Í fréttum Stöðvar tvö (02.009.2012) var sagt frá þýskri skútu, skólaskipi, sem lá í Reykjavíkurhöfn. Skútan heitir Alexander von Humboldt. Þulur bar nafn skútunnar fram upp á ensku , Alexander von [hömmbolt] Það er rangt. Of oft heyrast þýsk nöfn í ljósvakamiðlum borin fram eins og þau væru ensk.
Tvær ábendingar um auglýsingar: Það ætti að vera fyrir neðan virðingu flugfélagsins Icelandair að brjóta reglur um áfengisauglýsingar með því að auglýsa bjór í auglýsingum um ferðir til Denver. Það er ekki traustvekjandi að sniðganga lög. Svo ætti einhver að kenna útvarpsstjóra Útvarps Sögu að bera fram orðið súkkulaði. Þá hættir hún kannski að tala um súkklatertur í auglýsingum. Nema frúin sé að tala færeysku og sé að tala um einhverskonar reiðhjólatertu!
Af mbl.is (31.08.2012): Gulli að verðmæti yfir 200 milljónum króna var stolið af hótelherbergi á Gardermoen-flugvelli í Noregi í gær. Molaskrifari er á því að hér hefði átt að segja: Gulli að verðmæti yfir 200 milljónir króna var stolið …
Í fréttum Stöðvar tvö (03.09.2012) var talað um að gera kenningar. Molaskrifari er á því að betur færi á að tala um að smíða kenningar eða búa til kenningar.
Þessi voru á Erró í Hafnarhúsinu er enn ein snilldarfyrirsögnin (03.09.2012) á því sem mbl.is kallar Smartland Mörtu Maríu.
Molalesandi skrifar og þakkar þessi pistlaskrif . Hann segir (03.09.2012): ,,Það sem svo oft fer í taugar mínar eru prósentin. Yfirmaður minn hafði þann vana að setja mun talna fram sem eitthvað sinnum meira en eitthvað annað frekar en að segja hversu mörg hundruð prósent meira það hafði verið. Prósent eins og ég skil það þýðir af hundraði. Tvö hundruð prósent vil ég ekki skilja því í huganum er ég að reikna af hundraði. Kannski er þetta búið að koma fram hjá þér, en til öryggis sendi ég þér þennan pistil.” Molaskrifari þakkar þessa góðu ábendingu, en minnist þess ekki að þetta hafi borið á góma áður í þessum pistlum.
Annar Molalesandi sendi eftirfarandi: ,,Í frétt Sjónvarpsins á sunnudagskvöld 2. september var sagt frá því merkisafmæli, að 50 ár væru liðin frá upphafi annars af þremur þorskastríðum Íslendinga. Í fréttinni og á vefnum www.ruv.is var þetta orðað svo, að 50 ár væru liðin frá því að ,,…annað af þremur þorskastríðum braust út eftir að Íslendingar færðu landhelgina út í 50 mílur.“
Í lok fréttarinnar sá hins vegar þulurinn ástæðu til að leiðrétta þetta og segja að þorskastríðin hefðu að sjálfsögðu verið TVÖ!
Alltaf fer þeim fram í Efstaleitinu, hugsaði ég með mér.” Já, það má nú segja. Þar eru stöðugar framfarir dag frá degi !
Kastljósið kom á skjáinn að nýju á mánudagskvöld (03.09.2012) með glæsilegu tækniklúðri í upphafi. Óneitanlega lítur þetta þannig út að nýliðar séu látnir æfa sig í beinni útsendingu. Svona lagað sést yfirleitt ekki á öðrum sjónvarpsstöðum. Molaskrifari játar hinsvegar að hann hafði takmarkaða nennu til að horfa á Ögmund Jónasson. Það er búið að blóðmjólka þetta mál svo í Ríkisútvarpi og sjónvarpi að það er með ólíkindum. Þetta er ekki slíkt stórmál sem umfjöllunin gefur til kynna. Annars er gott að fá Kastljósið á skjáinn aftur og umfjöllunin um dóp og peningaþvætti er af hinu góða.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Jón Axel Egilsson skrifar:
13/09/2012 at 12:53 (UTC 1)
Árið 1976 gaf Sögufélagið út bókina Tíu þorskasríð eftir Björn Þorsteinsson.
Eiður skrifar:
06/09/2012 at 10:34 (UTC 1)
Rétt. Ætlaði að athugasemd við … af hótelherbergi … það datt upp fyrir hjá mér.
Hörður Björgvinsson skrifar:
06/09/2012 at 10:11 (UTC 1)
„Af mbl.is (31.08.2012): Gulli að verðmæti yfir 200 milljónum króna var stolið af hótelherbergi á Gardermoen-flugvelli í Noregi í gær. Molaskrifari er á því að hér hefði átt að segja: Gulli að verðmæti yfir 200 milljónir króna var stolið …“
Ef til vill væri réttara að segja að peningunum hafi verið stolið úr hótelherberginu. Ég geri ekki ráð fyrir að herbergið hafi átt þessa peninga.
Eiður skrifar:
05/09/2012 at 11:35 (UTC 1)
Snjöll hugmynd. Vonandi lesa Moggamenn þetta.
Valur skrifar:
05/09/2012 at 11:14 (UTC 1)
Smartland Mörtu ætti eiginlega frekar að heita Not so smart land Mörtu