«

»

Molar um málfar og miðla 2052

ENN UM DAGSKRÁRKYNNINGAR Í RÍKISÚTVARPI/SJÓNVARPI

Nýlega var í Molum fjallað um dagskrárkynningar í Ríkissjónvarpinu. Kynningarnar eru teknar upp löngu fyrirfram og ekki hirt um að breyta þeim, þegar breytingar verða á dagskrá. Þetta er ókurteisi og subbuskapur.

Af þessu tilefni skrifaði Ingibjörg (11.11.2016): ,,Sæll Eiður.

 

Í tilefni af því sem þú sagðir um dagskrárkynningar: Ævar Kjartansson er ekki lengur með Jón Ólafsson með sér í þáttunum Samtal á miðv.dögum. Í netdagskránni stendur réttilega nafn Gísla Sig. Samt er þar ennþá inni mynd af Jóni.

 

Við sunnudagsmessurnar á rás 1 í netdagskránni kemur alltaf upp mynd af dómkirkjunni í Rvík, jafnvel þótt viðkomandi messa sé alls ekki á vegum þjóðkirkjunnar.

 

Svo er annað – að það er alltaf verið að hnika dagskrá sjónvarpsins til í tíma. Þótt maður tékki á netdagskránni daginn áður, getur verið búið að breyta því daginn sem sent er út.

…………………………………………………………………………………………………………

Sent til RÚV: Í gærkvöldi hófst ný þáttaröð: Versalir, og er frönsk skv. dagskrá. Samt var töluð enska í þættinum. Hvers vegna kaupir RÚV franska þætti talsetta á ensku?

Álítur það að Ísl. hafi svo viðkvæm eyru að þeir þoli ekki að hlusta á frönsku? Hve langt verður þangað til norrænir þættir verða líka fengnir hingað með ensku tali?

Ég hef ekki fengið svar.

 

Svona er ekki bara e-ð prinsípmál. Það truflar listræna upplifun ef leikarar tala allt annað mál en persónurnar eiga að tala. Það er ekki hægt að trúa því að þeir séu franskt aðalsfólk ef þeir tala ensku. Rétt eins og það var truflandi í gömlum stríðsmyndum þegar nasistar töluðu ensku. En það er auðvitað ekki hægt að kvarta ef myndin er gerð á ensku, en fráleitt að kaupa talsetta útgáfu.

 

  1. Tarantino hlaut heilmikla gagnrýni fyrir stríðsmyndina “Inglorious Bastards” en eitt fékk hann þó hrós fyrir, hann lét hverja þjóð tala sitt mál, nasista þýsku, andspyrnumenn frönsku o.s.frv. Gott mál.“ Kærar þakkir fyrir bréfið, Ingibjörg. Það er víða pottur brotinn í þessum efnum í Efstaleitinu, – eins og þú réttilega bendir á. En Molaskrifari vill í lokin árétta, að dagskrárstundvísi í útvarpinu er til sérstakrar fyrirmyndar. Fréttir hér hefjast á sömu sekúndunni og hjá BBC og Sky eða CNN. Þess ber að geta sem vel gert. Ókurteisi stjórnenda Ríkissjónvarpsins gagnvart okkur er hinsvegar óþolandi.

Á sunnudagskvöld (13.11.2016) náði fjas eftir fótboltaleik tíu mínútur inn í fréttatímann. Tímasetningar næstu daskrárliða stóðust ekki. Engar skýringar. Engin afsökun. Allt eins og venjulega.

 

KEMUR FRÁ ….

Það er hvimleið árátta (einkanlega í þróttafréttum ljósvakamiðla) að segja til dæmis, – markvörðurinn kemur frá Selfossi (11.11.2016). Markvörðurinn er frá Selfossi, eða var í íþróttaliði á Selfossi. Hann var ekkert að koma frá Selfossi.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. AK skrifar:

    Á bæði Wikipedia og Internet Movie Database má finna upplýsingar um þáttaröðina Versali (Versailles). Þar kemur fram að um sé að ræða samstarfsverkefni breskra, franskra og kanadískra framleiðenda og að töluð sé enska í þáttunum.

    Með örlítilli leit á netinu má einnig sjá að þú ert ekki einn um að hneykslast á enskunni. Franskir gagnrýnendur gengu svo langt að kalla það glæp að þáttaröðin væri á ensku en ekki frönsku.

    http://www.dailymail.co.uk/news/article-2780715/French-critics-anger-new-series-Versailles-great-monarch-Louis-XIV-produced-English.html

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>