«

»

Molar um málfar og miðla 998

Sunnudagsmoggi (02.09.2012) fær hrós fyrir frábærar myndir og frásögn þeirra Ragnars Axelssonar ljósmyndara og Haraldar Sigurðssonar jarðvísindamanns af ísbreiðum Grænlandsjökuls þar sem nú eru stórfljót og stöðuvötn en áður var þar ómælisvíðátta hjarnbreiðanna. Raunar er oft mjög áhugavert efni af ýmsu tagi í Sunnudagsmogga.

Molaskrifara finnst það undarleg árátta hjá íþróttafréttamönnum að tala sífellt um að taka þátt á …. Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (01.09.2012) var talað um að taka þátt á heimsleikunum … Skrifara er tamt og eiginlegt að tala um að taka þátt í einhverju.

Í fréttum Ríkissjónvarps (01.09.2012) var talað um sögulegan þurrk í Missisippi í Bandaríkjunum. Líklega var átt við mestu þurrka í manna minnum. Í sama fréttatíma var í inngangi fréttar talað um skógarelda í Evrópu og sagt að grunur léki á að eldarnir hefðu verið kveiktir. Seinna í fréttinni var komist betur að orði og sagt að grunur léki á að eldarnir væru af mannavöldum.

Garðurinn var girtur heildstæðri girðingu 1997 segir í grein í Sunnudagsmogga (01.09.2012). Molaskrifari áttar sig ekki á því hver sé munurinn á heildstæðri girðingu og girðingu.

Molalesandi sendi þetta( 02.09.2012): ,,Ég ætlaði bara að reyna að ná góðu hlaupi. Ég er svo ánægður að vera hér og ég er mjög ánægður með tímann. Á morgun er síðan stóra hlaupið og mér hlakkar til, sagði Pistorius.”
Sjá: http://www.visir.is/pistorius-setti-heimsmet-i-fyrsta-hlaupi-a-ol-fatladra/article/2012120909924

Ekki veit Molaskrifari hve margir hlustendur Ríkisútvarpsins þekktu bandaríska textasmiðinn og dægurlagahöfundinni Hal Davis sem nýlátinn er í hárri elli. Hann samdi vissulega marga smelli. Hans var minnst í hádegisfréttum (02.09.2012) nánast eins og um þjóðhöfðingja væri að ræða. Stundum er dálitið erfitt að átta sig á fréttamatinu þar efra.

Ágætur Molalesandi, sem ekki segist vera áskrifandi að Stöð tvö en horfa á það sem sé í opinni útsendingu, segir í bréfi: ,,Þess vegna hef ég ekki kunnað við að hafa samband við fréttastjóra Stöðvarinnar, benda á og kvarta undan meintri misþyrmingu á íslensku máli og málvenjum. Ég hef lesið fjölmarga ,,Mola“ þína á Netinu um málfar og málnotkun í fjölmiðlum með ánægju, en hef eflaust misst af þeim nokkrum (enda hátt á tíunda hundraðið!) og hugsanlega gagnrýni þinni á nýtt málfar og málbeitingu ungra karlskyns fréttaþula Stöðvar 2.

Ég vil þó benda þér á að a.m.k. tveir ungir karlar sem lesa um þessar mundir fréttir á Stöð 2 og ræða við fólk hafa nýja og, að mínu mati, afskaplega einkennilega tjáningu á tungumálinu okkar. Ambögur eru nægar – og úr hófi fram – en framburður, hrynjandi og áherslur eru einnig fjarri því sem mér finnst vera íslensk málhefð.
Ég gæti nefnt ótal dæmi, en læt nægja að benda þér á þessa áberandi afturför Stöðvarinnar. Það hlýtur t.d. að vera hægt að kenna ungum galvöskum mönnum að segja ,,sérstakur saksóknari“ en ekki ,,serstakr sagsoknri“.

Hvet þig að leggja við hlustir … en get þó ekki með góðu sagt :Góða skemmtun!“ Molaskrifari þakkar bréfið.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>