Molavin sendi eftirfarandi (13.04.2012) „Starfsmaður á veitingastaðnum skarst í lófa eftir að hafa afvopnað manninn, segir í frétt á visir.is. Trúlegra virðist að hann hafi skorizt ÞEGAR hann afvopnaði manninn. Hér er dæmigert hugsunarleysi á ferð við fréttaskrif. Þessi „eftir-árátta“ í fréttaskrifum er útbreidd. Iðulega sagt að menn hafi slasast eftir slys.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Í fréttum Ríkissjónvarps (12.05.2012) sagði fréttamaður:.. segir sjóðina hafa gengið miklu skemur, en . Síðan kom Helgi Hjörvar þingmaður á skjáinn og notaði sama orðalag. Molaskrifari er á því að hér hefði fremur átt að tala um að sjóðirnir hefðu gengið miklu skemmra en, ekki skemur en.
Úr fréttum Stöðvar tvö (13.05.2012): … heldur muni sjónin halda áfram að versna um aldur fram, sagði fréttamaður. Helst var að skilja af samhenginu að þá mundi sjónin halda áfram að versna þau ár sem viðkomandi ætti ólifuð. Annars var þetta eiginlega óskiljanlegt. Í sama fréttatíma var rætt við mann sem hafði prófað hinar ýmsustu leiðir.
Æ oftar heyrist í fréttum talað um að landa máli, þegar átt er við að leysa mál, finna lausn á einhverjum vanda (Fréttir Stöðvar tvö 14.05.2012). Ef til vill eru þetta áhrif frá íþróttafréttamönnum sem lengi hafa talað um að landa sigri, að sigra.
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (14.05.2012) var sagt að stuðningsmenn sigurliðs í knattspyrnu væru á bleiku skýi! Hvaða kemur þetta bleika ský? Segjum við ekki á íslensku um þá sem eru himinlifandi yfir góðum árangri, góðu gengi, að þeir séu í sjöunda himni?
Fróðlegt er að lesa í Morgunblaðinu (15.05.2012) hvernig Reykjavíkurborg hefur staðið að náttúruspjöllum á Úlfarsfelli. Það var Reynir Traustason ritstjóri DV sem fyrstur mun hafa vakið athygli á þessum skemmdarverkum borgarinnar ,en nágranni kærði. Úlfarsfell er ein af náttúruperlum borgarsvæðisins. Tilfinningaleysi má ekki ráða í umgengni við slík verðmæti.
Stundarkorn hlustaði Molaskrifari á morgunþátt Útvarps Sögu að morgni þriðjudags (15.05.2012). Þar ræddi umsjónarmaður við Axel, einn af okkar mönnum í Svíþjóð eins og umsjónarmaður sagði. Annað eins endemisbull hefur Molaskrifari ekki heyrt lengi. Þarna voru rangfærslur og gervivísindi tvinnuð saman beinlínis að því er virtist til að skelfa fólk. Kerfisbundið væri verið að útrýma mannkyni til að fækka íbúum jarðar. Svíþjóðarmaðurinn hvatti svo hlustendur til að styðja konuna sem vill verða forseti en hún lýsti mikilli ánægju í beinni útsendingu sjónvarps þegar eggjum og ávöxtum var kastað í þingmenn við setningu Alþingis. – Mikið skelfing er þetta eitthvað sannfærandi, sagði umsjónarmaður morgunþáttarins að þessum lestri loknum ! Það ætti að varða við lög að dreifa svona rangfærslum og bulli. Þá er ekki verið að tala um ritskoðun heldur það að verja hlustendur, almenning fyrir háskalegu bulli og ósannindum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar