«

»

Molar um málfar og miðla 2092

,,EKKI FRÉTT“

Stundum er talað um ,,ekki fréttir“, þegar skrifað er um eitthvað sem ekki er nýtt , ekki breyting, ekki í frásögur færandi. Þannig ,, ekki frétt“ var á fréttavef Ríkisútvarpsins (12.01.2017). Fyrirsögnin var: Utanríkisráðherra mótfallinn aðild að ESB. Það er ekki nýtt. Það er ekki frétt. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem nú  er orðinn utanríkisráðherra hefur lengi verið andvígur ESB- aðild. Kannski ekki alltaf, – fremur en flokkur hans.  http://www.ruv.is/frett/utanrikisradherra-motfallinn-adild-ad-esb

 

ÆTTERNI

Í fréttum Stöðvar tvö (11.01.2017) var sagt frá kveðjuræðu Obamas Bandaríkjaforseta. Sagt var, að faðir hans hefði verið geitahirðir í Kenýa. Þessi fullyrðing sést og heyrist stundum í fjölmiðlum. Faðir Obamas var vissulega fæddur í Kenýa. Hann var hagfræðingur, með meistaragráðu frá Harvard háskólanum í Bandaríkjunum. Virðist hafa verið laus í rásinni, átt erfiða ævi og glímt við áfengisvanda.

 

VIÐTAL

Upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar fékk dálítinn ræðutíma í fréttum Stöðvar tvö á fimmtudagskvöld (12.01.2017) Á mörkunum að hægt væri að kalla það viðtal. Í lokin sagði fréttamaður: Frábært. Við þökkum kærlega fyrir þetta. http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=SRC5DFD79E2-CFED-4CFA-8A8D-D6B56B536CF9 (09:16)

Eftir ágætan pistil eða innslag um iðnnám í í lok fréttatímans notaði fréttaþulur líka orðið frábært   ( sem áður hefur verið nefnt í Molum sem dæmi um orð, sem orðið er útþvæld klisja). Gott að allt skuli vera svona frábært, – nema reyndar orðaforðinn!

Skondið viðtal, var hins vegar í fréttum Ríkissjónvarps þetta sama kvöld. Fréttamaður var við Seljalandsfoss og ræddi við ferðamenn og  sveitarstjórann í Rangárþingi eystra, Ísólf Pálmason, sem er með allra skemmtilegustu Framsóknarmönnum. http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/frettir/20170112 Viðtalið hefst á 10:05, en skemmtilegheitin byrja á 13:55 ! – Svona eiga sýslumenn að vera !

 

ÓSÓTTIR VINNINGAR

Stóri vinningurinn fyrndur, sagði í fyrirsögn á mbl.is (12.01.2017). Í fréttinni kom fram að í fyrra fyrndist vinningur að upphæð 20 milljónir króna í íslenska lottóinu, því enginn miði fannst! Enginn gaf sig fram. Einnig kom fram, að í hverjum mánuði væru vinningar að upphæð ein og hálf til tvær milljónir króna, sem ekki væru sóttir.

Þetta er óboðlegt hjá fyrirtæki sem hefur lögbundið  ríkiseinkaleyfi til langs tíma. Það hefur hag af því að vinningar séu ekki sóttir.

Þegar Molaskrifari bjó í Noregi keypti hann stöku sinnum lottómiða. Við fyrstu miðakaupin fékk hann spjald á stærð við greiðslukort,sem hann sýndi svo í hvert skipti sem hann keypti miða. Vann reyndar  aldrei  neitt sem máli skipti, en í lottókerfinu var alltaf vitað hver átti hvern einasta miða, sem vinningur kom á. Engir ósóttir vinningar. Hvers vegna er samskonar kerfi ekki notað hér? Það er ekki gott að gera út á ósótta vinninga eins og íslenska lottóið gerir með nokkrum hætti.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/01/12/stori_vinningurinn_fyrndur/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>