Nú er mælirinn fullur, – og skekinn?
Frá því að Ólafur Ragnar Grímsson hóf kosningabaráttu sína svona rétt um messutíma á sunnudagsmorgni hafa dæmalausar yfirlýsingar gengið frá honum í allar áttir.
Hann hefur storkað formönnum stjórnmálaflokka, ríkisstjórn landsins og þingmönnum á þann hátt að algjörlega fordæmalaust er. Treystið þið þinginu betur? Þannig spurði hann á fundi í Grindavík. Af fréttinni á Stöð tvö varð ekki annnað skilið en hann væri að spyrja hvort fundarmenn treystu honum ekki betur en þjóðþinginu? Hvort hlutverk forseta ætti ekki að vera að verja þjóðina gegn þjóðþinginu? Enginn annar þjóðhöfðingi hefur látið sér slíkt og þvílíkt til hugar koma frá því einveldi lagðist af í Evrópu og einveldiskonungar hættu að trúa því að vald þeirra væri frá Guði komið. Heldur forseti Íslands kannski að svo sé um sig?
Eru foringjar íslenskra stjórnmálaflokka svo lítilla sanda og sæva að þeir láti allar þessar makalausu yfirlýsingar Ólafs Ragnars yfir sig ganga án þess að segja orð? Ætla ráðherrar og þingmenn að láta vaða svona yfir sig á skítugum skóm? Án þess að segja eitt einasta orð?
Ólafur Ragnar Grímsson hefur sagt það gott og gilt að forsetinn hafi eina stefnu í utanríkismálum og ríkisstjórnin aðra. Forsetinn er EKKI kosinn til að marka stefnu íslensku þjóðarinnar í utanríkismálum. Ríkisstjórnin mótar stefnu þjóðarinnar í utanríkismálum. Utanríkisráðherra túlkar og skýrir þá stefnu. Af hverju lætur þú Ólaf Ragnar misbjóða þér og okkur öllum með þessum hætti, ágæti vinur ,Össur Skarphéðinsson – athugasemdalaust? Hvor túlkar utanríkisstefnu íslensku þjóðarinnar á erlendum vettvangi – þú eða hann? Hvor ykkar á að gera þjóðum heims það ljóst – þú, að það sé ekki hans hlutverk, eða hann að það sé ekki þitt hlutverk. Dettur þér í hug, að nokkur þjóð geti haft tvær stefnur í utanríkismálum – annars vegar stefnu ríkisstjórnar og hins vegar stefnu forseta sem samkvæmt stjórnarskrá landsins hefur vægast sagt mjög takmarkað pólitískt hlutverk og nákvæmlega ekkert hlutverk í mótun utanríkisstefnu ? Hví sýnir þú og aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni – já allir aðrir stjórnmálamenn – engin viðbrögð? Viljið þið hafa þetta svona – eða vogið þið ykkur ekki að segja það sem ykkur finnst?
Ólafur Ragnar Grímsson hefur líka sagt að það sé einboðið að setja lög um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta segir hann ÁÐUR EN Alþíngi hefur lokið umfjöllun slíkra lagafrumvarpa og gert þau að lögum. Þetta er auðvitað fáheyrt og ekki í neinu samræmi við stjórnarskrá landsins. Á Alþingi Íslendinga að þurfa að semja við forseta Íslands um afgreiðslu mála? Það er auðvitað fordæmalaust og fáránlegt að þingmenn þurfi að starfa undir svona hótun frá forseta lýðveldisins. Ætlið þið að halda áfram að róa að því öllum árum að reyna að finna lausn á sjávarútvegsmálunum á Alþingi þegar þið nú vitið að forsetinn ætlar ekkert með þá niðurstöðu að gera? Þetta er nokkuð sem ég trúi ekki að nokkur maður hafi ímyndað sér að gæti gerst. Og þjóðkjörnir þingmenn bara þegja. Er pólitískt hugrekki hvergi að finna ?
Þessi forseti sem sitja vill nú að völdum í tuttugu ár, tólf árum lengur forseta Bandaríkjanna leyfist, hefur sagt að hann hafi áformað að skipa utanþingsstjórn þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst – hafi haft nöfnin tilbúin. Ætlaði hann að reka löglega kjörna ríkisstjórnina frá völdum og skipa aðra sjálfur – af því að fólk var að lemja tunnur á Austurvelli? Hvernig ætlaði hann að gera þetta? Ætlaði hann að vísa í 15. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir: ,,Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim”. Telur hann að þessi grein stjórnarskrárinnar veiti honum heimild til þess að skipa ríkisstjórn þegar honum hentar og tilnefna þá ráðherra, sem honum þóknast – þegar honum dettur það í hug? Það væri vissulega í samræmi við aðrar svokallaðar ,,lögskýringar” hans. Eigum við ekki þrjár lagadeildir við jafnmarga háskóla? Hafa þær enga skoðun á þessari „lögskýringu” forsetans? Hví þegja þar allir?
Það er skylda stjórnmálaforingja hvar í flokki sem þeir standa að spyrna fótum gegn ofríkinu sem nú er boðað frá Bessastöðum. Ég skora á formenn stjórnmálaflokkanna að láta þessum einstæða yfirgangi Ólafs Ragnars Grímssonar ekki ósvarað.
Formenn flokkanna á Alþingi eiga að taka höndum saman og ná samstöðu um breytingar á stjórnarskránni sem skýra valdsvið forsetans og afmarka þannig að þjóðin þurfi ekki að þola fleiri svona uppákomur. Og koma þannig í veg fyrir að einn maður geti tekið sér vald sem hann hefur ekki á ekki að hafa og má ekki hafa.
Viðbrögð og yfirlýsingar Ólafs Ragnars Grímssonar koma mér svo sem ekkert á óvart. Við þessu máttu menn búast. En að stofnanir samfélagsins svo sem þjóðþing og ríkisstjórn svo og fólkið, sem þar situr – ráðherrar og þingmenn – skuli láta manninn komast upp með að vaða elginn með þeim hætti sem hann nú gerir og draga þessar stofnanir og alla þá, sem þar starfa, niður í svaðið er meira en umhugsunarvert – það er hneykslunarefni. Þessa hættulegu þróun verður að stöðva. Það verður að gera með því að breyta stjórnarskránni.
Eiður Svanberg Guðnason.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
20 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
16/05/2012 at 22:56 (UTC 0)
Rétt ,Vigfús. Ekki landsins, heldur heimsins. Alla helstu ráðamenn segir hann sérstaka vini sína. Ráðherra í Kína sem hann hefur hitt nokkrum sínnum kallar hann sérstaka vini sína. Ekki er ósennilegt að þeim finnist þetta fyndið!
Vigfús Magnússon skrifar:
16/05/2012 at 22:28 (UTC 0)
Orð í tíma töluð.
ÓRG segir iðulega „við valdamenn“, þegar hann gumar af sér og athöfnum sínum um víða veröld.
Ég hef alltaf skilið það svo, að „vald“ forseta væri aðeins í orði en ekki á borði og allar hans athafnir skuli framkvæmdar með fulltingi og að frumkvæði ráðherra.
Því hefur mér alltaf þótt furðu sæta, að ríkisstjórn DO skyldi ekki leita eftir úrskurði Hæstaréttar um túlkun 13. greinar Stjórnarskrárinnar á sínum tíma, þegar ÓRG synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar um árið í stað þeirrar vendingar, sem hún greip til. Ef það er ekki að beita valdi að fara gegn meirihlutasamþykkt Alþingis þá sýnist mér vandséð, hvað orðið vald þýðir.
Þegar hann komst upp með það fékk hann blóðbragðið í munninn og nú virðist hann líta á sig sem helsta valdamann landsins, ef ekki heimsins.
Hörður Halldórss.... skrifar:
16/05/2012 at 19:45 (UTC 0)
Þurfum nýjan forseta.þessi sitjandi forseti er kominn langt út fyrir efnið. T
Eiður skrifar:
16/05/2012 at 14:52 (UTC 0)
Þetta er allt rétt, Guðmundur. Gott að heyra frá Stekkum. Hugsa ævinlega til baka þegar ég ek fram hjá Stekkunm.
Guðmundur Lárusson skrifar:
16/05/2012 at 14:49 (UTC 0)
Það er eitt sem mér finnst umhugsunarvert, sjálfstæðismenn virðast styðja ORG sennilega vegna þess að hann hefur gengið gegn vilja ríkisstjórnarinna og gert henni erfitt fyrir í nokkrum málum. Nú bendir flest til þess að þessi ríkistjórn sitji ekki lengur en til næsta vors og þá eru talsverðar líkur á að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda, halda sjálfstæðismenn að ORG muni þá vera á þeirra línu. Nei auðvitað mun hann eins og oftast áður hugsa málin útfrá sínum skoðunum og ekki hika við að ganga gegn þeirri stjórn og skemmta sér við að berja á andstæðingum sínum, fátt virðist gleðja hann meira.
Eiður skrifar:
16/05/2012 at 10:51 (UTC 0)
Já, fyrir löngu og meira en nóg.
Sveinn Elías Hansson skrifar:
16/05/2012 at 10:50 (UTC 0)
Algerlega sammála. Nú er komið nóg Herra Ólafur Ragnar Grímsson.
Gísli Baldvinsson skrifar:
16/05/2012 at 10:22 (UTC 0)
Takk minn ágæti. Innlegg Bjarna V. hér að ofan er mjög gott dæmi um íslenska umræðuhefð. Má vera að þetta svar hans hefði passað við aðra umræðu.
Eiður skrifar:
16/05/2012 at 09:23 (UTC 0)
Kærar þakkir, góða vinkona.
Harpa Björnsdóttir skrifar:
16/05/2012 at 01:36 (UTC 0)
Þingið getur lagt fram vantrausttillögu á forsetann, sem færi svo í þjóðaratkvæðagreiðslu, en til þess að hún sé samþykkt þarf 3/4 hluti þingmanna að samþykkja hana…….ætli það sé ekki ástæðan fyrir því að ekki er lagt í þessa aðgerð, það er ekki tryggt að 3/4 hluti þingmanna muni samþykkja. Sjálfstæðisflokkurinn er t.d. hæstánægður með að hafa forsetann í virkri stjórnarandstöðu. En að forsetaembættið sé farið að snúast um stjórnarandstöðu við þingið er fordæmalaust og eiginlega alveg glórulaust……..
Þessi svokallaði „öryggisventill“ er farinn að minna meira á kveikjuþráð…..
Sveinbjörn Sveinsson skrifar:
16/05/2012 at 01:16 (UTC 0)
Gamli er sjálfum sér verstur í þessum ham.
Sveinn Ingi Þórarinsson skrifar:
16/05/2012 at 00:50 (UTC 0)
Sjálfur er ég í meistaranámi í lögfræði hér á Bifröst og gæti tekið langa umræðu við þig um stjórnarskrá Íslands og hlutverk forseta skv. henni. En ég held að þú svarir þessu bara ansi vel hér að ofan með orðunum „……Ólafur Ragnar bara veður áfram og bullar.“.
Guðrún Konný Pálmadóttir skrifar:
16/05/2012 at 00:43 (UTC 0)
Nákvæmlega eins og talað úr mínu hjarta – mælirinn ER fullur og rúmlega það!
Bjarni V Bergmann skrifar:
16/05/2012 at 00:36 (UTC 0)
Eiður mér finnst þú tala digurbarkalega og kannast kannski manna best við Svafarssamninginn???læt fylgja smá grein sem gott væri að þú kannaðir ofan í kjölin.Árið 2009 eru Stofnuð nokkur hlutafélög og einkahlutafélög um gjaldþrota fjármálafyrirtæki Íbúðarlána samninga bíla lán og fleiri lán, innlend og erlend gjaldeyrislán sem voru inn í fjármálafyrirtækjunum og hjá Seðlabanka Íslands og í ríkissjóði við hrun, þá voru neyðarlög í landinu. Ef farið hefði verið að lögum átti að bjóða greiðendum lánanna sem t.d voru í seðlabanka lánin á sömu kjörum eða sama verði, og seðlabanki tók þau á .Eða að fara þá leið að senda þau til Íbúðarlánasjóðs. Hvorugt var gert,heldur búnar til ólöglegar fléttur þar sem Fjármálaeftirlit og Bankasýsla ríkisins eru gerð að þáttakendum í glæpum gegn þjóðinni. Eftir fyrri dóm Hæstaréttar vegna erlendra lána þar sem þau voru dæmd ólögleg. Á þessum tímapunkti braut ríkisstjórn á landsmönnum og gegn stjórnarskrá með því setja lög gegn dómi Hæstaréttar og settu Seðlabankavexti á lánin, þessi gerningur stenst enga skoðun . Var Ríkisstjórnin undir pressu frá eigendum Jöklabréfa, aflandskróna sem hótuðu lögsókn eftir dóm Hæstaréttar? Líklega vegna þess að gerðir Ríkisstjórnar stóðust ekki skoðun og fengju Landsmenn að vita allan sannleikann um málavexti yrði mikil reiði í samfélaginu út af spillingu .sem er vegna hagsmunatengsla stjórnmálaflokkana er endurspeglast á Alþingi. Þessi Félög sem um ræðir eru ESÍ =Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf,sem sat með samningana sem innihéldu m.a . Erlend lán,fyrir neðan koma Sölvhóll ehf, og Hilda hf,og þar fyrir neðan Drómi hf. Sem m.a.rukkar í nafni og á kennitölu Frjálsa Fjárfestingarbankans.Er þetta í lagi ? Vinnuveitandi eða rekstraraðili borgar laun og starfsmaður gætir hagsmuna vinnuveitenda síns,þetta er almennur skilningur,Fjármálaeftirlit og umboðsmaður skuldara eiga að vinna fyrir almenning , gæta okkar hagsmuna og allur rekstur og laun eiga að koma úr ríkissjóði gegnum fjárlög en svo er ekki . Bankar og fjármálafyrirtæki standa straum af rekstri og launum þessara stofnana,er það réttlætanlegt? Fá landsmenn sem eru hjá umboðsmanni skuldara réttláta málsmeðferð? Hér á okkar góða landi þarf að verða lögrétta ,leiðrétta þarf ólög sem sett hafa verið til að réttlæta ólögmæta gerninga hagsmuna aðila gegn þjóðinni ,þessi ólög brjóta gegn ákvæðum Stjórnarskrár og þurfa því að fara, hlaðast því þessi ólög upp þar sem fólk sem á þingi situr virðir ekki Stjórnarskrá og það þarf því að fara.
Ragnar Thorisson skrifar:
16/05/2012 at 00:35 (UTC 0)
Ég velti fyrir mér hvort ástæða afskiptaleysis stjórnsýslunar sé sú staðreynd að Ólafur virðist þrátt fyrir allt hafa 40% þjóðarinnar á sínu bandi.
Helgi Jóhann Hauksson skrifar:
16/05/2012 at 00:09 (UTC 0)
Því miður er þetta algerlega rétt hjá Eiði — og er stór hættuleg þróun. Að forsetinn sem fræðilega getur þróað túlkun sem réttlætir að hann taki sér einræðisvald — í ljósi skilnings hans á hlutverki sínu á tíma búsáhaldabyltingarinnar — og að hann skuli grafa undan Alþingi og spyrja hvort fólk treysti sér ekki betur en þinginu — geri það raunverulega umhgusunarvert hvort núverandi forseti (eða annar) gæti raunverulega reynt að afnema þingræðið og jafnvel fulltrúalýðræðið líka og tekið sér valdið allt.
Eiður skrifar:
15/05/2012 at 23:54 (UTC 0)
Takk fyrir,leiðréttinguna,Sveinn Ingi. Það gerir málið bara verra. Allir ríghalda kjafti og Ólafur Ragnar bara veður áfram og bullar.
Haukur Kristinsson skrifar:
15/05/2012 at 23:33 (UTC 0)
Góður pistill og tímabær. Loksins þorir fyrrverandi háttsettur embættismaður að tjá sig um forsetann, sem að mínu mati er psychopath. Það er eins og að menn séu hræddir við Óla, fótfúið gamalmenni. Einnig fjölmiðlamenn, t.d. Egill Helga virðist vera skíthræddur, lúffar fyrir honum. Það virðist vera svo að ef menn eru nógu frekir hér á skerinu, uppskeri þeir respekt. Mér verður hugsað til Davíðs Oddssonar, sem stendur ekki út úr hnefa, en menn skulfu í nærveru hans. Hvað er að víkingaþjóðinni?
Þorvaldur S skrifar:
15/05/2012 at 23:14 (UTC 0)
Hafðu heill mælt! Og í tíma talað!
Sveinn Ingi Þórarinsson skrifar:
15/05/2012 at 23:14 (UTC 0)
Sæll Eiður,
Það eru fjórir háskólar á Íslandi sem eru með lagadeild.
Kveðja
Sveinn