Í fréttatíma Stöðvar tvö talaði fréttamaður (10.07.2012) um tvær líkamsræktir í húsi þar sem eldur kom upp. Slökkviliðsmaður sem rætt var við talaði hinsvegar um tvær líkamsræktarstöðvar. Betra. Þá komu áhafnarmeðlimir ítrekað við sögu í sama fréttatíma þar sem betra hefði verið að tala um skipverja. Lífseigt fyrirbæri áhafnarmeðlimir.
Í myndatexta á forsíðu Morgunblaðsins (11.07.2012) segir: Ljóst er að mikill fengur er af komu erlendra skemmtiferðaskipa hingað til lands … Máltilfinning Molaskrifara er sú að fengur sé að einhverju, – ekki af einhverju.
Skemmtilegt orðalag var í fréttum Ríkissjónvarps (10.07.2012) þar sem talað var fyrirtæki sem leigðu út eldri bifreiðar ! Raunar var einnig og réttilega talað um fyrirtæki sem leigðu út gamla bíla. Eldri bifreiðar hljómar óneitanlega svolítið hjákátlega. Í sömu frétt var talað um gauðslitin dekk. Þetta orðalag hefur Molaskrifari ekki áður heyrt. Oft er sagt að það sem mjög er slitið sé gatslitið. Hinsvegar er talað um að eitthvað sé gauðrifið, til dæmis ef flík er nánast rifin í tætlur. Vel má þó vera að þetta sé algengur talsmáti, þótt Molaskrifari hafi ekki heyrt svona tekið til orða.
Lesandi benti á benti á frétt á mbl.is (10.07.2012) þar sem segir í fyrirsögn: Ætla að dýpka 360 þúsund rúmmetra. Lesandi skrifar: ,,Hvað er að dýpka rúmmetra? Það væri skiljanlegt ef dýpka ætti ákveðinn fermetrafjölda (t.d. svæðið innan hafnar) eða fjarlægja ákveðið efnismagn af (úr?) botni.“. Eðlilegt að spurt sé. Molaskrifari þakkar sendinguna.
Hér var á dögunum gerð athugasemd við að Ríkissjónvarpið setti spennuþáttinn Wallander á dagskrá eftir miðnætti á sunnudagskvöldi. Danska ríkissjónvarpið DR1 sýnir þessa þætti um þessar mundir. Þar eru þeir á dagskrá á miðju kvöldi, – oft er heilmikil hugsun að baki því hvernig norrænu stöðvarnar raða dagskránni saman fyrir sitt fólk.
Óvenju mikið hefur verið um útsendingarhnökra í Ríkisútvarpinu að undanförnu, – bæði í útvarpi og sjónvarpi. Í hádeginu á miðvikudag (11.07.2012) var langt óútskýrt og óafsakað hlé á Rás eitt. Það á ekki að láta sumarliðana æfa sig í beinni útsendingu.
Staksteinahöfundur Morgunblaðsins náði nýjum botni í skrifum sínum á miðvikudag (11.07.2012). Djúpt var niður á botninn áður. Enn dýpra nú. Hann skrifar um umfjöllun Styrmis Gunnarssonar um Steingrím J. Sigfússon ráðherra og segir: Veit Styrmir ekki hvað J. í nafninu stendur fyrir? Júdasartilvísunin æpir á lesandann. Verri getur nokkur maður varla verið en svikarinn Júdas. Áhangendur Morgunblaðseigenda og skrifara nota gjarnan nasistatilvísanir og tala um föðurlandssvikara þegar rætt um þá sem styðja Evrópusamstarfið. Nú hefur nýr maður verið leiddur til leiks á síðum Moggans, – svikarinn Júdas. Svona hefði Matthías aldrei skrifað, – ekki Styrmir heldur. Þetta er heldur ógeðfellt.
Það vantaði ekki þjóðrembuna í leiðara Moggans (12.07.2012). Þar segir efnislega: Mannréttindadómstóll Evrópu er marklaus stofnun. Hæstarétti Íslands getur ekki skjátlast. Enda eru þar svo margir frændur og vinir Sjálfstæðisflokksins, bætir Molaskrifari við. Slíkum mönnum skjátlast ekki. Aldrei.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar