«

»

Molar um málfar og miðla 200

Í dag, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, er dagur íslenskrar tungu. Það er vel til fundið. En fjölmiðlamenn ættu að hugsa til þess, að allir dagar eru dagar íslenskrar tungu og orð fjölmiðlamenn vega þungt við mótun málsins. Þess vegna eiga þeir að kappkosta að skrifa vandað mál. Til hamingju með daginn.

 Á baksíðu Morgunblaðsins er degi íslenskrar tungu heilsað með fyrirsögninni: Ólöf Arnalds sjóðandi heit vestur í Bandaríkjunum. Gott að þessari ágætu listakonu vegnar vel vestra. En ekki er  fyrirsögnin á  fögru máli. Á forsíðu DV  er fyrirsögn: Brjálaður skaut upp hurð.  Ekki til fyrirmyndar heldur.

Af vefsíðu RÚV (15.11.29-009): Rás tvö liggur niðri á Austurlandi. Unnið að viðgerð á Gagnaheiði. Aldrei getur Molaskrifari fellt sig við orðalagið að eitthvað liggi niðri þegar það bilar. Svo ættu starfsmenn RÚV að vita að sendar fyrir útvarp og sjónvarp á Austurlandi eru á Gagnheiði, ekki Gagnaheiði.

 

Keppast um risahótel við höfnina, sagði í fyrirsögn á Vefdv. Ef flett er upp í orðabók, kemur í ljós að orðtakið að keppast um þýðir að keppast við eitthvað. Það sem fyrirsagnarhöfundur hefði átt að skrifa  er: Keppa um risahótel við höfnina. Í prentaðri útgáfu DV er fyrirsögnin: Keppa um risahótel ,sem ekkert er athugavert við.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (14.11.2009) var sagt frá samkomu í Hafnarfirði þar sem eins og þulur réttilega sagði, konur kepptust við að prjóna. Fréttamaður sagði hinsvegar að þarna væri kappkostað að útbúa agnarsmáar flíkur.  Ekki fellir Molaskrifari sig við notkun sagnarinnar að kappkosta í þessu samhengi.

 

Munu þeir taka yfir störf slökkviliðsmanna á Reykjavíkurflugvelli, var sagt í fréttum RÚV hljóðvarps (12.11.2009). Þetta orðlag er enskt. Betra hefði verið að segja : Munu þeir taka við störfum slökkviliðsmanna á Reykjavíkurflugvelli.

 

Í fréttum Stöðvar 2 (14.11.2009) tók fréttamaður svo til orða, að tunglið væri óvistvænn staður. Vistvænn þýðir; sem mengar ekki eða spillir lífríki eða náttúru. Líklega hefur fréttamaður ætlað að segja vistlegur. Tunglið er  ekki aðlaðandi til dvalar, ekki vistlegt.

 

Í sama fréttatíma Stöðvar tvö var sagt var opnun nýrrar verslunar í Kópavogi sem gekk ekki þrautalaust því  tölvukerfið gerði mönnum erfitt fyrir: Einungis var hægt að versla hluta af vörunum,sagði fréttamaður. Þá kröfu verður að gera til fréttamanna að þeir kunni að nota sagnorðin að kaupa og að versla. Svo var ekki í þessu tilviki.


 

Úr Vefdv (15.11.2009) Tilkynnt var um innbrot í sumarbústað á Grímsnesi til lögreglunnar á Selfossi á föstudaginn var. Það er ekki  mikilli máltilfinningu fyrir að fara, þegar notuð er forsetningin á  um Grímsnesið.

 

Í Molum hefur stundum verið vikið að Útvarpi Sögu. Rétt fyrir miðnætti fimmtudagskvöldið 12.11 hlustaði Molaskrifari á  útvarpsstjórann og Pétur ræða við Sverri Hauk Jóhannesson, sendiherra og aðalsamningamann okkar í aðildarviðræðum við ESB. Útvarpsstjórinn hélt sig mjög á mottunni. Pétur hafði að venju uppi  rangar fullyrðingar í spurningum. Þau komu ekki að tómum kofanum hjá Stefáni Hauki, sem leiðrétti rangfærslur Péturs með hægð og kurteisi og hafði skýr svör við öllu sem um var spurt.   Um fáa, ef nokkra, hafa þau Arnþrúður og Pétur talað af jafnmikilli rætni og illkvittni og starfsmenn íslensku utanríkisþjónustunnar.

13 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

 1. Kama Sutra skrifar:

  Hilmar,

  Hatur er sterkt orð.  Ég er venjulega friðsöm manneskja og reyni að hatast ekki við fólk.  Ég er heldur ekki haldin sjálfspíningarhvöt og reyni því að sniðganga það fólk sem framkallar hjá mér ógleði og uppköst.

 2. Hilmar skrifar:

  Kama Sutra? Ertu í raun Kleópatra í Gunnars Majónesi? Hatastu við langtleidda alkahólista?

 3. Kama Sutra skrifar:

  Ég er löngu hætt að ergja sjálfa mig með því að hlusta á þvaðrið í Arnþrúði og Pétri á Útvarpi Sögu.  Ég sniðgeng þau eins og pestina.

 4. Haukur Kristinsson skrifar:

  JS….þessi var flottur.

 5. JS skrifar:

  Skrítið að vitna í þátt sem þú hefur ekki upptöku af undir höndum en fullyrða þó um rangar fullyrðingar í þættinum.

  Mér þætti hitt furðulegra, þ.e. að taka upp útvarpsþætti á Útvarpi Sögu.

 6. Jóhann Kristjánsson skrifar:

  Skrítið að vitna í þátt sem þú hefur ekki upptöku af undir höndum en fullyrða þó um rangar fullyrðingar í þættinum.

 7. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

   Sæll Jóhann, – ég er ekki með upptöku af þessum þætti, en Stefán Haukur  Jóhannesson  þurfti  tvisvar, hið minnsta, að leiðrétta rangar fullyrðingar í spurningum  Péturs.

 8. Jóhann Kristjánsson skrifar:

  Sæll Eiður. Geturðu gefið mér dæmi um „rangar“ fullyrðingar Péturs í þættinum sem þú vitnar í?

 9. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

  Þakka ábendinguna, Lár, –   auðvitað átti að standa þarna:… orð fjölmiðlamanna.. Fádæma klaufaskapur.

  Samkvæmt íslenskri málvenju eru konur menn.

  Það sem helst hann varast vann, varð þó að koma …..

 10. María Gunnarsdóttir skrifar:

  Sæll ESG!

  Ertu búinn að sjá sjónvarpsauglýsinguna frá Múrbúðinni (hakka verðið fyrst/lakka svo)?

  Höfundar hennar ættu að fá verðlaun í tilefni dagsins. 

  M

 11. Lár skrifar:

  Molaskrifari skrifar á degi íslenskrar tungu: Í dag, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, er dagur íslenskrar tungu. Það er vel til fundið. En fjölmiðlamenn ættu að hugsa til þess, að allir dagar eru dagar íslenskrar tungu og orð fjölmiðlamenn vega þungt við mótun málsins. Þess vegna eiga þeir að kappkosta að skrifa vandað mál. Til hamingju með daginn

  Hann hefur líklega ætlað að skrifa ,,orð fjölmiðlamanna og kvenna vega þungt“

  😉

 12. Sverrir Friðþjófsson skrifar:

  DV.is:

   Dunga, landsliðsþjálfari Brasilíu í knattspyrnu, varar Englendinga við að þeir verði að læra að rekja boltann ef þeir ætli sér að eiga möguleika á heimsmeistaratitlinum í Suður Afríku á næsta ári.

  Skv. minni máltilfinningu er þjálfarinn að benda á  – ekki vara við.

 13. Haraldur Bjarnason skrifar:

  Mér finnst nú alltaf gaman að heyra að flug liggi niðri. Hvernig flug er það?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>