AÐ GRAFA SNJÓ
Trausti sendi Molum eftirfarandi (14.12.2016):
„Tólf ára drengur lést í Greenwich í New York í dag en hann var að byggja snjóvirki þegar hann varð undir snjóbakka.“
Þetta er náttúrlega sorgleg frétt og ég vona að mér fyrirgefist þó ég spyrji: Hvað er snjóbakki?
„Þá lést hinn 56 ára David Perrotto í bifreið sinni, eftir að snjómokstursvél gróf snjó yfir bílinn og útblástursrörið.“
Þessi svokallaða „snjómokstursvél“ hefur væntanlega MOKAÐ snjónum yfir bílinn, en ekki grafið snjóinn neins staðar.
Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/12/14/lest_vid_ad_byggja_snjovirki/
Þakka bréfið, Trausti. Hér hefur greinilega ekki vanur maður verið að verki. Ekki þekkt orðið snjóhengja. Enginn las yfir.
LANDAFRÆÐI Í RUGLI
Af visir.is og úr Fréttablaðinu (15.12.2016): ,, Þrátt fyrir að vera búsettir í Winnipeg-fylki, mörg þúsund kílómetra frá Íslandi, heldur hluti afkomenda vesturfaranna í íslenskar jólahefðir.“ Winnipeg er borg í Kanada. Ekki fylki. Winnipeg er í Manitoba, Kanada. Manitoba er fylki.
Sjá: http://www.visir.is/vestur-islendingar-gefa-othaegum-rotinn-tomat/article/2016161219282
ENN ER KOSIÐ
Óttalega er hvimleitt að hlusta hvað eftir annað á fréttamenn, eða lesa fréttir, þar sem fram kemur, að viðkomandi skilur ekki muninn á því að kjósa og að greiða atkvæði.
Í fréttum á miðvikudag var sagt frá því, að sjómenn hefðu fellt nýgerðan kjarasamning. Sjómenn greiddu atkvæði um samninginn. Felldu hann í atkvæðagreiðslu. Þeir kusu ekki um samning eins og tvísagt var fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 14 00.
Undarlegt að geta ekki haft þetta rétt. Hér hefur margsinnis verið bent á að þetta þurfi málfarsráðunautur að skýra fyrir þeim fréttamönnum, sem ekki gera greinarmun á því að kjósa og að greiða atkvæði.
VEGNA STYRKINGU
Enn glymur í eyrum hlustenda Ríkisútvarpsins auglýsing Húsasmiðjunnar – Blómavals um hagstætt verð á innfluttum jólatrjám vegna styrkingu krónunnar. Síðast rétt fyrir klukkan í morgun , föstudag (16.12.2016). Áður hefur verið bent á hér í þessum pistlum að þetta ætti samkvæmt reglum málsins að vera vegna styrkingar krónunnar, – vegna einhvers. – Bera þeir sem ráða birtingu auglýsinga í Ríkisútvarpinu enga virðingu fyrir móðurmálinu? Kunna auglýsingasmiðir Húsasmiðjunnar – Blómavals ekki grundvallarreglur málsins? Þetta hefur áður verið nefnt í Molum, – oft. Málfarsráðunautur ætti að ræða þetta við auglýsingadeildina.
FÓTSPOR
Af mbl.is (14.12.2016): Yfir milljón ára gamalt fótspor af forvera mannsins fannst nýverið í Tansaníu. Hér hefði verið eðlilegra að tala um fótspor eftir , ekki fótspor af. Ekki satt? Eða bara, – fótspor forvera mannsins, eins og reyndar segir í fyrirsögninni: Stærsta fótspor forvera mannsins. http://www.mbl.is/frettir/taekni/2016/12/14/dyrmaetar_upplysingar_um_manninn/
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
16/12/2016 at 21:29 (UTC 1)
Hálfgerður orðaleikur.
Jón Sveinn skrifar:
16/12/2016 at 17:07 (UTC 1)
„Af visir.is og úr Fréttablaðinu (15.12.2016): ,, Þrátt fyrir að vera búsettir í Winnipeg-fylki, mörg þúsund kílómetra frá Íslandi, heldur hluti afkomenda vesturfaranna í íslenskar jólahefðir.“ Winnipeg er borg í Kanada. Ekki fylki. Winnipeg er í Manitoba, Kanada. Manitoba er fylki.“
Þetta er rangt. Manitoba er hérað. Kanada samanstendur af héröðum og svæðum – ekki fylkjum.
Á íslensku Wikipedia-síðunni er þýðingin röng. Enska orðið province þýðir hérað.
Til gamans má geta að Kanadamenn gefa manni gjarnan langt nef ef maður spyr frá hvaða fylki þeir séu – og leiðrétta um hæl. 🙂