Þessi hugleiðing mín um kínverska fjárfestingu á Grímsstöðum á Fjöllum birtist í Morgunblaðinu i morgun, (11.05.2012)
Fyrirhugaðar fjárfestingar kínverska auðmannsins og fjárfestisins Huangs Nubo á Hólsfjöllum hafa verið umræðu. Sá sem þetta skrifar er hlynntur erlendum fjárfestingum á Íslandi og telur það eina af mörgum leiðum til að bæta lífskjör landsmanna. Kínversk fyrirtæki og Kínverjar fjárfesta nú um víða veröld í krafti efnahagslegar velgengni, mikils hagvaxtar og gildra gjaldeyrissjóða. Hvar sem sést olíubrák, gaslykt er í lofti eða glittir á málma í grjóti eru hráefnahungraðir Kínverjar til staðar. Þetta á einkum við um lönd sem annað hvort eru bláfátæk, stórskuldug eða í efnahagshremmingum af öðrum toga. Nema allt þrennt sé.
Hér á landi hefur kínverska fyrirtækið China Blue Star eignast málmblendiverksmiðjuna á Grundartanga með yfirtöku. Ekki er annað vitað en þar hafi allt gengið að óskum. Í farvatninu þar eru mikil stækkunaráform sem vonandi ná fram að ganga. Stóriðjan á Grundartanga, lengst af í eigu Elkem í Noregi, hefur verið Vestlendingum og þjóðinni til góðs.
En undirritaður játar að því meira sem hann hugsar um áform Huangs á Hólsfjöllum því fleiri spurningar vakna og aðvörunarljós kvikna. Það er eitthvað sem gerir að verkum að þetta gengur ekki alveg upp. Bitarnir í púsluspilinu raðast ekki rétt saman. Það er reyndar líka ógeðfellt að þessi tilvonandi gestur á Íslandi skuli guma af því í fjölmiðlum á heimaslóð að hafa knésett íslenskan ráðherra. Það segi ég þótt ég hafi engar mætur á pólitískum verkum ráðherrans sem í hlut á. Þau ummæli vekja Huang ekki samúð eða stuðning hér á landi.
Stærð og umfang fjárfestingarinnar, 16 milljarða er undrunarefni. Golfvöllur , flugvöllur, gistihús,- nefndu það. Réttilega hefur verið bent á að langan tíma muni taka að fá 16 milljarðana til baka, en markmið allra fjárfestinga er að fá fjárfestinguna til baka. Hvaða markaðsrannsóknir liggja að baki því að unnt er talið að fá þúsundir eða tug þúsundir auðmanna frá Kína til að vera á vetrum í vitlausum veðrum á Hólsfjöllum? Greinilegt er að ekki er stefnt að ódýrum hópferðum almennings í fyrirhuguð Hólsfjallahótel.
Annað sem vekur umhugsun er hve fjárfestirinn Huang hefur auðgast ótrúlega á undraskömmum tíma. Þeir sem þekkja svolítið til í Kína vita að slíkt gerist ekki nema með blessun, – mikilli blessun, – stjórnvalda og Flokksins. Þetta eru ekki bara útsjónarsemi og fjármálaklókindi. Huang stendur ekki einn. Það er mikill misskilingur að halda það.
Enn annað til hugleiðingar: Bæjarstjóri að norðan fer í samningaferð til Kína. Talsmaður Huangs á Íslandi talar digurbarkalega fyrir hönd vinnuveitenda síns og virðist ekki alltaf fara rétt með. Hver er reynsla þessarar sjálfsagt ágætu manna af samningum og viðskiptum við Kína og Kínverja? Vafalaust eiga báðir að baki flekklausan og ágætan feril í viðskiptum. En hver er reynsla þeirra af samstarfi við Kínverja og kínversk fyrirtæki?
Fram hefur komið að ekki hafa öll fyrirtæki Huangs lukkast jafn vel. Ekki hafa heldur allar fjárfestingar Kínverja í Evrópu heppnast jafn vel. Hvað með Gautaborg? Hvað með Píreus sem á að verða endastöð hins nýja silkivegar til Evrópu? Þar fer ekki gott orð af gestunum. Hvað með mikil umsvif á Ítalíu?
Hér er ekki verið að amast við kínverskum fjárfestingum á Íslandi heldur aðeins vakin athygli á að rétt er að fara með gát, – mikilli gát. Vilji Huang Nubo fjárfesta í ferðamálum á Íslandi væri skynsamlegra að byrja svolítið smærra og með meiri hliðsjón af íslenskum aðstæðum. Byrja tildæmis með milljarð eða tvo. Það væri ágæt búbót , – líka fyrir Norðlendinga. Ef vel gengi gæti þetta svo vaxið og dafnað. Hér ber því að fara varlega, – því ekki er flas til fagnaðar.
Þetta mikla ævintýri sem hér virðist í uppsiglingu minnir þann sem þetta skrifar á annað mál í ferðamálasamvinnu Íslands og Kína. Skal það nú rifjað upp í lokin.
Seint á árinu 2005 tókst kínverskri konu sem sagðist hafa mikil sambönd í stjórnkerfinu og kommúnistaflokknum í Kína að sannfæra forystumenn hjá FL Travel Group (Icelandair) að það væri mikill gróðavegur að flytja kínversk brúðhjón til Íslands til að verja þar hveitibrauðsdögunum. Brúðhjónin áttu að koma frá þremur borgum í Kína Tianjin (140 km á frá Peking), Xian, hinni fornu höfuðborg og Kunming sem báðar eru langt inni í landi. Raunar var talað um 10-30 þúsund ferðmenn. Í janúar 2006 kom konan með sendinefnd frá FL Travel til Kína og heimsótti allar þessar borgir.
Reynda menn í sendiráði Íslands í Peking grunaði að hér ætti að byggja á sandi. Það var meðal annars vegna þess að íslenska sendinefndin var fóðruð á röngum upplýsingum og ekki virtist til staðar nein þekking á ferðavenjum Kínverja. Sendiráðið lét í ljós miklar efasemdir um málið í heild en fékk fyrirmæli frá utanríkisráðuneytinu í Reykjavík um að sýna jákvæðni. Sem við reyndum.
Brúðkaupsferðirnar áttu að kosta 2-3 sinnum meira en viku til tíu daga ferð til 4-5 landa á meginlandi Evrópu, en þannig ferðir kjósa Kínverjar helst haldi þeir til Evrópu. Var líklegt að þúsundir kínverskra brúðhjóna úr þessum borgum færu til vikudvalar á Íslandi sem væri jafn dýr og raun bear vitni? Ferðin ein tæki hátt í sólarhring hvora leið. Var ekki líklegra að fólkið færi til meginlands Evrópu eða til einhvers af grannlöndum Kína? Reynslan sýnir að flestir Kínverjar sem leggja land undir fót byrja á að heimsækja lönd í Asíu áður en haldið er til Evrópu eða Norður Ameríku.? Fulltrúar FL Travel Group voru þarna kerfisbundið mataðir á röngum upplýsingum.
Því er þessi saga rakin hér að aldrei komu nein kínversk brúðhjón til Íslands í tengslum við þessar ráðagerðir. Þetta var nefnilega tómt rugl. Hvað íslenskir aðilar báru mikið tjón af þessu ævintýri, veit ég ekki. Áreiðanlega var það umtalsvert.
Vítin eru til að varast þau. Þessvegna skulum við stíga til jarðar með mikilli gát þegar talað er um 16 milljarða fjárfestingar á reginfjöllum á Íslandi. Látum ekki plata okkur. Þetta eru varnaðarorð. Bjóðum góða gesti velkomna til samstarfs sem byggt er á raunsæi og skynsemi en umfram allt skulum við fara varlega og gjalda varhug við smíði skýjaborga.
Eiður Svanberg Guðnason
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
12/05/2012 at 11:51 (UTC 0)
Þetta er alveg rétt, Guðmundur það hafa fleiri minnt mig á þetta. Meira ruglið.
Þorvaldur S skrifar:
12/05/2012 at 10:21 (UTC 0)
Habbðu heill mælt!
guðmundur a birgisson skrifar:
12/05/2012 at 02:14 (UTC 0)
Sæll Eiður ég held að rétt sé farið með að aðlráðgjafi kínverjans hafi verið í forsvarifyrir lakkrísverksmiðju í Kína og fengið þingmanninn Halldór Blöndal til að klippa á rauðan borða?Mér finnst þetta lykta af sama meiði,það er mín reynsla af Kínverjum.