«

»

Molar um málfar og miðla 1033

 

Þeir sem fylgjast með erlendum sjónvarpsstöðvum vita að norrænar og breskar stöðvar sýna í viku hverri fréttaskýringaþætti  um erlend málefni. Þessar myndir eru  ýmist um þróun mála í Evrópu eða í fjarlægari heimshlutum. Þessar stöðvar sýna líka heimildamyndir um samtímasögu og sögu liðinnar aldar og liðinna alda. Hversvegna sýnir íslenska Ríkissjónvarpið nær aldrei efni af þessu tagi? Er það vegna þess að þetta efni fellur utan áhugasviðs stjórnenda sem virðast telja sig reka vídeóleigu? Á þessu sviði bregst íslenska Ríkissjónvarpið skyldum sínum. Hvers eiga áhugamenn um sögu og samfélag að gjalda? Það er afar slæmt að svona  þröngsýni skuli ríkja við efnisval í sjónvarpsstöð þar sem fólk getur ekki valið áskrift eða hafnað áskrift. Verður að una nauðungaráskrift.

 

Molaskrifari hélt að hann væri að horfa á fréttir á Stöð tvö á fimmtudagskvöld (11.10.2012) en svo runnu á hann tvær grímur. Þetta voru svo einkennilegar fréttir. Um sumt hálfgerðar ,,ekki fréttir”. Tiltölulega snemma í fréttatímanum kom löng óléttufrétt. Þessi frétt átti ekkert erindi við almenning. Hvaða dómgreindarbrestur ræður því að Stöð tvö bunar á okkur einkamálum af þessu tagi? Okkur kemur þetta ekkert við. Þetta var meira að segja hálf óþægilegt. Svo kom löng frétt um meint kattadráp á Eyrarbakka. Það hefði verið réttlætanlegt að segja frá því í mínútulangri frétt, eða svo. Sama var um gítarleikarann unga , sem kannski verður frægur í Ameríku. Mínúta eða rúmlega það hefði verið mátulegt. Hvar er fréttamatið ykkar? Það var víðsfjarri í þessum fréttatíma.

 

Borgarfulltrúi VG í Reykjavík, Sóley Tómasdóttir, kom fram í fréttum til að lýsa hve afar hæfir borgarfulltrúar væru til að reka orkufyrirtæki í eigu borgarbúa. Hún gat ekki talað um stjórnmálamenn, femínisminn leyfir það líklega ekki. Þess vegna talaði hún sífellt um stjórnmálafólk. Sumir stjórnmálamenn eru konur og sumar konur eru stjórnmálamenn.

 

Nefnifallssýki á visir.is (11.10.2012): Sprengjukúlurnar tvær sem fundust á svæði Björgunar í Bryggjuhverfinu í Reykjavík í gærmorgun var eytt síðdegis  …  Sprengikúlunum tveimur sem fundust … var eytt síðdegis.. Sprengikúlur, ekki sprengjukúlur.

 

Ágætur Molalesandi sendi þetta (12.10.2012): ,,Trúlega ertu búinn að reka augun í þetta gullkorn af Moggavef:,,Erlent | mbl | 11.10.2012 | 14:48
Átök á hörpuskelsmiðum í Ermarsundi“
,,Hörpuskelsmið“ eru nefnd í meginmáli líka.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2012/10/11/atok_a_horpuskelsmidum_i_ermarsundi_2/

 Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

  Það er afrek á sinn hátt að gera jafn þunnan þátt um Gimli í Manitoba og Ríkissjónvarpið sýndi okkur á fimmtudagskvöld (11.10.2012). Það vita allir sem þekkja svolítið til á þeim góða stað. Vandséð var hvaða erindi viðtal við mann sem kallaður var Wild Bill átti í þáttinn Líkast til hefur Ríkissjónvarpið keypt þetta efni óséð. Það heitir að kaupa köttinn í sekknum.

 

  Jólin eru að koma, segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu (11.10.2012). Líklega byrja jólin að koma um leið og þau eru liðin. Ekki satt?

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Axel skrifar:

    Afsakaðu þetta með Frey. Tók það hugsunarlaust upp frá Kristjáni hér í athugasemdakerfinu. Ég var ekki að segja að Andri væri einhver Fry. Einungis að benda á að Fry er að mörgu leyti sjálfhverfur í sínum þáttum. Það þarf ekki að þýða það sama og léleg dagskrágerð. Sjónvarpið er ekki sögubók eða fræðigrein.

    Kostur Andra er einlægni sem stundum birtist okkur sem saklaus kjánaskapur. Þættirnir gefa sig ekki út fyrir að vera fræðilegir eða söguleg úttekt. Það er lagt upp með að þetta séu afslappaðir skemmtiþættir um fólkið á þessum slóðum. Hvort framleiðendum þátttanna og Andra takist vel upp með ætlunarverk sitt má svo ræða efnislega. Áhorfstölur gefa þó til kynna að einhverjum líki þetta. Og af hverju má ekki spjalla við mann sem kallar sig Wild Bill? Hvað gerir hann svona ömurlegan?

    Ríkissjónvarpið hefur áður sýnt sagnfræðilega þætti um Vestur-Íslendinga. Er önnur nálgun skemmdarverk? Hvaða menningarlegi heilagleiki er þetta?

    Get þó alveg verið sammála molaskrifara að Rúv mætti sýna meira af ,,alvarlegu“ efni um samtímasögu og sagnfræði. En eitt útilokar ekki annað.

  2. Eiður skrifar:

    Umsjónarmaður þessara þátta er enginn Stehen Fry (ekki Frey). Stephen Fry gerir oft ágæta þætti. En seint mundi hann kalla vettlinga ,,gloves“! Ég þekki til í Gimli eftir búsetu í Winnipeg og þessvegna segi ég að þetta hafi verið skemmdarverk á góðu efni, sumpart var þetta kjánagangur. Það er hægt að gera fína sjónvarpsþætti um Gimli, söguna og fólkið sem þar býr. Þetta var sorgleg sóun. Ég reyndi að horfa á þetta með jákvæðum huga, en var nóg boðið. T.d skrítið að heimsækja Tergesen og ræða ekki við Lornu Tergesen sem þar ræður ríkjum. Viðtalið við þennan Wild Bill var út úr kú í þættinum og kom fólkinu í Gimli afskaplega lítið við.m

  3. Axel skrifar:

    Eru þættir Stephen Frey ekki einnig sjálfhverfir? Gerði hann ekki t.d. þátt um eigin geðsjúkdóm? Eru skemmtilegir og góðir sjónvarpsþættir ekki bara stundum sjálfhverfir? Og hvað með það?

    Sjálfum finnst mér nýju þættirnir hans Andra misjafnir. Svolítið um uppfyllingu á milli ágætra atriða. Sumt er fróðlegt, annað ekki. Sumt er fyndið, annað mislukkað. En að kalla þættina skemmdarverk er dæmi um þá þrætuumræðu sem grasserar í netheimum og hefur engan tilgang. Af hverju útskýrir molaskrifarinn úrilli ekki frekar efnislega hvað fellur svona illa að hans smekk í stað þess að úthúða vinnu annarra með órökstuddum fúkyrðum?

  4. Eiður skrifar:

    Þátturinn um GIlmli var skemmdarverk á góðu efni. Mest kjánagangur og sjálfhverfa. Þátturinn var meira um þennan Andra Frey en Gimli.

  5. Kristján skrifar:

    Þessir flandursþættir á RÚV eru á ansi lágu plani. Átti svo sem ekki von á að þeir stæðust samanburð við ferðaþætti Stephens Frey en fyrr má nú vera. Missti áhugann í miðjum þætti um Gimli og skipti um stöð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>