Molavin sendi Molum þessa ágætu hugleiðingu og ábendingu (12.05.2012):
,,Málfræðikennsla hefur ekki verið fyrirferðarmikil í grunnskólum síðustu áratugi. Eitt af einkennum þess að börn, sem ekki hafa fengið viðhlítandi móðurmálskennslu í skólum, en er samt treyst fyrir því að vera fyrirmynd annarra, er hve mörgum hinna yngri í stétt fjölmiðlafólks lætur illa að skrifa boðlegan fréttatexta. Hér er dæmi úr fyrirsögn á frétt mbl.is laugardagsins: Eitt af hverjum tíu börnum fæðast fyrir tímann Hér er einfaldlega átt við að eitt barn fæðist fyrir tímann af hverjum tíu fæddum börnum, og hefði því átt að standa: ,,Eitt af hverjum tíu börnum fæðist fyrir tímann.“ Sleifarlag í skrifum af þessu tagi í fjölmiðli, sem hefur í næstum heila öld verið til fyrirmyndar um málfar og málnotkun, endurspeglar ekki aðeins slælega þekkingu á móðurmálinu, heldur líka óverðskuldað sjálfstraust, sem lýsir sér í því að ekki er leitað ráða né textinn lesinn yfir með gagnrýnum huga áður en hann er sendur úr tölvu blaðamanns inn í umbrotsforritið eða út á heimasíðuna”. Molaskrifari þakkar sendinguna. Þetta eru orð að sönnu.
Úr mbl.is (12.05.2012), fréttin er um mokafla Steinunnar SH: Fram kemur að báturinn hafi farið í fimm ferðir. Hér hefði farið betur á því að segja að báturinn hafi farið í fimm róðra.
Í vinsælum þætti um útivist og ferðalög í Ríkisútvarpinu (12.05.2012) var talað um stað í Reykjadal , ekki langt frá Hveragerði þar sem vinsælt væri að baða. Molaskrifari hallast að því að hér hefði frekar átt að segja: … þar sem vinsælt væri að baða sig. Fólk baðar sig en bændur baða sauðfé.
Á fréttavefnum visir.is birtir (1222.05.2012) verkefnisstjóri losunar gjaldeyrishafta Seðlabanka Íslands ábendingar vegna leiðara skrifara Fréttablaðsins. Þar segir meðal annars: ,,Rétt er að undirstrika að samkvæmt skilmálum fjárfestingarleiðarinnar er skýrt kveðið á um að til þess að geta tekið þátt í útboðum megi fjárfestir eða lögaðili þar sem hann á eða átti sæti í stjórn eða er eða var í forsvari fyrir, ekki hafa verið ákærður af handhafa ákæruvalds eða kærður til lögreglu af Seðlabankanum, og máli vegna þess sé enn ólokið hjá ákæruvaldi eða lögreglu, eða hafa vanefnt verulega óuppgerða stjórnvaldssekt eða sátt; allt vegna brota á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, og reglum settum á grundvelli þeirra.” Þetta er bæði skýrt og ljóst, ekki satt. Greinin hefði haft gott af prófarkalestri fyrir birtingu.
http://www.visir.is/abendingar-vegna-leidara/article/2012705129951
Ágætum fréttamanni Ríkisútvarps varð það á (12.05.2012) að segja að maður hefði verið settur út úr sakramentinu. Líklega hefur þetta verið mismæli, en talað er um að setja einhvern út af sakramentinu , þegar einhverjum er skákað til hliðar eða hann sniðgenginn með mjög áberandi hætti, einhverjum er útskúfað.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar