Það er auðvelt að setja sig á háan hest og dæma viðbrögð Ríkissjónvarpsins við óhappinu á Keflavíkurflugvelli, þegar hjól brotnaði undan Icelandairþotu í flugtaki með hátt í 200 manns innanborðs. Molaskrifari reyndi að fara í gömlu fréttamannsfötin og ímynda sér hvernig hann hefði brugðist við. Í stórum dráttum hefði hann líklega brugðist við svipað og fréttastofan gerði. Ingólfur Bjarni stóð sig vel. Undir svona kringumstæðum er umhugsunartími oft nánast enginn en ákvarðanir verður að taka og stundum kemur í ljós eftir á að taka hefði átt aðra ákvörðun, en þannig er þetta. Í beinni útsendingu þarf að hugsa hratt. Gott var hve góða endi þetta fékk. Þrautþjálfað fólk til staðar. Bæði í áhöfn vélarinnar og hjá viðbragðssveitum á jörðu niðri. Ekki var geðfellt að sjá hvernig bílstjórar lögðu bílum sínum við Reykjanesbrautina til að fylgjast með. Það tekur því varla að minnast á það, að þegar talað var um Reykjanestá hefði átt að tala um Garðskaga! Það vakti hinsvegar undrun að í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins daginn eftir(190.05.2012) jaðraði eiginlega við vandlætingu vegna þess að farþegum um borð í vélinni skyldi ekki sagt frá hinum mikla viðbúnaði á vellinum. Auðvitað hefðu það verið mistök að skjóta fólki skelk í bringu með því að tíunda það.
Ánægjulegt er að heyra Ríkisútvarpið skuli ætla að taka upp til flutnings 22 viðburði á Listahátíð. Flest af þessu verður væntanlega flutt í útvarpi en eitthvað í sjónvarpi. Í viðtali á Rás eitt (18.05.2012) viðurkenndi Sigrún Stefánsdóttir dagskrárstjóri að visst tregðulögmál hefðu verið í gildi varðandi upptökur á menningarefni fyrir sjónvarp. Gott er að heyra að það vonda lögmál sé nú á undanhaldi. Ríkissjónvarpið hefur skammarlega illa sinnt listum og menningu. En sannarlega er gott að það skuli standa til bóta. Minnka mætti að skaðlausu , vampíru- og draugamyndir og hinar átakanlegu dellumyndir úr amerísku verksmiðjunni sem kvikmyndastjórar Ríkissjónvarpsins hafa svo óskiljanlegt dálæti á. En þetta voru sem sé góðar fréttir úr Efstaleiti.
Úr mbl.is (16.05.2012): ,,Þetta var einn áhugaverðasti dagur sem ég hef verið á setti hingað til verð ég að segja,“ segir Hanna Guðrún Halldórsdóttir, nýútskrifaður leikari í Los Angeles, sem fer með bakgrunnshlutverk í nýjustu kvikmynd gamanleikarans alræmda Sacha Baron Cohen, The Dictator eða Einræðisherrann. Hún segir erfitt að halda andliti nálægt Cohen í ham.” Þetta hlýtur flokkast undir hreina snilld hjá mbl.is. Fákunnandi skrifarar ganga greinilega sjálfala á ritstjórn mbl.is
Úr mbl.is (17.05.2012) Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins, Crystal Serenity, lagði að höfn við Skarfabakka í Reykjavíkurhöfn um klukkan hálf átta í morgun. Skip leggja ekki að höfn eins og hér er skrifað. Skip leggjast að bryggju eða við bryggju. Skip koma í höfn. Skip fara úr höfn.
Sex hundruð áhafnarmeðlimir komu við sögu í fréttum Stöðvar tvö (17.05.2012). Lífseigt orðskrípi. Þarna hefði mátt tala um sex hundruð manna áhöfn eða sex hundruð skipverja.
Molalesandi sendi þetta (18.05.2012): „Rakst á þessa frétt á vef Morgunblaðsins: http://mbl.is/frettir/erlent/2012/05/17/hvit_born_ekki_i_meirihluta/
Fyrirsögnin er beinlínis röng – þó svo hvít börn sem fæðist í Bandaríkjunum séu ekki lengur í hreinum meirihluta eru þau enn í meirihluta. Fréttin lyktar annars af e.k. hræðsluáróðri þjóðernissinna”. Molaskrifari þakkar sendinguna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar