molaskrifara er þetta minnisstætt vegna þess að hann lenti í þeirri sérkennilegu stöðu að vera formaður fjárveitinganefndar, – sem nú heitir fjárlaganefnd, – en í minnihluta, – formannskjörið fór fram áður en  ríkisstjórn var mynduð.  Það gekk allt bærilega ekki síst vegna góðrar samvinnu við Geir Gunnarssonar, þingmann Alþýðubandalags ,sem fór fyrir meirihlutanum. Með honum var einstaklega gott að vinna og lærdómsríkt.  Þetta er rifjað hér upp að gefnu tilefni.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Íþróttadeildin ræður því miður alltof miklu um dagskrá Ríkissjónvarpsins, Egill. Það var enginn gleðisvipur á nafna þínum Helgasyni, þegar hann sagði okkur að Kiljan yrði stutt í kvöld, – vegna íþróttaleiks. Íþróttarásin er sáralítið notuð. Ófremdarástand.

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,

    Þetta er nú ekki beint málfarstengt en þú hefur oft minnst á þetta.
    Nú er Ríkissjónvarpið sýna leik Tékka og Íslendinga, er ekki fyrir löngu komið nóg?
    Það hefur nú keyrt um þverbak í ár finnst mér hvað varðar útsendingar frá íþróttaleikjum. Þetta er fólki ekki boðlegt lengur.
    Það er orðið æ algengara að Ríkissjónvarpið bjóði ekki upp á einn einasta afþreyingaþátt sum kvöld þar sem íþrótta- og umræðuþættir hafa yfirtekið dagskrána.Mér finnst tími til að alvarlegar athugasemdir verði gerðar á opinberum vettvangi við þá þróun sem er að eiga sér stað hvað varðar dagskrárval.
    Það er langt frá því að allir hafi val um aðrar sjónvarpsstöðvar eins og t.d Stöð2 sem kostar held ég um 9.000 kr á mánuði ein og sér.
    Ég veit að mörgum hópum eins og t.d öldruðum líður hreint og beint illa að vera án almennrar afþreyingar mörg kvöld í mánuði.
    Það er komið nóg þolinmæði mín og tugþúsunda annarra er þrotin. Boltabullur eiga ekki að stjórna dagskrá Ríkissjónvarpsins.

    Kv, Egill

    P.,S HM og EM kvíði margra er t.d vaxandi vandamál hér á landi þó ekki fari hann hátt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>