Þegar komið er út í umferðina á nýjum stað, í nýju landi ,fer gamall meiraprófsbílstjóri ósjálfrátt að bera saman við umferðina í Reykajvík.Umferðin í Beijing var kapítuli fyrir sig! Kannski meira um það síðar.
Það fyrsta sem vakti athygli í Þórshöfn er, að hér eru allir bílar með stefnuljós. Í Reykjavík er eins og aðeins annar hver bíll sé með stefnuljós, eða þá að vinstrihandarlömun hrjáir bílstjórana. Þeim virðist um megn að færa höndina á stefnuljósarofann. Kannski líta þeir á stefnuljósin sem takmarkaða auðlind,sem brýnt sé að fara sparlega með. Ég hef aldrei skilið þetta. Það hlýtur að vera eitthvað að ökukennslunni. Ekki er langt síðan ég benti ungri stúlku á að stefnuljósin hjá henni væru ekki lagi. Hún hefði þrískipt um akrein og aldrei gefið merki. Hún var greinilega nýkomin með bílpróf og sagði:“ Æ, ég er einmitt að reyna að venja mig á að nota stefnuljósin !“
Þegar eknar eru þrengstu göturnar hér í Þórshöfn skilur maður betur gamla brandarann um að í Færeyjum væri alltaf flautað fyrir horn.
Eftir rúmlega tveggja vikna dvöl skynja ég að umferðin er mýkri, kurteislegri hér. Það er ekki sama harkan og einkennir umferðina í Reykjavík. Líklega er streitan minni hér. Það er líka bannað að tala í síma í akstri í Færeyjum. Hér er það virt. Ekki heima. Hafa menn tekið eftir því að því dýrari sem jeppinn er því meiri líkur eru á að ökumaðurinn sé að blaðra í símann meðan ekið er ? Frekar óvísindaleg athugun bendir til að ef bíllinn kostar átta tiltíu milljónir séu helmingslíkur á að ökumaður sé í símanum. Af því má draga tvær ályktanir:
a) Hann er að gera út um milljarðaviðskipti,sem þola enga bið.
b) Bíllinn var svo dýr að það var enginn afgangur fyrir 4 þúsund króna handfrjálsum búnaði.
PS Mikið létti mér, þegar ég las fyrirsögn í Fréttablaðinu í morgun þess efnis ,að Margrét Sverrisdóttir féllist á gerð flugvallar á Hólmsheiði.
Það var þungu fargi af mér létt. Ég var lengi búinn að vera á nálum. Þetta var farið að standa mér fyrir svefni.
Það veldur mér hinsvegar djúpum og ósegjanlegum vonbrigðum að enginn skuli hafa áhuga á afstöðu minni til flugvallar á Hólmsheiði ! En svo enginn þurfi að velkjast í vafa þar um, þá hef ég miklar efasemdir um Hólmsheiðina og hugmyndin um flugvöll á Lönguskerjum er arfavitlaus. Færeyska orðabókin:
Hýruvognur = Leigubíll
Skildu eftir svar