«

»

Molar um málfar og miðla 906

Stundum er nokkuð langt til seilst í myndbirtingum fjölmiðla. Ekki síst á þetta við um netmiðlana. Mbl.is birti (08.05.2012) frétt um stúlku sem lést vegna gaseitrunar frá kolagrilli í tjaldi á tjaldsvæði við þorp í Bretlandi. Með fréttinni er birt mynd af tjaldi á blásnum mel þar sem þvottur hangir til þerris. Myndin er að líkindum tekin á íslenskum öræfum. Þess er ekki getið að myndin tengist fréttinni ekki með neinum hætti. Þetta er fáránleg myndbirting. Myndin bætir engu við fréttina.

 

Úr veröld Tobbu á dv.is (08.05.2012). Fyrirsögnin er: Kindafætur sem snagar! (!). Svo kemur þessi gullvæga setning: Er það bara ég sem fríka út við að sjá kindaneglur sem snaga? Með kindanöglum er átt við klaufir sem orðabókin kallar ágætlega „hornskó utan um tá á klaufdýri”. Kannski hefur konan sem þetta skrifaði aldrei komið í sveit.

 

Það er snjallt markaðsbragð hjá Mogga að bjóða háskólanemum iPad spjaldtölvu á hagstæðu verði gegn áskrift í tiltekinn (nokkuð langan) tíma. Margir munu falla fyrir þessu. Stjórnendur í Hádegismóum gera sér grein fyrir því að ungt fólk kaupir ekki Moggann, en allir vilja eiga iPad. Þetta er snjallt. En hvers eigum við gamlir áskrifendur Moggans og iPadeigendur að gjalda?  Hversvegna fáum við ekki Moggann í spjaldtölvuna okkar? Það væri til þæginda.

 

Leiðarar Morgunblaðsins geta verið dálítið undarleg lesning. Á þriðjudegi (08.05.2012) var Þýskland samtímans kallað kista lýðræðisins. Jafnvel þótt núverandi valdhafar í Þýskalandi séu leiðarahöfundi og eigendum Morgunblaðsins ekki þóknanlegir er ekki fulllangt gengið að segja að lýðræði ríki ekki í Þýskalandi ?

 

Vantar allsstaðar vinnu, segir í fyrirsögn á eyjan.is (08.05.2012). Þegar fréttin er skoðuð kemur í ljós að þetta er öfugmæli. Það vantar ekki vinnu. Það vantar fólk í vinnu.

 

Í efnisyfirlit morgunútvarps Rásar tvö (08.05.2012) er bæði talað um alkahólisma og alkóhólisma. Seinni orðmyndina er að finna í stafsetningarorðabók en ekki þá fyrri. Alltaf er gott að gæta samræmis.

 

Það er annars margt gott um morgunútvarp Rásar tvö. Þar eins og annarsstaðar þarf að vanda sig og hafa hlutina rétta. Sagt var frá orlofsmálum hafnfirskra húsmæðra (08.05.2012). Þar var sagt, og vitnað í lög frá 1972, að sveitarfélög ættu að greiða hundrað þúsund krónur á þávirði fyrir hvern íbúa og að hlutur Hafnarfjarðar væri því rúmlega tvær og hálf milljón króna. Samkvæmt því væru íbúar Hafnarfjarðar 25 talsins, ekki satt? Þetta var  augljóslega út í hött og gat engan veginn staðist , en enginn gerði athugasemd og ekkert var leiðrétt. Athugun á fréttinni í Fréttablaðinu leiddi í ljós að upphæðin sem greiða átti var 100 krónur á hvern íbúa. Ekki hundrað þúsund krónur á hvern íbúa.

 

Málfarsráðunautur ætti að leiðbeina dagskrárgerðarmanni í Virkum morgnum Rásar tvö, sem aftur og aftur segir svakkla í staðinn fyrir svakalega. Reyna mætti að laga fleira í leiðinni.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>