«

»

Molar um málfar og miðla 947

Í fréttum á miðnætti (05.07.2012) var sagt í Ríkisútvarpinu, að lögreglan hefði haft augu með konunni. Málvenja er að tala um að hafa auga með, ekki augu, fylgjast náið með einhverju.

 

Það var rangt fréttamat hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins (06.07.2012) að vera með sem fyrstu frétt í aðalfréttatíma kvöldsins að mál þar sem einn af starfsmönnum/dagskrárgerðarmönnum Ríkisútvarpsins er aðal málsaðili hefði verið fellt niður. Ríkissaksóknari felldi málið niður. En allt er málið mikil sorgarsaga. Samt er það svo að á almennan mælikvarða er þetta naumast stórfrétt, þótt svo kunni að hafa verið innanhúss í Efstaleiti vegna þess að málið varðaði samstarfsmann. Í öðru lagi ber fréttastofunni að fara sérstaklega varlega þegar um er að ræða fréttir sem starfsmenn Ríkisútvarpsins eiga aðild að. Fréttaþulur las svo þessa sömu frétt sem fyrstu frétt í sjónvarpsfréttunum klukkan sjö.

Þulur sagði í fréttayfirliti: Þingmenn skoða nú lagabreytingu sem gerði það refsivert að sprauta aðra manneskju með eiturlyfjum. Í fréttinni sagði Jóhannes Kr. Kristjánsson faðir hinnar látnu stúlku sem málið snýst um: Ég hef rætt þetta við þingmenn sem eru tilbúnir að skoða málið að leggja hér fram að þessi ákvæði verði sett inn í lög. Þetta er ekki það sama og sagt var í inngangi fréttarinnar. Skoða nú lagabreytingu er ekki sama og að vera tilbúinn til að skoða lagabreytingu Þetta eru ekki nægilega vönduð vinnubrögð hjá yfirmönnum Ríkisútvarpsins. Í tíu fréttum útvarps þetta sama kvöld var þetta mál ekki fyrsta frétt og orðalag fréttarinnar fagmannlegra. Það ætti ekki að þurfa að tíunda það hve fara ber varlega í fréttum af viðkvæmum málum þegar starfsmenn Ríkiútvarpsins eru beinir aðilar að því máli sem um er fjallað.

 

Í upphafi morgunþáttar Rásar tvö (06.07.2012) var sagt að lögreglan hefði hafið upp á fólkinu (ítölsku ferðamönnunum sem töldu sig hafa séð) hvítabjörn. Lögreglan hafði haft upp á fólkinu, fundið það.

 

 

Gott er að Evrópukortið og Norður Ameríkukortið skuli aftur vera komin á skjáinn í veðurfréttum Ríkissjónvarpsins. Einhverra hluta vegna hurfu þessi kort af skjánum um skeið.

 

Ríkissjónvarpið leiðrétti (06.07.2012) ónákvæma frétt um íslenskt jurtalyf gegn tíðum þvaglátum. Það leiðrétti hinsvegar ekki nafn dr. Sigmundar Guðbjarnasonar sem rangt var farið með í fréttum kvöldið áður.

 

Í Molum nr. 946 var skrifað um skipalest sem kom við sögu í fréttum Stöðvar tvö. Glöggur Molalesandi benti skrifara á að skipalestin hefði verið að koma frá Rússlandi, en ekki verið á leið til Rússlands eins og sagt var í Molum og leiðréttist það hér með.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>