«

»

Molar um málfar og miðla 905

Molavin sendi þetta (07.05.2012): Úr dagskrárkynningu á ruv.is: Arnþrúður mætti í Mánudagsdrottningarviðtalið í Virkum morgnum og sagði á hundavaði frá spennandi lífshlaupi sínu. – Molaskrifari þakkar sendinguna. Skyldi málfarsráðunautur vera kominn í sumarleyfi ?

Norski heimildamyndaflokkurinn Kalt kapphlaup, sem Ríkisútvarpið er byrjað að sýna (08.05.2012) lofar mjög góðu. Fyrsta myndin var einstaklega fróðleg og vel gerð. Gott væri að fá meira af svona efni. Það á að vera mikilvægur þáttur í starfsemi Ríkissjónvarpsins að fræða okkur um samtíðina og söguna. Að skaðlausu mætti minnka framboðið af amerískri sápu. Þetta var fín mynd.

Meira um dagskrárkynningu eða dagskrárauglýsingar í Ríkissjónvarpinu. Molaskrifari hélt að sér hefði misheyrst og beið þess vegna eftir að heyra tiltekna dagskrárauglýsingu aftur. Ekki var um misheyrn að ræða. Ríkissjónvarpið var að auglýsa eitthvað sem kallað er EM-stofa. Þar var tilkynnt að nafngreindir einstaklingar ætluðu að kryfja liðin, stjörnurnar, þjálfarana og aðstandendur. Lík eru krufin, en yfirleitt er aðstandendum hlíft.

Það er ágætt dæmi um hina pólitísku umræðu á Íslandi þegar formaður Framsóknarflokksins segir að ríkisstjórnin hafi valdið meira tjóni en hrunið. DV flokkar ummæli þessa stjórnmálamanns í þrennt: Villandi ummæli, hreina og klára lygi og haugalygi. Það er líka til marks um umræðuna í samfélaginu þegar fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins (09.05.2012) í grein í Morgunblaðinu kallar stækkunarstjóra ESB, Stefan Fule, Stefán fúla. Það étur hann upp eftir ritstjóra Moggans. Þegar rökin eru þau ein að uppnefna fólk getur málstaðurinn ekki verið góður.

Ein mest lesna fréttin eða greinin á mbl.is að undanförnu ber fyrirsögnina
Kúkaði á sig á rúntinum. Molaskrifari hefur ekki fundið hjá sér þörf til að kynna sér efnið nánar.

Í fréttum Ríkissjónvarps (07.05.2012) var sagt: Viðbrögðin stóðu ekki á sér. Eðlilegra hefði verið að segja: Viðbrögðin létu ekki á sér standa.

Svolítið gaman hefur verið að fylgjast með hvernig framburður á nafni hins nýkjörna Frakklandsforseta hefur verið að breytast í íslenskum ljósvakamiðlum. Fyrst var nafnið hans borið fram eins nafn landsins Holland, en smám saman hefur það mjakast í rétta átt og er nú orðið býsna nálægt framburðinum eins og hann er á frönsku og til dæmis hjá BBC.

Lesandi benti á eftirfarandi fyrirsögn á dv.is (07.05.2012): Husky brillerar á hlýðniprófum. Satt er að sannarlega er þetta ekki til fyrirmyndar.

Í fréttum Stöðvar2 (07.05.2012) var talað um ofnæmisvaldandi innihaldsefni í vörum. Nægt hefði að tala um efni, ekki innihaldsefni.

Í morgunútvarpi Rásar tvö (08.05.2012) var talað um Möðrudal á Fjöllum. Sagt var á Möðrudal á Fjöllum. Molaskrifari er vanari því að sagt sé í Möðrudal á Fjöllum ekki á. Hvað segja staðkunnugir? Eru báðar forsetningarnar notaðar jöfnum höndum?

Herimsstyrjöldinni síðari lauk í Evrópu 8. maí 1945. Dagsins var víða minnst. Meðal annars sýndi danska sjónvarpið (DR2) fyrstu heimildamyndina í fjögurra mynda flokki, Þýskaland 1945 til 1949. Afar vönduð og vel gerð mynd. Vonandi fáum við að sjá þennan myndaflokk hér.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ég tók viðtal við við Jón í Möðrudal fyrir Alþýðublaðið 1965. Þegar hann vissi að konan mín væri píanókennari skammaði hann mig fyrir að láta hana sitja úti bíl. Hún kom inn og hann spurði: Hvað kanntu mörg lög við Á hendur fel þú honum? Svo spiluðu þau fjórhent á litla orgelið hans eftir að hann var búinn að hlýða henni svolítið yfir tónfræði. Þeir spila vitlaust fyrir sunnan , sagði hann , þegar við kvöddum hann. – Nokkuð til í því.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Vóru þeir Jón og Stefán í Möðrudal ekki frægir lífskúnstnerar? Aldrei hefði nokkrum manni dottið í hug að segja Jón á Möðrudal, þótt Benedikt á Grímsstöðum væri nágranni hans.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>