«

»

Molar um málfar og miðla 2087

FYRIR RANNSÓKN MÁLS

Það virðist vera staðlað orðalag í dagbókarfærslum lögreglunnar að tala um að maður/menn séu vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn máls. Úr frétt á mbl.is (04.01.2016) Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um úr dag­bók lög­regl­unn­ar voru menn­irn­ir í ann­ar­legu ástandi og eru vistaðir í fanga­geymslu lög­reglu fyr­ir rann­sókn máls. Þetta er óeðlilegt orðalag. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Reyndar hefur oft verið minnst á þetta sérkennilega orðalag hér í Molum.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/01/04/skemmdarvargar_teknir_med_thyfi/

 

 

Í FAÐMI …

Það er kannski viðkvæmt og að einhverra mati óviðeigandi að hafa skoðun á orðalagi í andlátstilkynningum. Nú heyrist æ oftar á þeim vettvangi , ,,að N.N. hafi látist í faðmi fjölskyldunnar“.. Þetta er sjálfsagt fallega hugsað, en er orðið hálfgerð klisja, ef þannig má að orði komast.     Kannski er þetta sérviska Molaskrifara.

 

VIÐTÖL

Stundum eru viðtöl þannig, að maður er eiginlega engu nær að viðtalinu loknu, engu fróðari. Þannig leið skrifara eftir viðtal í fréttum Ríkissjónvarps (04.01.2016) við verkefnisstjóra eldsneytis og vistvænnar orku hjá Orkustofnun um kolanotkun í stóriðju á Íslandi. Það sem einna helst stóð kannski eftir að þessi kolanotkun væri ekki af hinu góða, en verra væri þó ef stóriðjan væri til dæmis í Kína ! Stundum verða viðtöl lakari en efni standa til, þegar þau eru í beinni útsendingu í fréttatímum. Það er oft eins og  spyrli liggi svo mikið á, að hann megi varla vera að þessu.

 

SKAUPIÐ

Þeir sem annast áramótskaup Ríkissjónvarps mega bærilega við una ef helmingi aðspurðra finnst Skaupið þokkalegt eða gott. Væntingar margra eru í þá veru að helst megi ekki slakna á bros- og hlátursvöðvum í heila klukkustund. Þannig getur það aldrei orðið.- Sem betur fer, liggur mér við að segja. Svo er margt sinnið sem skinnið.

Það góða við Skaupið þessu sinni var að þar var enginn einn lagður í einelti. Margir fengu sinn verðskuldaða skammt. Það hefur komið fyrir að  manni hefur þótt að næstum eins mikið , ef ekki meira, væri lagt upp úr því að meiða en skemmta. Svo var ekki að þessu sinni og það var gott, þótt ýmislegt megi að finna. Þarna verður aldrei gert svo öllum líki.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>