«

»

Molar um málfar og miðla 904

Skrifað er á visir.is (05.05.2012): Háskólalest Háskóla Íslands býður til vísindaveislu í Kirkjubæjarklaustri í dag. Það er engu líkara en sá sem skrifaði þetta haldi að Kirkjubæjarklaustur sé sérstök bygging en ekki þéttbýliskjarni. Málvenja er að segja á Kirkjubæjarklaustri og skriffinnarnir á visir.is hafa ekkert umboð til að breyta því.
Úr mbl.is (05.05.2012): Ein umfangsmesta flugslysaæfing landsins stendur nú yfir á Keflavíkurflugvelli. Ekki getur þetta talist vel orðað. Betra hefði t.d. verið: Ein umfangsmesta flugslysaæfing sem sett hefur verið á svið hér á landi stendur nú yfir á Keflavíkurflugvelli.
Réttilega talar mbl.is um kínverska fjárfestinn Huang Nubo sem Huang. Ríkisútvarpið talar hinsvegar oftar en ekki um Nubo. Það er eins og ef Barack Obama Bandaríkjaforseti væri aldrei kallaður annað en Barack.

Úr Fréttablaðinu (05.05.2012) Nýverið var henni flogið til Svíþjóðar …. Hér er ekki verið að tala um flugvél heldur fyrirsætu sem fór með flugvél til Svíþjóðar!

Á vefnum mbl.is (076.05.2012) er sagt frá fyrirhuguðum ríkisstjórnarfundi á Egilsstöðum á þriðjudaginn. Með fréttinni er hinsvegar birt mynd af ríkisráðsfundi þar sem forsetinn situr við enda borðs. Annað hvort er þetta klaufaskapur eða fáfræði.

Sagt var í fréttum Stöðvar tvö (05.05.2012): … tungumálaerfiðleikar milli áhafnarmeðlima og lóðs .. Þeir eru lífsseigir áhafnarmeðlimirnir. Þarna hefði verið betra að tala um skipverja. Í sömu frétt var sagt að rannsóknarnefnd sjóslysa hefði tekið rannsóknina yfir. Betra hefði verið að segja einfaldlega að rannsóknarnefnd sjóslysa annaðist nú rannsókn málsins. Í frásögn af þessu sama strandi var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps þennan sama dag: … og Þór er bundinn hér aðeins úti við … væntanlega átti fréttamaður við að varðskipið Þór lónaði eða lægi við akkeri skammt frá strandstaðnum. Ríkisútvarpið mun raunar ítrekað hafa tala um lóðsmann í staðinn fyrir lóðs í frásögnum að þessu strandi. En það er bara eftir öðru.

Það var einstaklega ósmekklegt að troða hátt stilltri, uppáþrengjandi rödd hér-(hikk )á- Rúv konunnar sem kynnir dagskrá sjónvarpsins inn í hið undurfallega lag Jóns Nordals við kvæði Jónasar, Smávinir fagrir foldarskart í lok þáttarins Átjánda öldin á sunnudagskvöld (06.05.2012) . Þetta var eiginlega eins og kjaftshögg.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hárrétt.

  2. Bjarni skrifar:

    Hafnsögumaður er íslenska orðið yfir „lóðs“.
    Leiðsögumaður er notað þegar um lengri siglingaleiðir er að ræða t.d. fljótasiglingar
    eða innanskerja.

  3. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir fyrir þetta, Gunnar Hrafn. Það má vera ég hafi dregið full víðtæka ályktun af .því að heyra oftar en einu sinni talað um Nubo í Ríkisútvarpinu. Ég veit að þú hefur þetta á hreinu, en ég held að sama gildi ekki um alla kollega þína. Ítreka þakkir fyri þitt góða bréf, – gott að heyra til eru menn sem vilja vanda sig. K kv ESG

  4. Gunnar Hrafn Jónsson skrifar:

    Afsakaðu langlokuna.

    Ég verð að gera athugasemd við að Ríkisútvarpið tali „oftar en ekki um Nubo“. Þetta var rætt á fréttastofunni á sínum tíma eftir að Huang Nubo málið kom fyrst upp og ég veit ekki betur en allir hafi náð að tileinka sér hvernig þetta virkar fyrir þó nokkru (það voru gerð mistök nýlega sem voru rædd sérstaklega til að koma í veg fyrir að þau endurtækju sig, það reyndist vera fljótfærnisvilla). Nær allir aðrir miðlar fara hins vegar með þetta rangt daglega og virðast jafnvel ekki vita að þetta eru mistök. „Nubo“ stendur stöðugt í fyrirsögnum nánast allra netmiðla og það fer ákaflega í taugarnar á mér.

    Eins og þú kannski manst þá bjuggum við í Kína á sama tíma, Eiður, og okkur er eðlislægt að taka eftir því í hvert sinn sem farið er rangt með kínversk nöfn. Þess utan hef ég óeðlilegan áhuga á tungumálum og „nafnakerfum“. Því hef ég fylgst vel með allri umfjöllun um þetta mál með tilliti til kínverska nafnakerfisins og leyfi mér að fullyrða að enginn miðill hefur eins oft haft þetta rétt og fréttastofa Ríkisútvarpsins og jafnvel að enginn hafi eins sjaldan gert umrædd mistök.

    Ég er því miður ekki með aðgang að Credit Info eða slíku að heiman til að sannfæra þetta með leitarvél en ég skal lofa þér því að þetta er mér hjartans mál og það kæmi mér stórkostlega á óvart ef hægt væri að sanna ofangreinda fullyrðingu þína um að Ríkisútvarpið eigi í sérstökum vandræðum með þetta atriði. Þvert á móti held ég að þar á bæ séu menn sé í farabroddi þegar kemur að notkun asískra nafna 😉

    M. kveðju og þökk fyrir molana,

    Gunnar Hrafn

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>