Var að lesa um mann, sem hlaut skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að segja öryggisvörðum á Kastrup að hann væri með skammbyssu í handfarangrinum. Misheppnaður brandari, var sagt í fréttinni. Maðurinn tekur sjálfsagt undir það.
Í ljósi sögunnar er auðvitað sjálfsagt að gæta öryggis og koma í veg fyrir að fólk fari um borð í flugvélar með vopn. En allt er þetta fyrir löngu komið út í öfgar og orðið fáránlegt.Ekki má lengur hafa með sér um borð sjampó eða sódavatn, Kölnarvatn eða kók, nema að það sé keypt eftir að farið er í gegn um vopnaleit. Pennahnífar og naglaþjalir eru gerðar upptækar vegna þess að nota mætti þetta til að valda skaða. Um borð fá menn svo stálhnífapör eða plasthnífapör sem vandalaust er að nota til að meiða fólk, ef viljinn er fyrir hendi.
Um daginn fór ég til Færeyja. Handfarangurinn var gegnumlýstur sem og farsíminn. Gleymdi að segja frá tölvunni , en ekkert skeði. Hefði víst átt að láta hana renna í gegn um tækið í sér trogi. Af hverju, veit ég ekki. Mér var hinsvegar sagt að taka af mér beltið. Hversvegna í ósköpunum? Það var ekki einu sinni sylgja með prjóni í beltinu. Ég spurði hversvegna. Reglurnar, var svarið. Holdafarið kom sér vel í þetta skipti og kom í veg fyrir að ég gengi í gegn um öryggishliðið með buxurnar á hælunum.
Þetta er auðvitað fullkomið rugl.
Á heimleið frá Þórshöfn og Kastrup fékk ég að halda beltinu. Þar virtust engar svona dellureglur í gangi.
Nú er það auðvitað ekkert meginmál að taka af sér beltið og gyrða sig aftur. Þetta er bara svo óskiljanlega fáránlegt.
Er ekki kominn tími til að staldra við og láta skynsemina ráða ?
Skildu eftir svar