«

»

Molar um málfar og miðla 2094

MEÐ EINN TIL REIÐAR !

Athygli Molaskrifara var vakin á frétt á mbl.is (02.01.2017) um stjórnarmyndunarviðræður. Þar sagði :,, Þetta er ein­fald­lega liður í þess­um stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðum,“ seg­ir Gylfi Ólafs­son, aðstoðarmaður Bene­dikts Jó­hann­es­son­ar for­manns Viðreisn­ar, í sam­tali við mbl.is. „Það er ekki gert ráð fyr­ir að þetta verði mjög fjöl­menn­ur fund­ur. Það verða for­menn­irn­ir með í mesta lagi einn til reiðar.Ja, hérna. Að hafa einn til reiðar þýðir eftir málvitund Molaskrifara (sem er að vísu ekki mikill hestamaður) að ríða einhesta, en að hafa tvo til reiðar er að hafa hest til skiptanna.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/01/02/fyrsti_formlegi_fundurinn/

 

HÚSNÆÐI

Í fréttum Stöðvar tvö á sunnudagskvöld (15.01.2017) var fjallað um eld sem kviknaði í iðnaðarhúsnæði, sem í óleyfi hafði verið breytt í íbúðarhúsnæði. Ítrekað talaði fréttamaður um húsnæði í fleirtölu.

Orðið húsnæði er eintöluorð. Það er ekki til í fleirtölu. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0i

Það þarf að segja nýliðum til og lesa yfir. Það þarf líka að vera vilji til að vanda sig, gera vel.

 

 

SÓKN ENSKUNNAR

Móðurmálið á í vök að verjast gegn ásókn enskunnar. Þetta er

öllum ljóst og hefur oft borið á góma í þessum Molapistlum.

Vefmiðill Morgunblaðsins mbl.is lætur ekki sitt eftir liggja í þessum efnum. Þetta er fyrirsögn af mbl.is (14.01.2017): Svala Björgvins: ,,Með attitude og swag“. Hversvegna í ósköpunum var verið þvæla íslensku orðunum með og og inn í þetta? Þarna var verið að fjalla um þátt í Sjónvarpi Símans sem kallaður er ónefninu The Voice Ísland. Síminn lætur heldur ekki sitt eftir liggja í baráttunni gegn íslenskri tungu.

http://www.mbl.is/folk/thevoice/2017/01/14/svala_bjorgvins_med_attitude_og_swag/

 

 

 

,,UNNIÐ Í SAMSTARFI VIГ

Fréttatímanum sl. föstudag (14.01.2017) fylgdi 20 síðna blaðauki ,,Samfélagsábyrgð fyrirtækja“. Þar er að finna greinar um fjölmörg fyrirtæki. Við greinarnar stendur svo dæmi séu tekin: Unnið í samstarfi við Eimskip, Unnið í samstarfi við HS Orku, Unnið í samstarfi við Nóa Síríus. Bara fá dæmi. Þetta þýðir í reynd að ekki er fjallað um fyrirtækin með gagnrýnum hætti, allt er jákvætt og gott. Í blaðamennskunni í gamla daga kölluðu blaðamenn svona skrif tekstreklame, upp á skandinavísku, texta auglýsingar og eiga lítið skylt við alvöru blaðamennsku.

Það er auðvitað algjör tilviljun að á síðunni á móti heilsíðugrein um Nóa Síríus er heilsíðuauglýsing frá Nóa Síríusi (bls. 8 og 9) . Algjör tilviljun. Ekki er víst að allir lesendur átti sig á því að orðin unnið í samstarfi við þýða í rauninni auglýsing frá … Það ætti að segja það berum orðum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Haukur Kristinsson skrifar:

    Auðs þótt beinan akir veg
    ævin treinist meðan,
    þú flytur á einum eins og ég
    allra seinast héðan.

    Einar Andrésson í Bólu

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>