Víða um heim fjalla fjölmiðlar um það hve Íslendingar hafi verið fljótir að rétta úr kútnum og komast á skrið að nýju eftir hrun. Þetta vekur víða aðdáun. Fréttir af efnahagsbatanum hafa borist til margra landa í öllum álfum. Samt hafa þær enn ekki náð upp í Hádegismóa við Rauðavatn austast í Reykjavík þar sem Morgunblaðið er soðið saman. Þar sér ekki enn til sólar þótt sólargangur sé senn hvað lengstur á landi hér. Í móunum við Rauðavatn ríkir kreppan ein.
Molaskrifari horfði á auglýsingu í breska ITV sjónvarpinu. Þar var verið að auglýsa betri baðherbergi. Þannig baðherbergi voru í tísku á Íslandi fyrir meira en aldarfjórðungi, (sjá betterbathrooms.com.) En þetta varð hinsvegar til þess að Molaskrifari festist við að horfa á góðan krimma um rannsóknarlögreglumanninn Lewis, sem aldrei bregst. Lewis þættirnir eru með bitastæðasta erlenda efni sem kemur á skjáinn úr Efstaleiti.
Um mótmælafundinn á Austurvelli (07.06.2012) sagði Stöð tvö að þar hefðu verið mörg þúsund manns. Aðrir fjölmiðlar töluðu um tvö þúsund manns.
Á vef Ríkisútvarpsins er ekki talað um sjónvarp. Þar er kynning á dagskrá Rásar 1 , Rásar 2 og RÚV. Dæmalaust rugl!
Í tíufréttum Ríkissjónvarps (06.06.2012) var sagt: Farið var í gegnum Möðrudal og inn á veg … Hvernig er farið í gegnum Möðrudal? Fróðlegt væri að fá skýringar á því.
Eiríkur vitnar í Morgunblaðið (07.06.2012), en þar segir í viðtali: „Margir eru með mikla menntun á bakinu en aðrir eru kannski með 30 ára starfsreynslu á bakinu. Það er til dæmis ekki hægt að lýsa slíkri reynslu í einni línu í ferilskránni heldur er mikilvægt að viðkomandi lýsi því hvað gerðist á þessum 30 árum,“ útskýrir María. Eiríkur skrifar: „Mér finnst þetta ,,á bakinu“ vera óþarfa viðbót og heldur leiðinlega að orði komist. Eða safnast menntun og starfsreynsla í einhvern kút á baki fólks?” Réttmæt ábending. ´
Kristján skrifaði þessa athugasemd við Mola: „Næstu vikur hér á RÚV, verða svona: Fótbolti – auglýsingar (aðallega bjór og bílar) – kynningarstef EM mótsins sýnt aftur og aftur og aftur – strákar að blaðra í myndveri – kynning á blaðri stráka í myndveri – fleiri auglýsingar – dagskrárkynningar hér á RÚV konunnar osfrv.” . Þetta er því miður rétt hjá Kristjáni. Illa er nú komið fyrir hinni ágætu stofnun, Ríkisútvarpinu, sem einu sinni var. Meira að segja hefur stjórnendum tekist að bannfæra hið lögbundna og ágæta nafn Ríkisútvarp. Ekkert þar á bæ má tengjast neinu sem heitir ríki, – engu líka en stjórnendur líti á stofnunina sem einkafyrirtæki sem þeim sé frjálst að ráðskast með að vild. Svo er reyndar ekki.
Eina norræna stöðin af þeim sjö sem aðgengilegar eru hjá sjónvarpi Símans sýndi leik Pólverja og Grikklands í beinni útsendingu var SVT 2 (08.09.2012), – fyrir utan Ríkissjónvarpið okkar sem ryður öllu út fyrir fótboltann eins og ævinlega.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
14 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
12/06/2012 at 18:26 (UTC 0)
Það er nú reyndar svo sjálfsagt að ekki ætti að þurfa að nefna það. Undantekningin væri ef íslenskt lið væri að keppa.
Axel skrifar:
12/06/2012 at 17:28 (UTC 0)
Þess vegna á að nota hliðarstöð fyrir kvöldleiki í riðlum og umræður.
Eiður skrifar:
11/06/2012 at 22:49 (UTC 0)
Engin norræn ríkisstöð umsnýr dagskránni eins og Efstaleitisstjórarnir leyfa sér að gera.
Axel skrifar:
11/06/2012 at 19:39 (UTC 0)
SVT 2 sýndi leik Ítalíu og Spánar í gær. Ekki Tékkland – Írland. Svíarnir eru yfirleitt að sýna einn leik úr hverjum riðli í hverri umferð.
Eiður skrifar:
11/06/2012 at 14:38 (UTC 0)
Jón – sjá svar við athugasemd Axels.
Eiður skrifar:
11/06/2012 at 14:37 (UTC 0)
Leikirnir í gærkveldi , á sunnudagskvöld, voru ekki í beinni útsendingu á DR1 DR2 SVT1 SVT2 né NRK 1 NRK 2 NRK3
Eiður skrifar:
11/06/2012 at 14:36 (UTC 0)
Mér finnst ekki ásættanlegt orðalag að tala um að fara í gegnum Möðrudal.
Þorvaldur S skrifar:
11/06/2012 at 13:05 (UTC 0)
Nú liggur þjóðvegurinn gegnum Blönduós og Sauðárkrók. Og Varmahlíð. Komast menn þá hjá því að aka gegnum þessa staði?
Axel skrifar:
11/06/2012 at 12:43 (UTC 0)
Svíarnir sýna leiki frá mótinu. En ekki eins marga og Rúv. Það hefði verið sniðugt hjá Rúv að nýta hliðarrásirnar fyrir kvöldleikina í riðlakepnninni og umræðurnar á eftir leikjum.
Jón skrifar:
11/06/2012 at 11:50 (UTC 0)
Í Danmörku senda DR og TV2 leikina, í Svíþjóð SVT eða TV4 og í Noregi NRK eða TV2 (þó ekki alla að því er virðist).
Eiður skrifar:
10/06/2012 at 18:37 (UTC 0)
Mér finnst þetta jafnmvitlaust eins og þegar sagt er um ferðafólk sem fer um Kastrup flugvöll á leið eitthvað annað að það hafi varið í gegnum Kastrup eða í gegnmum Kaupmannahöfn.
Eiður skrifar:
10/06/2012 at 18:36 (UTC 0)
Þegar ég athugaði þetta þá var ekki verið að senda EM-leik í sænska sjónvarpinu.
Þorvaldur S skrifar:
09/06/2012 at 22:42 (UTC 0)
„Hvernig er farið í gegnum Möðrudal?“
Ætli það væri ekki gert á svipaðan hátt og ef farið væri gegnum Hofsós? Eða Haganesvík.
ólafur sveinsson skrifar:
09/06/2012 at 21:12 (UTC 0)
Sæll Eiður, Þakka þér fyrir molana.Em í knattspyrnu er í Sænska og danska sjónvarpinu, norðmenn virðast ekki senda leikina beint!