Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (05.06.2012) var sagt: Slökkviliðið fékk tilkynningu um eldinn þegar klukkan var tuttugu og fimm mínútur í sex. Molaskrifari áttar sig ekki á því hvort klukkan var tuttugu og fimm mínútur gengin í sex eða hvort klukkuna vantaði tuttugu og fimm mínútur í sex. Óskýrt.
Eiríkur sendi eftirfarandi (06.06.2012): „Hér að neðan er skelfileg fyrirsögn á viðtali í Morgunblaðinu, við landsliðskonu í knattspyrnu sem var að skipta um félag. Hólmfríður seldi mér liðið
Þar sem mikill fjöldi barna og unglinga stundar íþróttir og les þar af leiðandi umfjöllun um þær er sérstaklega mikilvægt að vanda orðfar sitt í íþróttafréttum. Þar er hins vegar pottur brotinn og eru vefmiðlarnir verstir. Fotbolti.net slær þar flestum öðrum við í sóðaskap, slæmu málfari og enskuslettum. Því miður er það mjög vinsæll vefur.” – Molaskrifari þakkar Eiríki sendinguna.
Molalesandi sendi eftirfarandi réttmæta ábendingu (visir.is 05. 06. 2012):
,,Guðmundur Kristjánsson, eigandi útgerðarfyrirtækisins Brims, þaggaði niður í Jóni Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, á fundi Brims með sjómönnum og fiskverkafólki á Miðbakkanum í dag. Þótt Steingrími J. Sigfússyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi verið boðið auk þingmanna var fundurinn aðallega til upplýsinga fyrir starfsfólk Brims.
„Nei, við töluðum um þetta í símann og þetta er bara ekki í boði,“ sagði Guðmundur þegar Jón Gunnarsson hugðist bera upp spurningu. Fundurinn var annars fjölsóttur en þar fór Guðmundur yfir mat stjórnenda fyrirtækisins á áhrifum frumvarpa um fiskveiðistjórnunarkerfið og auðlindagjald á rekstur fyrirtækisins. – Þú þaggar ekki niður í einhverjum sem ekki hefur tekið til máls. Því síður ef fundarstjóri hefur ekki gefið viðkomandi orðið.”
… að fjöldi erlendra stjórnarerindreka verði visað úr landi var sagt bæði í útvarps- og sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins (05.06.2012). Hér hefði auðvitað átt að tala um að fjölda erlendra stjórnarerindreka yrði vísað úr landi.
Ómerkilegur kjaftaþáttur um knattspyrnu í Ríkissjónvarpinu á besta tíma á þriðjudagskvöldi (05.06.2012). Það segir sitt um hvernig komið er fyrir stjórendum þessa mikilvæga almannafyrirtæki að þeir telja sig þurfa að gera meira fyrir áhugamenn um knattsyrnu en alla aðra viðskiptavini sína. Ekkert er að því að sýna helstu leikina úr EM. Það þarf ekki að ræða. En það á ekki að snúa allri dagskránni á haus vegna knattspyrnumóts og sýna endalausa froðusnakksþætti um fótbolta auk sjálfra leikjanna.
Bíð eftir því að Ríkissjónvarpið endursýni sjónvarpsviðtalið frá þingsetningunni í fyrra, þegar Andrea J. Ólafsdóttir, nú forsetaframbjóðandi lýsti mikilli ánægju sinni með að ýmsu lauslegu var kastað í þingmenn á leið milli þinghúss og dómkirkju. Viðtalið sem sýnt var í beinni útsendingu virðist hafa verið fjarlægt af vef Ríkisútvarpsins. Hvað veldur?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
07/06/2012 at 09:45 (UTC 0)
Ég hef ekki á mótum góðum leik öðru hverju, – en þetta endalausa innihaldslausa kjaftæði er eiginlega móðgun við heilbrigða skynsemi. ,,An insult to intelligence“ mundi vera sagt í Bretlandi.
Kristján skrifar:
07/06/2012 at 09:24 (UTC 0)
Ég er knattspyrnuáhugamaður en hef engan áhuga á að hlusta á blaðrið í þessum guttum. Mættu gjarnan sýna meira frá leikjunum sjálfum en draga úr þessu endalausa froðusnakki í myndveri.
Eiður skrifar:
07/06/2012 at 08:58 (UTC 0)
Já, Sæmundur, er það ekki þannig að manni ber að sætta sig við það sem m aður ekki fær breytt? Þakka þér línurnar.
Sæmundur Bjarnason skrifar:
07/06/2012 at 00:03 (UTC 0)
Klukkuna hefur sennilega vantað tuttugu og fimm mínútur í sex. Ég lærði á klukku á sama hátt og þú Eiður, en segja má að þetta sé orðin málvenja að taka svona til orða. Að mestu er hætt að segja að klukkan sé svo og svo mikið gengin í eitthvað. Er ekki einu sinni viss um að allir skilji slíkt orðalag. Ef klukkan hefði verið tuttugu og fimm mínútur gengin í sex hefði líklega verið sagt að hún væri tuttugu og fimm mínútur yfir fimm.
Annars er ég sammála þér um að þessi breyting er ekki til bóta. Við sumar breytingar verður þó að sætta sig.