«

»

Molar um málfar og miðla 1000

Þessi Molaskrif urðu meiri að vöxtum en mig óraði fyrir. Það var aldrei ætlunin að þau færu í þúsund Mola. Engu að síður hefur það nú gerst og ekki lýgur tölfræðin, ekki í þessu tilviki ,alla vega.

Í upphafi byrjaði þetta sem stopular athugasemdir við misfellur í málfari í fjölmiðlum jafnt á prenti sem á öldum ljósvakans. Ég hef nefnt það áður að stöku sinnum sendi ég tölvubréf til fréttaastofu Ríkisútvarpsins undir fyrirsögninni vinsamleg ábending. Þeim ábendingum var ekki svarað, utan einu sinni að fréttamaður þakkaði mér fyrir.

Molaskrifari þykist hafa orðið þess var að Molarnir séu lesnir á ritstjórnum og fréttastofum og veit að hann er ekki allsstaðar efstur á vinsældalista. Það lætur hann sér í léttu rúmi liggja.

Stundum er spurt: Heldur þú að þetta hafi einhver áhrif? Ekki getur Molaskrifari svarað því , en hitt er víst að þegar bent er á misfellur, ambögur eða augljósar villur sem stinga í augum þá hreyfir það vonandi aðeins við þeim sem í hlut á. Molaskrifari minnist þess að á upphafsárum sínum í blaðamennsku fyrir rúmlega hálfri öld, var hann einn á vakt að ganga frá sunnudagsblaði Alþýðublaðsins síðdegis á laugardegi og samdi þá fyrirsögn þar sem rangt var farið með orðtak. Á mánudegi fékk hann vinsamlegar ákúrur frá ritstjóra. Hefur síðan notað þetta orðtak eins og á að gera en minnist villunnar í hvert skipti sem hann notar það. Í framhjáhlaupi má geta þess að forseti Íslands fór rangt með þetta sama orðtak í útvarpsþættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni fyrir skömmu!

Tæknin hefur breytt vinnubrögðum á fréttastofum og ritstjórnum. Nú virðist það almenn vinnuregla að hver skrifar fyrir sig og síðan eru skrifin birt. Nýliðum og afleysingafólki þarf að leiðbeina. Yfirlestur og prófarkalestur (eiginlegar prófarkir heyra reyndar sögunni til) virðist í lágmarki.
Samfara þessu virðist hafa verið slakað á kröfum um móðurmálskunnáttu, vald á tungunni og ritleikni. Við bætist vanþekking á vinnubrögðum og hugtökum í grundvallaratvinnuvegum eins og sjávarútvegi og landbúnaði. Ekki bætir heldur úr skák að landafræðikennslu er víst löngu hætt í skólum. Margir þekkja því landið sitt illa og fara rangt með örnefni. Enn mætti nefna hér til sögu að líklega hefur dregið úr bóklestri ungs fólks, þótt ekki hafi Molaskrifari tölur tiltækar um það efni. Góður texti er góður kennari. Gæðin síast inn. Fréttamenn ættu að lesa eina Íslendingasögu á ári, eða hafa hljóðdiska með lestri Gísla Halldórssonar á Góða dátanum Svejk í tækinu í bílnum. Því skal samt til haga haldið að auðvitað starfar margt, – mjög margt, fólk á fjölmiðlum sem er prýðilega máli farið og kann vel til verka. Það var til dæmis gott að heyra í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan fimm í morgun ( Kristófer Ingi Svavarsson ?) talað um að sigla beitivind framhjá skerjum (efnahagsvandans) og í frétt af manndrápum var talað um valköst. Þarna var orðaforði og málnotkun góðu lagi og til fyrirmyndar. Bögubósarnir eru samt of margir og málsóðarnir of áberandi.

Áframhald eftir þúsund Mola? Engin áform eru á þessari stundu uppi um að hætta. Kannski verða færslur svolítið strjálli, en meðan bláókunnugt fólk heldur áfram að stöðva mig á förnum vegi í Kringlunni eða ávarpa mig á bensínstöðinni og þakka fyrir Molana og meðan gott fólk víðsvegar heldur áfram að senda ábendingar um það sem betur megi fara þá verður þessum skrifum haldið áfram – enn um sinn.

Að endingu er svo rétt að hafa í huga að Molaskrifari er auðvitað langt frá því að vera óskeikull – honum verður á messunni. Vondur vélritari , hættir til að lesa í málið og sjá ekki innsláttarvillur og þess háttar. Tekur öllum ábendingum vel. Markmiðið með þessum skrifum er að benda á það sem miður fer og brýna menn til að gera betur.

Einlægar þakkir til Molavina nær og fjær. Stuðningur ykkar er mér mikils virði.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

35 athugasemdir

1 ping

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir fyrir vinsamleg orð, Einar. Ég held áfram, ef Guð lofar , eins og hún móðir míin heitin var vön að segja um öll framtíðarloforð.

  2. Einar Kr. skrifar:

    Kæri Eiður, innilegustu hamingjuóskir með molana þúsund og bestu þakkir fyrir að halda svo staðfastlega uppi lifandi vörn fyrir móðurmálið okkar. Pistlarnir þínir eru orðnir að fastri lesningu hér á hverjum morgni, svo áhugaverðir eru þeir. Vona að við fáum að njóta þeirra áfram sem allra lengst.

  3. Eiður skrifar:

    Forspurður – fornspurður segir orðabókin. Að gera eitthað að einhverjum forspurðum er að gera eiotthvað án leyfis eða vitneskju einhvers.

  4. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir fyrir þetta. Það er ekki að sjá á skrifum þínum að þú hafir dvalist erlendis í 30 ár.

  5. Sigurður skrifar:

    Til hamingju Eiður og ég er þakklátur fyrir að hafa fundið þig aftur. Ég týndi þér þegar þú yfirgafst moggabloggið.

    Ég hef verið búsettur erlendis í hartnær 30 ár en kem regulega heim. Ég var heppinn að því leiti til að foreldrar mínir leyfðu mér ekki að komast upp með ambögur og einnig naut ég góðrar leiðsagnar í í skóla og síðast í MR .

    Kunnáttu landans hefur hrakað, sérstaklega yngra fólks og oft rekur mig í rogastans þegar ég heyri málfarið í útvarpinu. Mér þótti hins vegar vænt um það fyrir nokkru er mér í einni heimsóknni var hælt fyrir góða og fallega íslensku. Hún var nú reyndar ekki merkilegri en svo að vera það mál sem ég var alinn upp við.

  6. agúst skrifar:

    Gott kvöld
    Mér finnst alveg hræðilegt að hlusta á viðtöl við fólk sem segir ú´eist (þú veist) ;skiluru; ég meina: ínæstum öðru hverju orði,stundum eru tveir í einu í sama viðtali sem hnýta þessi orðskrýpi saman. Ein spurning er orðið ;forspurður-; notað rétt í dag
    Takk kv Ágúst.

  7. Eiður skrifar:

    Sjálfsagt að svala forvitni þinni , Sigurður Bogi. Ég sagði að e-ð væri komið í heila höfn.

  8. Sigurður Bogi Sævarsson skrifar:

    Sæll!
    Nú er ég orðinn forvitinn. Hvert var orðatiltækið sem þú fórst rangt með í Alþýðublaðinu forðum daga?

    sbs

  9. Eiður skrifar:

    Þakka þér fyrir, Guðbjörn, – þetta þótti mér vænt um að heyra.

  10. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Ingvar. Molnar ekki úr okkur öllum með árunum?

  11. Eiður skrifar:

    Þakka þér fyrir, Haukur

  12. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Ragnheiður.

  13. Eiður skrifar:

    Svo maður haldi sig við fleirtöluna þá eru góðar vísur aldrei of oft kveðnar! Vikið hefur verið að fleirtölufárinu , en halda ber mönnum við efnið.

  14. Guðjón Bjarnason skrifar:

    Viðurkenni fúslega að hafa látið undir höfuð leggjast að fylgjast með Molasafninu en reyni að bæta úr því. Velti fyrir mér hvort beint hafi verið sjónum að fleirtöluæðinu sem farið hefur sem eldur í sinu? Dæmi: átök lögreglu í merkingunni auglýsingaherferð eða sambærilegt. Ekki má gleyma hálkunum sem starfsmaður Vegagerðarinnar glímdi við eða „gösunum“ sem stigu úr iðrum jarðar í viðtali við jarðfræðing. Og svo mætti langa tölu færa. Afkáralegt í meira lagi. Fólk sést rautt í framan af áreynslu við að finna fleirtölu orða sem ekki eru til þannig.

  15. Ragnheiður Hilmarsdóttir skrifar:

    Takk fyrir þúsund molana, það er oft gaman að lesa þá

  16. Haukur Kristinsson skrifar:

    Til hamingju Eiður.

  17. Ingvar V. skrifar:

    Farðu samt ekki í þúsund Mola, sjálfur, Eiður.
    Því hver færsla þín, hér í þessum dálki, er okkur hinum afar mikilvæg!

    Takk fyrir færslurnar 🙂

  18. Guðbjörn skrifar:

    Þökk sé þér hefur áhugi minn á íslenskri málfræði aukist til muna. Ég er rétt rúmlega tvítugur og skammast mín hvað ég er ófróður um íslenskt málfar. En þökk sé molum þínum mun það (vonandi) breytast.
    Þú ert okkur unga fólkinu hvatning.

  19. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Þorsteinn. Já það er hárrétt. Þetta eru aðrar villur, – en ekki betri !

  20. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Páll.

  21. Páll M. Skúlason skrifar:

    Til hamingju með að hafa haft nægilegt þolgæði til að halda þessum skrifum til streitu þrátt fyrir talsverðan mótbyr, ekki síst frá þeim sem tala fyrir óskoruðu frelsi fólks til að tjá um hvaðeina, hvernig sem er.
    Ýmsir eru þeir sem eru þeirrar skoðunar, að það sé í góðu lagi að „leika sér með málið“, láta reyna á aðlögunahæfni þess. Auðvitað má samþykkja að lifandi tungumál verður að hafa ákveðið þanþol, eða sveigjanleika til að takast á við breytta tíma, en það vita auðvitað allir, að vatn rennur niður á við, því hraðar sem brekkan er brattari.
    Ef engir væru Eiðarnir, væru heldur engar hindranir fyrir því að tungumálið hyrfi, eða yrði í það minnsta ekki samt, á mjög skömmum tíma.

    Áfram með smjörið, Eiður, þó svo þú syndir oft móti straumnum.

  22. Þorsteinn Vilhjálmsson skrifar:

    Góðan daginn, Eiður, og bestu þakkir fyrir eljuna!

    Hefurðu tekið eftir því hvað villurnar sem nú vaða mest upppi eru ólíkar þeim sem við áttum að varast í gamla daga? Núna er það fallarugl, rangar beygingar, botnlausar setningar og afbökuð orðtök en áður var mest glímt við þágufallssýki, einfalda stafsetningu og svo blessaða setuna.

    Og úr því ég minnist á setuna verð ég að nefna hvað mér finnst ankannalegt þegar menn vilja endilega skrifa setu setu en gera það samt rangt!

    Með kærri kveðju, Þorsteinn V.

  23. Eiður skrifar:

    Að sjálfsögðu!

  24. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Óli Björn. Þetta eru dægurflugur!

  25. Óli Björn Kárason skrifar:

    Ég óska þér til hamingju. Pistlarnir eru skyldulesning. Nú bíð ég, eins og margir aðrir eftir því að þú nýtir efni þeirra í nauðsynlega handbók fyrir alla sem vilja vanda til verka í ræðu og riti.

  26. Arnar S. skrifar:

    Vinaleg ábending:

    Er það ekki frekar Gísla Halldórssonar í stað Gísla Halldótssonar? Líklega bara pikkvilla hér.

    Annars flott framtak hjá þér! Það virðist ekki vera nýmóðins að vanda málfar nú til dags!

  27. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Ingibjörg, en þetta er nú fullmikið sagt!

  28. Jón Jónsson skrifar:

    Til hamingju. Í tilefni dagsins mætti máski benda útvarpi allra landsmanna á að betur færi að segja: Þúsund málfarsmolar, fremur en: Eitt þúsundustu málfarsmolarnir, eins og nú segir á síðu 116 í Textavarpinu. Góðar stundir.

    http://www.textavarp.is/116/

  29. Ingibjörg skrifar:

    Þakka þér fyrir þitt framlag til móðurmálsins Eiður.
    Það má kannski segja að þú sért Rasmus Rask vorra tíma. Hans framlag, rétt eins og þitt, verður seint fullþakkað.

  30. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Þorvaldur, satt segirðu !

  31. Þorvaldur S skrifar:

    Til hamingju með áfangann. Þótt okkur hafi oftsinnis greint á er ég ekki í nokkrum vafa um velvild þína til málsins. Og íslenskan á aldrei of marga vini.
    Haltu endilega áfram sem lengst. Fátt kemur blóðinu betur á hreyfingu en velheppnað karp.

  32. Eiður skrifar:

    Þakka góðar óskir. Það er sem fyrr. Enginn les yfir. Hvar er fréttastjóri? Hvar er málfarsráðunautur ?

  33. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Sigurður.

  34. Sigurður Helgason skrifar:

    Til hamingju með áfangann. Það er mikilvægt að allir séu á verði til að auka málvernd og máltilfinningu í landinu.
    Kv. Sigurður Helgason

  35. Valur skrifar:

    Góðan daginn og til hamingju með áfangann. Ég sendi þér hér einn hlekk í tilefni dagsins.

    http://www.flickmylife.com/archives/25824

  1. Óþreytandi og dugmikill baráttumaður gegn málsóðum skrifar:

    […] Nú hefur Eiður skrifað eitt þúsund pistla, sem hann kallar raunar mola. Aldrei hefur skort efnivið – framboðið hefur verið nægjanlegt. Hvers vegna? Eiður gefur svarið: „Samfara þessu virðist hafa verið slakað á kröfum um móðurmálskunnáttu, vald á tungunni og ritleikni. Við bætist vanþekking á vinnubrögðum og hugtökum í grundvallaratvinnuvegum eins og sjávarútvegi og landbúnaði. Ekki bætir heldur úr skák að landafræðikennslu er víst löngu hætt í skólum. Margir þekkja því landið sitt illa og fara rangt með örnefni. Enn mætti nefna hér til sögu að líklega hefur dregið úr bóklestri ungs fólks, þótt ekki hafi Molaskrifari tölur tiltækar um það efni. Góður texti er góður kennari. Gæðin síast inn. Fréttamenn ættu að lesa eina Íslendingasögu á ári, eða hafa hljóðdiska með lestri Gísla Halldótssonar á Góða dátanum Svejk í tækinu í bílnum. Því skal samt til haga haldið að auðvitað starfar margt, – mjög margt, fólk á fjölmiðlum sem er prýðilega máli farið og kann vel til verka. Það var til dæmis gott að heyra í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan fimm í morgun ( Kristófer Ingi Svavarsson ?) talað um að sigla beitivind framhjá skerjum (efnahagsvandans) og í frétt af manndrápum var talað um valköst. Þarna var orðaforði og málnotkun góðu lagi og til fyrirmyndar. Bögubósarnir eru samt of margir og málsóðarnir of áberandi.” […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>