Fótbolti, fótbolti alla helgina í íslenska Ríkissjónvarpinu. Stórlega skert frétta- og veðurfréttaþjónusta. Íþróttir samtímis á tveimur rásum í sjónvarpinu. Þetta ætti að varða við lög. Ekki varð séð að nein af þeim norrænu stöðvum sem hér eru aðgengilegar sýndi leik Írlands og Króatíu í beinni útsendingu. BBC sýndi hann ekki ,en hann var hinsvegar sýndur beint á ITV Sport. Ríkissjónvarpið okkar lagði sunnudagskvöldið undir leikinn og bull um leikinn. Norrænu stöðvarnar voga sér ekki að bjóða sínu fólki upp á svona dagskrá. Enda kæmust þær aldrei upp með það. Svo hafa stjórnendur þar líklega dálitla sómatilfinningu til að bera gagnvart viðskiptavinum stöðvanna, – vinnuveitendum sínum.
Landinn brást ekki. loksins þegar hann komast í dagskránni fyrir fótboltanum á sunnudagskvöld (10.06.2012). Gísli og aðrir umsjónarmenn eru afar naskir og fundvísir á áhugavert efni víðsvegar um landið og miðin. Svo er líka hægt að hafa gaman af Borgen (ekki Bóen eins og dagskrárkynnir ævinlega segir) jafnvel þótt maður hafi alls ekki horft á alla þættina.
Það var dálítið undarlegt fréttamat hjá Ríkísútvarpinu að í fjögurfréttum á föstudag (08.06.2012) skyldi það vera fyrsta frétt að þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins vildi láta leggja samningaviðræður við ESB til hliðar. Það hefur verið vitað í margar vikur og var engin frétt.
Danska sjónvarpið DR1 sýndi fréttir í hálfleik, Rússland – Tékkland (08.06.2012) . Íslenska Ríkissjónvarpið var með fótboltabull og auglýsingar. Það tekur almannaþjónustuhlutverk sitt mjög alvarlega.
Úr mbl.is (08.06.2012): Stúlkunni vantaði 40 krónur til að eiga fyrir farinu, en bílstjórinn neitaði henni um far. Það var og. Henni vantaði. Mbl.is þarf að vanda sig svolítið meira. Stúlkuna vantaði 40 krónur.
Það eru mikil mistök og vond dagskrárgerð hjá Ríkissjónvarpinu að ætla að vera með forsetaframbjóðendur í einhverskonar umræðuþætti kvöldið fyrir kjördag. Slíkur þáttur ætti að vera á dagskrá tveimur dögum fyrir kjördag. Reynslan af síðasta umræðuþætti frambjóðenda í Ríkisjónvarpinu var vond. Núverandi forseta var liðið átölulaust að vaða elginn næstum endalaust og tala aðra keppendur í kaf. Það var frekja og stjórnleysi.
Skotfóturinn hefur ekki verið heitur hjá honum í dag, sagði einn af óteljandi ,,sérfræðingum” (09.06.2012) sem Ríkissjónvarpið hefur ráðið til að miðla þjóðinni fróðleik um fótbolta. Annað gullkorn úr lýsingu: Þeir verða að passa sig að fá ekki markið í bakið á sér ! Heimilisfólk Molaskrifara hallaði sér að lýsingu þulanna hjá BBC á seinni hluta leiksins. Þeir kunna sitt fag. Þeir sem annast fótboltalýsingar hjá Ríkissjónvarpinu gætu lært talsvert af Bretum í þessu efni, – reyndar Dönum líka.
Það var sitthvað skrítið við fréttatíma Ríkisútvarpsins á miðnætti á laugardag (09.06.2012). Fyrst voru fréttir kynntar. Þá kom langt hlé og ekkert gerðist. Svo kom fyrsta frétt og eftir það mörg hlé og löng áður en fréttatíminn komst á eðlilegt skrið undir lokin. Engar skýringar. Voru kannski nýliðar að æfa sig á útsendingu ? Það var engu líkara.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
14 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Björn Gunnlaugsson skrifar:
15/06/2012 at 22:53 (UTC 0)
Í fullri vinsemd finnst mér málið ekki snúast um það. En úr því þú biður svona kurteislega gerði ég stutta leit og komst að því að í Evrópu eru nokkur dæmi um lönd þar sem ríkisrekin sjónvarpsstöð, sem rekin er með nefskatti, afnotagjöldum eða öðrum skylduframlögum almennings, hefur einkasýningarrétt á leikjum Evrópumótsins. Um er að ræða:
HRT í Króatíu
CT í Tékklandi
ARD og ZDF í Þýskalandi
RTÉ á Írlandi
RAI á Ítalíu
TVP í Póllandi
RTS í Serbíu
Þetta finnst mér nokkuð á skjön við eftirfarandi orð þín sjálfs (með leyfi):
„Ekki er vitað til þess að nokkur sjónvarpsstöð sé jafn fótboltafíkin og Ríkissjónvarpið okkar. Þar ræður íþróttadeildin öllu.“
Glöggir sjá að þarna er alls ekki minnst á skylduáskriftarstöðvar, heldur gefið í skyn að jafnvel Sky Sports komist ekki með tærnar þar sem RÚV hefur hælana í „fíkn“ í þetta tiltekna sjónvarpsefni. En látum það liggja milli hluta. Jafnvel ef aðeins er miðað við þau lönd þar sem einkareknar sjónvarpsstöðvar sýna ekki leikina, er Ísland alls ekkert einsdæmi.
Nú er ég kominn í sumarfrí og það er aldrei að vita nema ég stytti mér stundir fram að leik einhvern daginn við að grandskoða dagskrár ýmissa sjónvarpsstöðva erlendis og kanna hvort þar er boðið upp á umræðuþætti fyrir og eftir leiki. Eitthvað segir mér að þar finni ég ýmislegt um (með leyfi)
„…hið sjálfumglaða endalausa og innihaldslausa kjaftæði sjálfskipaðra sérfræðinga“
sem þú nefnir svo kurteislega í fyrsta pistli þínum (í ár) um þetta þrætuefni okkar. Reyndar er ég ekki viss um hvort sanngjarnt sé að tala um „sjálfskipaða“ sérfræðinga því varla hafa þessir menn – sem allir eiga að baki áralangan feril sem atvinnumenn í knattspyrnu og mega því að mínu mati kallast sérfræðingar – sjálfir boðið sér í pontu í Efstaleitinu?
Eiður skrifar:
14/06/2012 at 08:33 (UTC 0)
Ég geri ekki ekki ráð fyrir að þú getir nefnt eina einustu einokunarstöð eins og Ríkissjónvarpið er sem býður upp á tvo leiki og samtals fimm klukkustyundir af fótabolta og fótboltafjasi dag eftir dag ´æi fremur stuttri dagskrá,- Í dag er dagskráin sýnist mér samtals 13 klst. Hvaðp önnur einokunar eða nauðungaráskriftarstöð gerir þetta ? nefndu hana , – í fullri vinsemd.
Björn Gunnlaugsson skrifar:
14/06/2012 at 02:27 (UTC 0)
Jæja Eiður minn, þá nær þetta ekki lengra.
Þú hefur varpað fram (eins og fyrir tveimur, fjórum og gott ef ekki sex árum) fullkomlega órökstuddum fullyrðingum um að íslenska ríkissjónvarpið geri alþjóðlegum knattspyrnumótum hærra undir höfði en tíðkast í öðrum löndum. Það hef ég ítrekað sýnt fram á að er bull, en aldrei tekist að fá efnisleg svör.
Ef þú telur þig hafa sett fram rök og/eða staðreyndir þá er hvort tveggja hulið mér og ég lýsi eftir dæmum.
Eiður skrifar:
13/06/2012 at 22:51 (UTC 0)
Hef ekki nokkra nennu til að standa í orðaskaki um svo mikið fánýti við mann sem er svo sannfærður um ágæti eigin málstaðar á hann bíta engin rök eða staðreyndir. Hann verður bara að fá að halda sinni ofurtrú.
Björn Gunnlaugsson skrifar:
13/06/2012 at 21:16 (UTC 0)
Þessi orðhengilsháttur þinn gerir að verkum að úr er orðin deila um knattspyrnumannsins skegg sem mér finnst hin besta skemmtun. Þú hefur kannski ekki tekið eftir því að löndin sem ég nefni eru viðbót við Evrópulöndin 45 sem áður höfðu komið fram. Að auki tel ég upp (eftir lista yfir sjónvarpsrétthafa) svæði víða um heim þar sem mörg lönd falla undir einn sýningarrétthafa. Lauslega áætlað eru það líkast til ekki færri en 60 þjóðríki.
Nú væri dauðafæri að halda því fram að í öllum heimsálfum stæðu menn allvíða á öndinni yfir fótboltanum en mörgæsirnar á Suðurskautslandinu færa þér þar vinninginn, enda hafa þær alltaf verið hokkíþjóð.
Mér þætti fróðlegt að vita með hvaða rökum þú telur þig geta fullyrt að viðureigniir manna á borð við Mario Gomez, Cristiano Ronaldo, Robin van Persie, Wayne Rooney og Karim Benzema veki minni áhuga hjá heimsbyggðinni en þrístökk, stangarstökk, júdó og handbolti á ÓL.
Eiður skrifar:
12/06/2012 at 23:53 (UTC 0)
192 lönd eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum. Þetta eru tiltölulega fá lönd sem þú nefnir.Víst er þetta víða víða sýnt, en heimurinn stendur ekki á öndinni yfiur evrópskum boltaleikjum. Allt annað með Olympíuleikana. grundvallar munur.
Björn Gunnlaugsson skrifar:
12/06/2012 at 22:03 (UTC 0)
ESPN sýnir frá keppninni í Bandaríkjunum. Að auki er hún sýnd í Bangladess, Brasilíu, Brúnei, Kanada, eyjum Karíbbahafsins, Síle, Kína, Kólombíu, Fídjí-eyjum, Hong Kong, Indónesíu, Japan, Macaú, Malasíu, Maldíve-eyjum, Mexíkó, Mongólíu, Mjanmar, Papúa Nýju Gíneu, Filipseyjum, Singapúr, Suður-Afríku, Suður-Kóreu, Tælandi, Venesúela og Víetnam. Að auki eiga ákveðnar sjónvarpsstöðvar sýningarrétt sem nær yfir svæði skilgreind á eftirtalinn hátt: Afríka sunnan Sahara (SuperSport), Suður-Asía (NEO Sports), Kyrrahafseyjar (Sky Pacific), Norður-Afríka og Mið-Austurlönd (Al Jazeera Sports) og rómanska Ameríka (DirecTV).
Augljóslega stórlega ofsagt að sýnt sé út um allan heim.
Einmitt í dag voru viðureignir Grikkja við Tékka og Rússa við Pólverja báðar í beinni útsendingu á ITV.
Eiður skrifar:
12/06/2012 at 10:26 (UTC 0)
Þessi afar hógværa og kurteislega athugasemd Björns Gunnlaugssonar hefur því miður farið framhjá mér, en hér birtist hún. Norrænu ríkisstöðvarnar, sem fólk verður aðp kaupa áskrift að hvort sm því líkar betur eða verra rétt eins og með Ríkissjónvarpið hér, sýna ekki nærri alla leiki EM í beinni útsendinginu. Tiltölulega fáa raunar. Get heldur ekki séð að ITV eða BBC sýni marga hvað þá alla leiki beint. Bandarískar sjónvarpsstöðvar sýna þessu efni ekki mikinn áhuga. Það er stórlega ofsagt að EM ík knattspyrnu sýnt í beinni útsendingu um allan heim. Stóryrðði Björns leiði ég hjá mér. Held áfram að skrifa eins og mér sýnist. Hef margt sagt að sjálfsagt er að sýna frá EM en það er óvirðing við okkur sem viljum sjá ýmsilegt annað en boltaleiki og endalaust og innihaldslaust fjas sjálfskipaðra sérfræðinga um þessa sömu leiki að kollvarpa dagskrá nauðungarsjónvarps ríkisins gjörsamlega þótt verið sé að spila fótbolta í Evrópu. Þetta endalausa boltabull pirrar reyndar líka ýmsa sem gjarnan vilja njóta leikjanna.
Bjorn S. Larusson skrifar:
12/06/2012 at 09:04 (UTC 0)
Sæll Eidur
Her gætir einhvers misskilnings hja ter. Her i Danmørku var syndur leikur Irlands og Kroatiu beint a TV2 og eg veit ekki betur en ad hann hafi verid syndur a TV4 i Svithod. Tad er tannig her i Danmorku, Svithod og ad tvi ad eg best veit i Bretlandi ad stodvarnar skiptast a leikjum tannig ad annar leikurinn her i Danmorku er syndur a DR og hinn a TV2. I Svitjod er synt a TV1 og TV4 og i Bretlandi er synt a BBC og ITV. Eg veit ekki hvernig tad er a Islandi en audvitad ættu RUV og Stod 2 ad skiptaleikjum a milli sin.
Med bestu kvedju fra Bornholm
Björn Gunnlaugsson skrifar:
12/06/2012 at 01:29 (UTC 0)
Athugasemd sú sem ég vísa til var send í tengslum við pistil þinn nr. 926 og bíður enn staðfestingar. Hún var eitthvað á þessa leið: (Með leyfi um endurskrifun eftir minni)
Byrja nú rangfærslurnar. Allir leikir á EM í fótbolta eru sýndir í beinni útsendingu um allan heim og í 45 Evrópulöndum. Í langflestum Evrópulandanna sér ein sjónvarpsstöð um allar útsendingar eins og á Íslandi. Á hinum Norðurlöndunum hefur hins vegar átt sér stað einhvers konar útboð og fleiri en ein sjónvarpsstöð deilir sýningarréttinum. Þannig sýna bæði DR1 og TV2 frá keppninni í Danmörku og þegar þú verður var við að önnur stöðin sýni ekki einhvern leik þá er skýringin einfaldlega sú að hin stöðin á leikinn. Gífuryrði um „fótboltafíkn“ íslenska ríkissjónvarpsins standast því enga skoðun.
Staðreyndin er sú að hér er um að ræða gríðarlega vinsælt sjónvarpsefni sem milljónir manna fylgjast með um allan heim. Stór hluti áhugamanna hefur einmitt ánægju af því að hlusta á greiningar fagmanna fyrir og eftir leiki. Gerðu sjáflum þér þann greiða að ætla ekki öllu mannkyni sama þrönga áhugasvið og þú sjálfur býrð við. Í fáeinar vikur annað hvert sumar fer fram stórmót í fótbolta. Það er sýnt í sjónvarpi. Sumum leiðist það, rétt eins og sumum leiddust í gamla daga fræðslumyndir um meðferð gúmbjörgunarbáta. Hlutverk Ríkissjónvarpsins er að gera öllum sviðum menningar skil. Íþróttir eru menning. Hættu nú þessu fjasi í eitt skipti fyrir öll, eða gerðu sjálfum þér að minnsta kosti þann greiða að fara rétt með staðreyndir.
Eiður skrifar:
11/06/2012 at 22:47 (UTC 0)
Sæll, Björn Gunnlaugsson. Ég átta mig ekki á því um hvað þú ert að tala. Ég birti allar athugasemdir innan velsæmismarka. Vinsamlegast sendu athugasemd þín aftur. Hún hlýtur að hafa farið fram hjá mér.Ef þú vilt kalla mig ,,lítinn“ eins og þú gerir þá er það þitt mál og sársaukalaust af minni hálfu.
Eiður skrifar:
11/06/2012 at 22:44 (UTC 0)
Flettu upp í orðabókinni, þeirri íslensku, Steingrímur.
Steingrímur Viktorsson skrifar:
11/06/2012 at 21:39 (UTC 0)
Það var fyrir langa löngu og þú varst nýbúinn að fá verðlaun fyrir gott og vandað málfar að ég heyrði þig segja í útsendingu sjónvarpins „restina“. Þá féll mér allur ketill í eld og ég hef ekki getað litið þig Rasmus eftir það.
Björn Gunnlaugsson skrifar:
11/06/2012 at 19:20 (UTC 0)
Ætlarðu virkilega að gera þig sekan um að endurtaka rangfærslur sem ég hef bent á, auk þess sem þú neitar að birta athugasemdir mínar?
Þú ert að skipa þér á bekk með mönnum eins og Skapta Harðarsyni, sem spýr galli í allar áttir en bannfærir þá sem leiðrétta bullið í honum.
Fyrir tveimur árum benti ég ítrekað á sömu villur hjá þér, reyndar ekki með jafnskilvirkum hætti og nú – og þá skýldir þú þér ítrekað á bak við það að ég skyldi voga mér að skrifa undir dulnefni og vékst þér undan því að svara mér efnislega. Nú skrifa ég undir nafni og þú kýst að birta ekki athugasemdirnar.
Verði þér að góðu, Moli litli.