«

»

Molar um málfar og miðla 926

Ekki er vitað til þess að nokkur sjónvarpsstöð sé jafn fótboltafíkin og Ríkissjónvarpið okkar. Þar ræður íþróttadeildin öllu. Fimm og hálfa klukkustund af fótaboltaefna fá nefskattsgreiðendur nauðungarstöðvarinnar framan í sig í dag, – kjósi þeir að horfa á sjónvarp. Hér hefur áður verið sagt að sjálfsagt er að sýna leiki frá EM. En hið sjálfumglaða endalausa og innihaldslausa kjaftæði sjálfskipaðra sérfræðinga sem Ríkissjónvarpið telur sér skylt að halda að okkur á ekkert erindi á skjáinn. Og ekki bæta heldur hallærislegar montkynningar á þessum kjaftaþáttum úr skák.

Stöð tvö var með frétt um vildarpunkta og opinbera starfsmenn (06.06.2012). Þar talaði fréttamaður um economy class, – það er venjulega kallað almennt farrými á íslensku.

Það var dómgreindarbrestur fréttastofu Ríkisútvarpsins að hafa sem fyrstu frétt (06.06.2012) grátandi móður mikið veikrar ungrar stúlku sem oft hefur reynt að svipta sig lífi. Þessi frétt var ekki vel unnin og átti ekki að vera burðarfrétt fréttatímans í þeirri mynd sem hún var flutt.

Það er fengur að norsku heimildaþáttaröðinni, sem kölluð er Kalt kapphlaup sem Ríkissjónvarpið er að sýna. Þar er fjallað um nýja stöðu á norðurslóðum bráðnun íss og nýtt aðgengi að miklum auðlindum. Þetta eru vandaðir þættir.
Molaskrifari heyrði ekki betur en þátturinn sem sýndar var sl. þriðjudag (05.06.2012) væri kynntur sem lokaþáttur. Í lok þáttarins var hinsvegar boðaðir nýr þáttur, sá fjórði, sem líklega er lokaþátturinn.

Lesandi Mola sendir tilvitnun í frétt í Morgunblaðinu (06.06.2012) og segir: „Skrýtnir eru Breiðhyltingar. Aðrir eru með skolplagnir frá húsum sínum, en heimæðar fyrir heitt og kalt vatn.“ Frétt Morgunblaðsins byrjar svona: Rætur aspartrjáa hafa valdið miklum usla í Breiðholti síðustu misseri. Asparræturnar hafa stíflað heimæðar skólps og dæmi eru um að skólp komi upp um klósett í nágrenni skemmdra lagna. Reyndar virðast skolplagnirnar hafa verið einskonar heimæðar í þessum tilvikum!

Sagt var frá sýningu í sexfréttum Ríkisútvarps (06.06.2012): Sýningin verður í … Hún opnar .. Þetta er erfitt!

Molaskrifari er svolítið hugsi yfir botnlausri hneykslun fréttamanna sjónvarpsstöðvanna á því að borgarfulltrúi skuli hafa þegið boð æskuvinar um að fara með í fyrstu flugferð nýs flugfélags. Mjög hefur verið vitnað í siðareglur. Molaskrifara finnst svolítil tvískinnungskeimur af þessu. Hvaða siðareglur gilda um fréttamenn í þessu tilliti? Hvað segja þeirra siðareglur um að þiggja gjafir af þeim sem um er fjallað? Oft sjáum við og heyrum fréttamenn þakka fyrir sig með fréttum og greinaskrifum, t.d. þegar flug hefst á nýjum leiðum. Það er ekki ný bóla. Sá grunur læðist líka að manni að fréttamönnum og dagskrárgerðarmönnum séu færðar að gjöf bækur og hljómplötur til að fjalla um í dagskrá. Hvaða reglur gilda um þetta? Fróðlegt væri að fræðast svolítið um það. Hinsvegar er það auðvitað arfavitlaust að halda því fram að siðareglur gildi bara frá 9 til 5. Lítið betra er að segja að réttlæting ferðar sé sú að rætt hafi verið um ferðamál yfir glasi í hálftíma eða klukkutíma í íslenska sendiráðinu í París!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Björn Gunnlaugsson skrifar:

    Byrja nú rangfærslurnar. Allir leikir á EM eru sýndir í beinni útsendingu í 49 Evrópulöndum og um allan heim. Í flestum Evrópulandanna hefur ein sjónvarpsstöð allar útsendingar á sinni hendi, en á hinum Norðurlöndunum er því öðruvísi farið. Til dæmis eru sumir leikir sýndir á DR1 en aðrir á TV2 í Danmörku. Það er allt og sumt og sú skipan mála hefur ekkert með „fíkn“ sjónvarpsmanna að gera. Staðreyndin er sú að hér er um að ræða eitthvert vinsælasta sjónvarpsefni sem um getur og þær milljónir manna sem hafa gaman af því að horfa á fótbolta hafa í mörgum tilfellum einnig gaman af því að horfa á menn sem eru fróðir um knattspyrnu (en kannski ekki um blæbrigðamun í notkun forsetninga) greina leikina og spá í spilin.

    Hættu nú þessu fjasi í eitt skipti fyrir öll, eða gerðu sjálfum þér að minnsta kosti þann greiða að fara rétt með staðreyndir.

  2. Kristján skrifar:

    Næstu vikur hér á RÚV, verða svona: Fótbolti – auglýsingar (aðallega bjór og bílar) – kynningarstef EM mótsins sýnt aftur og aftur og aftur – strákar að blaðra í myndveri – kynning á blaðri stráka í myndveri – fleiri auglýsingar – dagskrárkynningar hér á RÚV konunnar osfrv.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>