Utan að sér heyrði Molaskrifari enn einu sinni að í auglýsingu á Stöð tvö (08.07.2012) var talað um að versla sér hótel á netinu, í merkingunni að panta og greiða fyrir hótel herbergi erlendis. Þeir sem bera ábyrgð á þessari auglýsingu ættu að sjá sóma sinn í að breyta henni til betra máls.
Páll Vilhjálmsson sem segist vera blaðamaður skrifar á Moggablogg (08.07.2012): Styrmir skjöplaðist með Þóru en hann er læs á stöðuna innan Samfylkingarinnar … Einhverjum skjöplast, – einhver skjöplast ekki. Þarna hefði því átt að standa : Styrmi skjöplaðist ….
Í pólitísku smáviðtali við Framsóknarþingmann í Sunnudags mogga ( 08.07.2012) er talað um kostnað við jarðgöng frá Húsavíkurhöfn að væntanlegri kísilflöguverksmiðju sem talið er að kosti á um annan milljarð. Hve há upphæð skyldi það vera? Dálítið sérkennilegt orðalag.
Svolitið er það er það undarlega dagskrárgerð að setja (góða?) spennumynd, Wallander, á dagskrá eftir miðnætti á sunnudagskvöldi eins og Ríkissjónvarpið gerði (08.07.2012) Fyrir hverja?
Orðalagið að taka þátt á einhverju heyrist æ oftar. Í hádegisútvarpi Ríkisútvarpsins (08.07.2012) var talað um að taka þátt á þingfundum. Molaskrifari fær ekki sé að þetta sé breyting til bóta frá því að tala um að taka þátt í einhverju.
Enga skýringu hefur Molaskrifari séð á því hversvegna breytt var frá auglýstri dagskrá Ríkissjónvarps klukkan 13 00 á sunnudag (08.07.2012) þegar sýna átti þátt sem hét Jonasarbræður á tónleikum. Í staðinn var sýnt eitthvað sem hét Óskar og Jósefína. Það þarf víst ekkert að skýra það út fyrir viðskiptavinum Ríkissjónvarpsins hversvegna ekki er staðið við auglýsta dagskrá. Þeim kemur það auðvitað ekkert við. Kemur svo sem ekkert á óvart.
Úr mbl.is (08.07.2012): The Associated Press hefur greint frá því að hluti auðæfa Romneys megi rekja til fyrirtækis í Bermúda án þess að það hafi komið fram í skattayfirlitum hans sl. 15 ár. Þetta er ekki mjög vandað. Hér ætti að segja …. hluta auðæfa Romneys , ekki hluti auðæfa Romneys… Svo er talað um skattframtöl á íslensku, ekki skattayfirlit.
Úr mbl.is (08.07.2012) Það sér á að hvergi er lengur neinn yfirlestur, – ekki er víst rétt að tala um prófarkalestur, lengur: ..ákjósanlegar aðstæður til að fara út og týna orma! Í fyrirsögn er talað um að týna maðk í kvöld. Ætti að vera: Tíma orma, tína maðka, tína ber, , – sem er annað en að týna peningum.
Á sama vef, sama dag segir: Það er búið að vera algjör skortur á maðki þessa dagana og skýringin er langur þurrkur síðustu vikur. Hér hefði farið betur á því að segja að mati Molaskrifara: Það er búinn að vera mikill skortur á …..
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
12/07/2012 at 09:35 (UTC 0)
Ég hef nú oftar heyrt talað um mikla þurrka, fremur en mikinn þurrk eða langan þurrk, – það er mér heldur framandi. Miklir þurrkar, langvinnir þurrkar, hér hefur vevrið þurrkur mjög lengi …
Linda skrifar:
11/07/2012 at 23:57 (UTC 0)
Og hvað segir þú Eiður um mikill þurrkur… í stað langur þurrkur síðustu vikur?
Eiður skrifar:
11/07/2012 at 09:18 (UTC 0)
Ég segi bara, Margrét: Þitt orðalag er langtum betra.
Margrét Hrönn Þrastardóttir skrifar:
11/07/2012 at 03:19 (UTC 0)
Hvað segir þú um að segja Það hefur verið mikill skortur á… í stað Það er búinn að vera mikill skortur á… ?
Þakka þér fyrir molaskrif, ég les þau oftast.
Kv Margrét
Axel skrifar:
10/07/2012 at 13:07 (UTC 0)
,,Svolitið er það er það undarlega dagskrárgerð að setja (góða?) spennumynd, Wallander, á dagskrá eftir miðnætti á sunnudagskvöldi eins og Ríkissjónvarpið gerði (08.07.2012) Fyrir hverja?“
Hmm…