«

»

Molar um málfar og miðla 1039 – leiðrétt

Það var augljóst um leið og atkvæðaseðillinn í skoðanakönnuninni um helgina sá dagsins ljós að ekki yrði um eiginlega kosningavöku í fjölmiðlum að ræða. Á Rás tvö voru um nóttina fluttar talningarfréttir í fréttatímum á klukkutíma fresti. Nú var allt í einu hægt að segja fréttir bæði klukkan þrjú og klukkan fjögur á nóttinni. Þetta er ekki gert venjulega. Það er einkennilegt, því fólk er á vakt á fréttastofunni alla nóttina. Í fréttum næturinnar heyrði Molaskrifari aldrei sagt frá kjörsóknartölum. Það var ekki fyrr í útvarpsþættinum Alltaf að rífast eftir klukkan níu á sunnudagsmorgni sem Molaskrifari heyrði að kjörsókn hefði verið innan við 50%. Það var næstum jafnmikil frétt hver kjörsóknin var eins og hvernig spurningunum á atkvæðaseðlinum var svarað.

Landinn er með allra besta efni Ríkissjónvarpsins.,,Margir eru með reiðufé” sagði ungur piltur svo prýðilega sem rætt var við í i Landanum (21.10.2012) . Mikið er gott að ekki skuli allir tala um ,,cash” enskuslettuna sem nú heyrist æ oftar..

Í dagskrá Ríkissjónvarps á laugardag voru boðaðir tveir aukafréttatímar vegna atkvæðagreiðslunnar. Í dagskárkynningum var aðeins annar fréttatíminn nefndur, klukkan 23 20 en ekki sá síðar sem boðaður var klukkan 02 40. Hversvegna þetta misræmi?

Ágætisþáttur í fréttum Stöðvar tvö (19.10.2012) þar sem sagt var frá nýtingu þorsksins. Meirihluti þess sem áður var kallað slor eða slóg er nú nýtt. Kannski var þetta í fyrsta skipti sem sumir áhorfendur sáu farið innan í fisk.

Það var óþarfi að seinka fréttum Ríkissjónvarps (19.10.2012) vegna beinnar útsendingar frá fimleikamóti í Árósum. Síðustu mínútur útsendingarinnar frá Árósum var ekkert að gerast á skjánum og íþróttafréttamenn héldu uppi afar innihaldslitlu samtali. Það á að kappkosta að fréttir og aðrir dagskrárliðir hefjist á auglýstum tíma. Ríkissjónvarpið gæt lært ýmislegt um dagskrárstundvísi í af útvarpsmönnum á sama vinnustað.

Það þarf líka að lesa prófarkir að skjátextum þar sem dagskrá Ríkissjónvarpsins er kynnt. Hvimleitt var að horfa aftur og aftur á ritvillu í heiti dellumyndar föstudagskvöldsins. Sagt var að myndin héti Af annari stjörnu. Það er grunnskólamál að vita að annarri er skrifað með tveimur r- um

Í þættinum Alltaf að rífast sem fluttur er á sunnudagsmorgnum á Rás eitt sagði prófessor emerítus Njörður P. Njarðvík að orðið þjóðkirkja væri rangþýðing úr dönsku stjórnarskránni á orðinu Folkekirke sem væri í raun alþýðukirkja, ekki þjóðkirkja. Færði hann rök fyrir þessari skoðun. Molaskrifari leyfir sér að hafa aðra skoðun. Danska þingið heitir á dönsku Folketinget, Það er þjóðþingið ekki alþýðuþingið.
Lesandi sendi þetta: ,,Í síðdegisþætti rásar 2. í gær (19.01.2012) var Lára Ómarsdóttir, fréttamaður, í viðtali. Annar stjórnanda spurði: „Hvenær lokar kjörstöðum“?
Lára svaraði: ,Þeim lokar kl. 22:00”. Já , hérna. Vonandi var hún að grínast eins og bent hefur verið á. Molaskrifari var einmitt að dást í huganum að fréttamönnum Ríkisútvarpsins, sem hann heyrði til bæði á laugardag og sunnudag. Þeir fóru ævinlega rétt með. Sögðu að kjörstaður yrðu opnaðir klukkan níu og kjörstöðum yrði lokað klukkan tíu En hrós fá þeir sem hrós eiga skilið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>