«

»

Molar um málfar og miðla 911

Sá sem skrifaði eftirfarandi á mbl.is (15.05.2012) ruglar saman sögnunum að kaupa og versla: Verslunarmenn eru lítt hrifnir af þessum aðgerðum bænda og benda m.a. á að þegar hillurnar tæmist í Noregi muni neytendur bara fara yfir til Svíþjóðar og versla sína vöru þar. Því miður verður æ algengara að sjá villur af þessu tagi.  Fólk verslar ekki brauð það kaupir brauð í verslunum sem versla með brauð. Þetta er ekki mjög flókið. En hér segir til sín að enginn kunnáttumaður les fréttir yfir áður en þær eru birtar. Prófarkalesarar virðast útdauð stétt.

 

Hannes Bjarnason sagðist enn vanta undirskriftir … las fréttaþulur hiklaust í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (15.05.2012). Hér hefði verið betra að segja: Hannes Bjarnason sagðist enn ekki hafa safnað nægilega mörgum undirskriftum , – eða Hannes Bjarnason sagðist enn vera að safna undirskriftum. Við segjum ekki: Ég sagðist vanta.

 

Undarlegt samstarf og örvæntingafullt, segir í fyrirsögn á visir.is (15.05.2012). R-ið í samsettum orðum verður sumum að fótakefli. Þarna ætti að standa örvæntingarfullt, ekki örvæntingafullt.

 

Innanríkisráðherra gerði ríkisstjórninni grein fyrir stöðu Útlendingastofnunar á fundi sínum í morgun, var sagt í kvöldfréttum  Ríkisútvarpsins (15.05.2012). Þetta var fundur ríkisstjórnarinnar, ekki fundur innanríkisráðherra eins og skilja mátti á orðalaginu. Þetta hefði átt að orða skýrt.

 

Í sama fréttatíma Ríkisútvarpsins var talað um þá sem ættu á hættu að vera hent út af skránni (atvinnuleysisskrá). Götumál á borð við þetta á ekki heima í fréttum alvörufjölmiðils. Þetta orðalag var svo endurtekið athugasemdalaust í tríu fréttum Ríkissjónvarps sama kvöld. Það er ekki talað um að henda út af skrá. Strika út af skrá væri eðlilegra mál. Enn er spurt: Les enginn yfir? HJar er málfarsráðunautur?

 

Ekki sér Molaskrifari betur en Bauhaus hafi fjarlægt ensku slettuna drive-in um timbursölu sína úr sjónvarpsauglýsingum. Kærar þakkir  og prik fyrir það. Molaskrifari var hér líklega fullfljótur að þakka. Eftir að þessar línur voru skrifaðar kom auglýsingabæklingur frá Bauhaus í póstinum. Þar var ítrekað talað um þessa ekkisen drive-in timbursölu.

 

Talsmaður Ísfélags Vestmannaeyja hótaði í Ríkissjónvarpinu (15.05.2012)að selja nýtt skip fyrirtækisins sem kom til heimahafnar í dag ef  sjávarútvegsfrumvörp yrðu að veruleika. Maðurinn talaði líka um að versla inn á öskuhaugum. Hann ætti að kynna sér betur notkun sagnarinnar að versla áður en lætur hótunum rigna yfir þjóðina í sjónvarpsfréttum.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (15.05.2012) var sagt: Forsetinn kosinn út. Átt var við að forseti glæpasamtakanna Vítisengla hefði verið felldur í kosningum í samtökunum. Ekki vel orðað. Það er ekkert til sem heitir að kjósa út.

 

Þegar fjallað er um símhleranaréttarhöldin og ákærur í Bretlandi er það álitamál hvernig þýða á það sem breskir fjölmiðlar kalla  to pervert the course of justice. Í íslenskum fjölmiðlum er þetta kallað að hindra framgang réttvísinnar, sem vissulega er býsna fast í málinu. Einnig mætti tala um að spilla fyrir framgangi réttvísinnar sem er nær merkingu orðalagsins á ensku. En þetta er auðvitað bara hugleiðing. Það er ekkert að því að tala um að hindra framgang réttvísinnar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Frekar en ég fari að stunda orðskýringar í löngu máli þá vísa ég á ‘Íslenska orðabók, t.d. útgáfuna frá 2007. Þar er reyndar talað um að versla ( sér) sem mér finnst ekki gott mál, Betra að segja til dæmis: Ég fór í bæinn til að versla og keypti mér skó og sokka. Þetta snýst einnig um máltilfinningu og smekk.

  2. Alexander skrifar:

    Sæll Eiður.
    Værirðu til í að útskýra betur fyrir mér muninn á sögnunum „kaupa“ og „versla“. Hvað um kaupmenn?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>